20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þar sem hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, en hann hefur verið borinn hér talsverðum sökum, finnst mér rétt, að ég taki svari hans, fyrst að aðrir verða ekki til þess.

Í áliti meiri hl. þeirrar n., sem hefur fjallað um þetta mál og eins hér í umr., hefur komið fram það álit að kaup þau, sem framkvæmd voru á vegum Alþ. á lóðum hér í nágrenninu á s.l. ári, væru nokkuð hliðstæð þeim kaupum, sem höfðu átt sér stað hjá Landssímanum, þegar hann keypti Sjálfstæðishúsið. Eins og kunnugt er, var það forsrh., sem hafði forgöngu um þessi kaup af hálfu Alþ. og ég tel það með öllu rangt að bera þessi kaup saman, því að ég álít, að sá kaupsamningur, sem forsrh. hefur náð í þessu tilfelli, sé stórum hagstæðari en sá, sem símamálarh. hefur náð, þegar hann keypti Landssímahúsið.

Báðar þessar eignir eru fyrst og fremst keyptar til þess að fá þær lóðir, sem þar er um að ræða, en ekki vegna þeirra húseigna, sem á þeim eru, enda er sannleikurinn sá, að þar sem áformað er að reisa nýjar byggingar á þessum lóðum, þá er sjálfsagt gert ráð fyrir, að þær byggingar, sem nú eru á þeim, verði rifnar niður og í báðum tilfellum er hér um gamlar byggingar að ræða, gömul hús, sem eru ekki sérlega mikils virði, þegar þau eru metin ein sér, en það, sem gerir þau hins vegar verðmæt, eru lóðirnar, sem þau eru á. Og ef maður leggur það meginatriði til grundvallar, þá er útkoman sú, að sú lóð, sem fékkst með því að kaupa Sjálfstæðishúsið, er 600 fermetrar. Fyrir það eru greiddar 16 millj. kr. Sú lóð, sem fékkst við kaupin, sem forsrh. gerði fyrir Alþ., er 1.600 fermetrar. Fyrir þá voru ekki borgaðar nema 20 millj. kr. Ég held, að það ættu allir að geta séð, að forsrh. hefur komizt að mjög hagstæðum samningum, þar sem hann fær 1.600 fermetra fyrir 20 millj. kr., en símamálarh. fær 600 fermetra fyrir 16 millj. kr. Ég held, að það liggi alveg í augum uppi, að hv. forsrh. hefur gert þarna miklu hagstæðari kaup en símamálarh. og þess vegna er það með öllu rangt að bera kaup þeirra saman í þessu tilfelli. Þetta var nú það, sem átti meginþátt í því að ég kom hér upp, því að ég vildi ekki láta forsrh., þar sem hann var fjarverandi, liggja undir röngum ásökunum í þessu sambandi.

Annars finnst mér, að viðbrögð símamálarh. í þessu tilfelli séu nokkuð einkennileg. Ef ég hefði verið í hans sporum og talið, að ég hefði þarna algjörlega hreint mjöl í pokahorninu, þá hefði ég fúslega samþykkt að rannsókn færi fram á þessum kaupum, til þess að það kæmi fullkomlega í ljós, að ég hefði ekki haft neitt að fela og ég hefði gert hliðstætt því hér á þingi. Ég var ásamt nokkrum þm. borinn þeim sökum, að ég hefði framið trúnaðarbrot í utanrmn. og ég fór fram á, að skipuð yrði alveg hliðstæð n. og sú, sem hér um ræðir, til þess að rannsaka, hvort þessi áburður væri réttur, en því miður fékkst þingið ekki til að fallast á, að þessi rannsókn færi fram. Ég álít, að hæstv. símamálarh. hefði í þessu tilfelli átt að gera nákvæmlega það sama. Hann er borinn hér þeim sökum, að hann hafi staðið að óhagstæðum kaupum fyrir ríkið og það sé vegna þess, að flokkur hans sé viðriðinn. Mér finnst slíkt mál einmitt vera þannig vaxið, að ef hæstv. ráðh. teldi allt í lagi hjá sér, þá ætti hann beinlínis að heimta rannsókn á þessu og sýna með niðurstöðum hennar, að við þessi viðskipti væri ekki neitt að athuga, en það, að ráðh. vill ekki fallast á slíka rannsókn og ekki einu sinni, þó að hún eigi að fara fram á viðtækari hátt, svo að þetta mál mundi upplýsast enn þá betur, – það gefur mér ástæðu til þess að halda, að ráðh. telji sinn málstað ekki eins góðan og hann vill vera láta. Því ef hann hefur ekkert að fela, hvers vegna vill hann ekki láta rannsóknina fara fram?

Það, sem ég vildi svo vekja athygli á að síðustu, er það, að kaup ríkisins sjálfs á fasteignum og ríkisstofnana annars vegar fara fram með mjög ólíkum hætti. Kemur mjög til athugunar, að það sé gerð samræming á því. Ríkið getur sjálft enga fasteign keypt og enga fasteign selt, nema það sé borið undir Alþ. og Alþ. hafi þannig aðstöðu til þess að fylgjast með gerðum þess í þessum efnum. Aftur á móti virðist ríkisstofnunum vera alveg í sjálfsvald sett að selja og kaupa fasteignir á því verði, sem þeim sýnist. Og því er ekki að neita, að á undanförnum árum hafa átt sér stað fasteignakaup af hálfu ríkisstofnana, sem eru sennilega ekkert skárri en þau kaup sem hér um ræðir og það hefur verið gert, án þess að Alþ. fengi nokkuð um það að fjalla. Ég álít, að það eigi að koma á samræmingu í þessum efnum á þann veg, að það verði að bera það undir Alþ. með einhverjum hætti, þegar ríkisstofnanir kaupa og selja fasteignir. Þetta gildir um ríkið sjálft og öðruvísi er ekki hægt að koma á fullri samræmingu í þessum efnum. Þetta er atriði, sem ég álít, að Alþ. eigi að taka til athugunar, ekki sérstaklega í sambandi við þetta mál, heldur til þess að skapa almenna reglu um það, hvernig þessum málum verður háttað í framtíðinni, þ.e. fasteignakaupum og fasteignasölum af hálfu ríkisins og ríkisstofnana.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, enda var það aldrei ætlun mín að taka þátt i þessum umr. og hefði ekki gert það, ef ég hefði ekki talið nauðsynlegt að verja forsrh., þar sem hann var fjarverandi.