22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3166)

53. mál, frjáls umferð Íslendinga á Keflavíkurflugvelli

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, er hluti af þeim fyrningum, sem hv. staðgengill 11. þm. Reykv. lét okkur í té eftir stutta búskapartíð, en sögulega hér í d. Allshn. hefur, sem vera ber, athugað málið mjög gaumgæfilega og m.a. fengið á sinn fund deildarstjóra varnarmáladeildar utanrrn., sem góðfúslega fræddi okkur nm. um mörg atriði, sem málið snerta og sýndi okkur uppdrætti að væntanlegu skipulagi og núverandi skipulagi umferðar á þessum hluta flugvallarins. Það kom í ljós, að það er á misskilningi byggt, þegar hv. flm. gerir ráð fyrir því, að þeir, sem erindi eiga um hliðin að flugvellinum á leið í flugstöðvarbygginguna, þurfi að hlíta eftirliti og leyfi bandarískra herlögreglumanna við þessa aðalflugstöð íslenzka ríkisins. Sannleikurinn er sá, að engir aðrir en varnarliðsmenn og erlendir starfsmenn varnarliðsins eru háðir eftirliti bandarísku varðmannanna við flugvallarhliðið. Íslenzku varðmennirnir hafa einir allt eftirlit með öllum íslenzkum ríkisborgurum, svo og erlendum ferðamönnum og öðrum gestum, sem fara um hliðið. Þar með er nú í sjálfu sér botninn dottinn úr þessari till. og þeir, sem oft hafa átt leið um þetta svæði, hafa einnig, líklega flestir, veitt því eftirtekt, að þarna er ekki um stórkostlegt eða óþægilegt eftirlit að ræða. Þarna sitja tveir menn í skýli og þegar almenningsvagnar flugfélaganna fara þarna um, er þeim ævinlega veifað að halda áfram án stöðvunar og ég hef a.m.k. aldrei orðið fyrir því að vera stöðvaður á ferðum mínum í einkabifreið, þegar ég hef þurft að fara um Keflavíkurflugvöll á leið til útlanda eða frá útlöndum.

Varnarmáladeildin hafði einnig athugað það atriði nánar, hvort þarna væri um tíða árekstra að ræða. Í ljós kom, að hvorki flugvallarstjóranum, lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli né varnarmáladeild hafði borizt ein einasta kvörtun um árekstra við varðmennina í þessum frægu hliðum. Það næsta, sem mætti segja, að hafi komizt við kvartanir, var það, að sagt er, að einhverjum hafi verið veifað áfram af amerískum varðmanni, þótt íslenzkir ríkisborgarar væru ekki stöðvaðir, en veifað að halda áfram. Og af hverju stafar þá þetta? Jú, það stafar af því, að sumir af varðmönnum okkar hafa verið, — hvernig eigum við að orða það — ofurlitið botn þyngri, en hinir ungu amerísku varðmenn, sem þarna eru og að Íslendingarnir hafa af eðlilegum ástæðum fleiri erindi til símtala við náunga sína hérlendis heldur en Ameríkanarnir. Þessir góð viljuðu nágrannar okkar hafa því í bezta skyni tekið af íslenzkum félaga sínum ómakið með að banda hendinni til merkis um, að landinn mætti fara frjáls ferða sinna.

En segjum nú svo, að undan einhverju hefði verið að kvarta þarna, að hér hefði ekki verið um hreina hótfyndni að ræða, eins og er, þá er það mikill misskilningur, þegar hv. flm. segir í grg., að hér sé auðvelt úr að bæta, það sé auðvelt og kostnaðarlítið að leysa þetta mál. Hann hugsar sér að girða núverandi veg eða leggja sérstakan veg afgirtan að flugstöðvarbyggingunni. Í sjálfu sér mundu nú slíkar aðgerðir auðvitað ekki framkvæmdar að kostnaðarlausu, þótt aðstæður væru á allan hátt auðveldar á þessu svæði. En þess gleymdist að geta í grg. fyrir till., að vegurinn að flugstöðvarbyggingunni liggur um byggt svæði í íbúða– og athafnasvæði varnarliðsins og með afgirtri vegarlagningu frá aðalhliðinu að flugstöðvarbyggingunni hefði ekki verið hjá því komizt að gera annaðhvort göng undir veginn eða brýr yfir hann til þess að trufla ekki eðlilega umferð gangandi fólks og farartækja um völlinn. Þótt engar áætlanir liggi fyrir og ekki sé kostandi upp á slíkar áætlanir til að framkvæma jafnfjarstæðar till. og hér eru á ferðinni, þá ætti hverjum manni að vera ljóst, að slík göng eða brýr yrðu ekki gerð öðruvísi en með ærnum kostnaði.

En svo kemur eitt atriði enn til sögunnar. Deildarstjóri varnarmáladeildar upplýsti, að vegna vaxandi flugumferðar er gert ráð fyrir því, að innan mjög fárra ára þurfi að koma upp nýrri flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli og samkvæmt skipulagsuppdrætti, sem n. var einnig sýndur, yrði hin nýja stöð þannig staðsett, að hún lenti utan flugvallargirðingarinnar beint við áframhald núverandi Reykjanesbrautar, þannig að aksturinn að stöðvarbyggingunni og innganga í hana yrði án allra íslenzkra eða amerískra varðmanna og gæti þess vegna jafnvel ekki truflað hinar viðkvæmustu taugar. Því er það, að meiri hl. n. telur, að hér sé um ástæðulausa og óþarfa till. að ræða og leggur til við hv. þd., að till. verði borin undir atkv. og felld.