12.12.1968
Efri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði frá við 2. umr. þessa máls, þá voru til athugunar nokkrar brtt. til viðbótar hjá meiri hl. sjútvn., og liggja þær nú fyrir á þskj. 157. Mun ég nú leyfa mér að útskýra þær hverja fyrir sig með örfáum orðum.

Fyrst er brtt. við 2. gr.; nokkru neðan við miðja grein byrjar ein línan á orðunum: „Greiðsla stofnfjárgjalds kemur til framkvæmda við gildistöku nýs fiskverðs samkv. 1. gr.“ — Hér þarf fyrst að leiðrétta orðið „stofnfjárgjalds,“ það mun eiga að vera „stofnfjársjóðsgjalds“, þótt það sé ekki fallegt orð; þessa þarf víst við vegna samræmis við það, sem segir annars staðar í frv. En svo er ofurlítil breyting til viðbótar. Til þess að það komi skýrt fram, að þessi fyrirmæli í 2. gr. eigi ekki jafnframt við 4. gr., óskum við að bæta inn orðunum: „(stofnfjársjóðsgjald) samkv. þessari gr.“ en 4. gr. á við það, þegar fiskiskip selur afla í erlendri höfn, og þar er ekki hugsunin, að gjaldið komi til framkvæmda fyrr en lögin ganga í gildi, — og er brtt. fyrst og fremst fram komin til þess, að þetta liggi ljósara fyrir en sumum þótti það gera áður.

Þá kemur brtt. við 10. gr., sem var 9. gr. í frv. áður. Í 10. gr., 1. lið, á að koma á eftir orðunum: „hertum þorskhausum“ orðið „skelfiski“. Ég held, að það verði enginn ágreiningur um það, að takist að flytja út skelfiskinn, eigi hann heima þarna.

Næst komum við að 15. gr. sem var 14. gr. áður. Á eftir b-lið bætist við nýr liður: „Allt að 6 millj. kr. til síldarútvegsnefndar vegna síldarflutninga af fjarlægum miðum 1968“. Svo var ráð fyrir gert, að kostnaðurinn af þessum flutningum af fjarlægum miðum yrði kringum 15 millj. kr. og skiptist að jöfnu á síldarsaltendur og eigendur skipanna, og átti síldarútvegsnefnd að jafna þessu niður á tunnu eftir réttum hlutföllum þeirra á milli. En nú fór svo, að síldaraflinn varð mun minni heldur en gert var ráð fyrir, en kostnaðurinn hins vegar nokkurn veginn sá, sem áætlaður hafði verið. Því skortir þessa fjárhæð, eða milli 6 og 7 millj. króna, á að síldarútvegsnefnd geti staðið í skilum með kostnaðinn vegna flutninganna og þykir eftir atvikum rétt, að það sé tekið af óskiptu ásamt öðrum þeim hlutum, sem nefndir eru í þessari grein. En að sjálfsögðu verður það til þess að lækka það fé, sem er til ráðstöfunar í gengishagnaðarsjóði og skipt er samkv. 17. gr., en þó ekki nema um rúmlega 1%. Því þótti ekki taka því að fara að hrófla við hlutfallinu eftir greinarliðunum þar.

Þá komum við að 17. gr., sem áður var 16. gr., fyrst málsliður a. Þar er gert ráð fyrir, að viss hundraðshluti gangi til greiðslu hluta gengistaps á lánum vegna fiskiskipa, sem byggð hafa verið erlendis og síldarflutningaskipa. Nefndinni hefur borizt erindi frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja um þetta efni, þar sem farið er fram á, að skip, sem byggð eru innanlands, sæti ekki lakari kjörum heldur en skip, sem smíðuð eru erlendis, og hefur þótt rétt að verða við þeirri beiðni. Þess vegna er orðalaginu breytt þannig, að þarna kemur: „Allt að 34.5% gangi til greiðslu hluta gengistaps vegna fiskiskipa og síldarflutningaskipa.“ — Þetta breytir náttúrlega engu um það, sem segir í aths. við 16. gr. um það, hvernig fénu verði varið, en þar er gert ráð fyrir því, að unnt verði að greiða allt að helmingi gengistapsins, og er þá við það miðað, að hlutfallslega mest sé greitt vegna hinna stóru og dýru skipa, sem keypt hafa verið síðustu árin, en minnkandi eftir því, sem skip eru eldri og minna er ógreitt af lánum. Þessi aths. á að sjálfsögðu einnig við um þau skip, sem smíðuð eru innanlands.

Þá kemur næsti stafliður, b. Þar er gert ráð fyrir, að sá liður gildi aðeins fyrir þau skip, sem stunduðu veiðar á norðausturmiðum sumarið og haustið 1968, en þetta er ekki í fullu samræmi við það fyrirheit, sem síldveiðiflotanum hafði verið gefið, og þess vegna hefur orðið samkomulag um að breyta þessum staflið þannig, að þarna komi: „Allt að 16.4% gangi til að auðvelda bátum, sem síldveiðar stunduðu sumarið og haustið 1968,“

— sleppa því að nefna norðausturmið. En svo aftur síðar í mgr., þar sem segir: „Sjútvmrn. setur reglur um greiðslur þessar,“ — þar sé bætt við: „í. samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. við verðlagningu norður- og austurlandssíldar sumarið 1968“, — og síðan eins og í frvgr. segir: „og að fenginni umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna“.

Þetta eru þær greinar, sem við óskuðum að bera fram brtt. um til viðbótar. Ég vonast til, að deildin fallist á, að þær séu allar frekar til bóta og að frv. megi hljóta afgreiðslu úr deildinni, svo breytt.