18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

34. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt að heyra, hversu áhugi manna hefur vaxið á síðustu tímum, fyrir ferðamálum. Sú aukning ferðamannastraums, sem orðið hefur til landsins síðustu árin, hefur opnað augu manna fyrir því að þetta getur orðið þýðingarmikil atvinnugrein í landinu. Og vissulega þarf meira hér til að koma en gert hefur verið hin síðari ár, enda þótt því verði ekki neitað, að ferðamannastraumurinn til landsins hefur aukizt mjög mikið síðustu 5—10 árin frá því, sem áður var.

Til þess að hægt sé að taka á móti ferðamönnum til landsins, þarf vitanlega ýmislegt að gera. Það þarf að vera aðstaða, nægilegur hótelkostur, ekki aðeins í höfuðborginni, heldur einnig víðs vegar um landið. Þegar lög voru sett um ferðamál og ferðamálaráð var sett á laggirnar og ferðamálasjóður stofnaður, var hv. Alþ. og ríkisstj. þetta jóst. Nú hefur ferðamálaráð og ferðamálasjóður starfað á 5. ár og árangurinn er talsverður. Ég má jafnvel segja mjög mikill. Ferðamálasjóður hefði auðvitað þurft að hafa meira fjármagn til útlána, heldur en hann hefur haft. Eigi að síður hefur mikið um þetta munað og mikil breyting á orðið í aðstöðunni til að taka á móti ferðamönnum frá því, sem áður var. Þarf ekki að lýsa því fyrir hv. alþm., svo kunnugt sem það er.

Ferðamálaráð hefur unnið að skipulagningu ferðamála, hefur mælt með þeim lánum, sem veitt hafa verið úr ferðamálasjóði, hefur aflað sér yfirlits yfir húsakost og möguleika til þess að hýsa ferðamenn og gert ýmsar ráðstafanir til þess að greiða fyrir þessu máli. Ferðamálaráð vinnur nú að því, að gerð verði allsherjaráætlun í ferðamálum á Íslandi, ekki til þriggja ára, heldur til 10 ára, tveimur 5 ára tímabilum. Að þessu hefur verið unnið, en þessari áætlun er ekki lokið og ferðamálaráð hyggst nota aðstoð þeirra manna, sem færir eru á þessum sviðum. Nú nýverið barst bréf frá Sameinuðu þjóðunum, þar sem boðizt er til að leggja fram starfskrafta okkur til aðstoðar í þessu skyni. Og ég geri ráð fyrir, að ef slík aðstoð er ekki neinum sérstökum skilyrðum háð, sem ekki er ástæða til þess að ætla, verði hún þegin með þökkum.

Við vitum allir, að Ísland er að mörgu leyti vel fallið sem ferðamannaland. Það þarf ekki að lýsa náttúrufegurðinni, og við vitum, að hér eiga erlendir ferðamenn þess kost að sjá það, sem þeir hafa ekki séð áður, ósnortna og stórbrotna náttúru og umhverfi, sem er alls ólíkt því, sem þeir hafa áður séð. Þess vegna er vissulega ástæða til þess að ætla að Ísland geti orðið ferðamannaland, ef nauðsynlegum skilyrðum er fullnægt, þ.e. að geta veitt þá þjónustu, sem ferðamenn vilja fá. Hún þarf að vera góð og hún má ekki heldur vera allt of dýr. Ferðamálaráð hefur, eins og ég sagði, gert ýmsar ráðstafanir til þess að greiða fyrir ferðamönnum. Á landsbyggðinni utan Reykjavíkur og Akureyrar eru nú 900 gistirúm, sem eru starfrækt allt árið. Þetta hefur aukizt sennilega um 100% síðustu fáu árin. Á sumrum eru tiltæk gistirúm í 36 heimavistarskólum, að vísu misjafnlega góðum, en þar eru ca. 1.700 gistirúm. Ferðaskrifstofa ríkisins og ferðamálaráð hafa átt þátt í að skipuleggja þetta og þetta hefur gefizt ágætlega. Þjónustan í sumar gistihúsunum hefur reynzt með ágætum og verðinu stillt í hóf. Í Reykjavík eru nú starfandi sumarmánuðina 10 gistihús með 484 herbergjum og 849 rúmum, en eins og kunnugt er, eru ekki nema fá ár síðan 3 hótel tóku til starfa hér í Reykjavík, Saga, Loftleiðir og Holt og nú skilja fáir, hvernig var hægt að komast af áður, en þessi hótel komu hér til starfa. Það hefur vissulega einhvern tíma verið þröngt með gistirúm hér í Reykjavík áður.

Á Akureyri eru starfrækt sumarmánuðina 156 herbergi með 325 rúmum. Auk þess eru leigð út herbergi á einkaheimilum bæði í Reykjavík og á Akureyri og kauptúnum úti á landsbyggðinni. Þetta út af fyrir sig er allt í áttina, en ef við ætlum að auka ferðamannastrauminn, þarf vitanlega að halda áfram á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið seinni árin og ekki aðeins að tvöfalda möguleikana til gistingar, heldur margfalda í samræmi við aukningu ferðamannastraumsins.

Fyrir 10 árum munu hafa komið hingað til lands eitthvað um 9 þús. ferðamenn en 1967 37 þús. og ef taldir eru með farþegar Loftleiða, sem gistu hér aðeins eina nótt eða tvær, munu þetta hafa verið um 44 þús. ferðamenn. En vitanlega væri æskilegt, að þessir ferðamenn skildu eftir meiri gjaldeyri en raun ber vitni og þeir hefðu tækifæri til þess að eyða meira fé, heldur en þeir hafa gert til þessa. En til þess þarf vitanlega að gera ýmsar ráðstafanir, þannig að þeir hafi áhuga fyrir því að dvelja hér lengri tíma eftir að þeir hafa komið hingað. Og það er vitanlega mikið atriði fyrir flugfélögin, að ferðamannastraumurinn geti aukizt, því að það tryggir góða sætanýtingu hjá þeim og skapar möguleika til þess, að rekstursgrundvöllur þeirra verði mun betri.

Það er ekkert nema gott um þann áhuga að segja, sem lýsir sér hjá flm. þessarar till. og enginn vafi á því, að það er aðeins gott eitt meint með því, að flytja þetta mál hér inn á Alþ., en ég kemst ekki hjá því að nefna ferðamálaráð í þessu sambandi og starfsemi þess á undanförnum árum, en það starfar algerlega í þeim anda, sem þeirri n., sem lagt er til, að skipuð verði samkvæmt þessari till., er ætlað að gera. Og þess vegna er það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, hlýtur að athuga og kynna sér nákvæmlega hvers konar verkefni ferðamálaráð hefur með höndum og hvort óhætt er að treysta ferðamálaráði til þess að vinna eftir þeirri stefnu, sem flm. þessarar till. vilja marka. Það er lagt til að skipa hér n. manna samkv. tilnefningu ferðamálaráðs og í sumum tilfellum eru það sömu aðilarnir, sem eiga að tilnefna menn í þessa n. og þeir, sem tilnefna fulltrúa í ferðamálaráð. Í ferðamálaráði eru 9 menn tilnefndir af ýmsum aðilum, sem gleggst þekkja til ferðamála. Þetta er matsatriði, en ég leyfi mér að efast um, að þótt skipuð verði ný n., hafi hún meiri eða betri möguleika til þess að vinna heldur en ferðamálaráð gerir nú í samráði við ferðaskrifstofuna. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé að vanmeta þessa viðleitni hv. flm. till. En ég kemst ekki hjá að vekja athygli á því og mælist til þess, að hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, athugi þetta rækilega og geri sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að ræða.

Eins og ég benti á áðan, er það álit þeirra, sem við ferðamál hafa fengizt, að 3 ár séu alltof stuttur tími í áætlunargerð í þessu sambandi. Það sé sjálfsagt að gera áætlun til 10 ára, sem væri þá skipt í tvö 5 ára tímabil og reyna að skapa sér þannig trausta yfirsýn yfir þessi mál til nokkurrar frambúðar. Það er rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að vitanlega er nauðsynlegt að auka landkynninguna, því að hún hlýtur að vera að nokkru leyti a.m.k. undirstaðan undir því, að útlendir ferðamenn sæki okkur heim. En við skulum ekki gera allt of lítið úr þeirri starfsemi, sem farið hefur fram undanfarið, þótt fjármagnið hafi vitanlega verið takmarkað. Landkynning hefur átt sér stað allmikil og allvíðtæk. Loftleiðir hafa kostað á okkar mælikvarða miklum fjárhæðum til landkynningar og árangurinn er mikill af því. Flugfélag Íslands hefur einnig gefið út bækling í þessu skyni, landkynningarbækling, sem hefur verið útbýtt og upplagið af þessum bæklingum er allstórt miðað við það, sem við eigum að venjast. Eimskipafélag Íslands hefur einnig átt nokkurn þátt í landkynningunni. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur árlega gefið út bæklinga og ferðamálaráð stendur nú að útgáfu slíks bæklings. Enda þótt æskilegt væri að nota meira fjármagn til þessarar starfsemi og verður ugglaust gert í framtíðinni, þá skulum við ekki vanmeta það, sem gert hefur verið áður, enda er það alveg vitað mál, að ferðamannastraumurinn á síðustu 5—10 árum hefði ekki aukizt hingað til lands um 400%, ef ekkert hefði verið gert til þess að auka ferðamannastrauminn hingað til landsins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Það er hér gert ráð fyrir því, að félag áhugamanna um fiskirækt eigi fulltrúa í þessari n., ef hún kæmist á laggirnar, því að fiskirækt í sambandi við ferðamálin væri þýðingarmikið atriði. Þetta er allt saman rétt, að fiskiræktin er vitanlega mikið atriði. Ferðamenn, sem hingað koma, vilja sumir dvelja við laxveiðar eða láta sér nægja að stunda aðeins silungsveiði. Fulltrúar í ferðamálaráði gera sér alveg grein fyrir þessu og síðan laxeldisstöðin í Kollafirði tók til starfa, hefur áhugi um fiskirækt einnig farið mjög vaxandi og unnið er nú að því.

Það má alltaf segja, að það mætti gera meira til þess að efla þessa atvinnugrein og ég skal taka undir það. Það má gera meira og er þörf á að gera meira. Þá vil ég segja það, að nú a.m.k. skortir engan skilning á þessu. Og ég efast um, að þótt fulltrúi frá félagi áhugamanna um fiskirækt ætti aðild að þessari n., ýtti það nokkuð sérstaklega undir fiskirækt. Ég er þó hins vegar ekkert að mæla gegn því. Það gæti vel komið til greina, að maður frá þeim samtökum fengi sæti í ferðamálaráði, ef svo vildi við horfa.

Það eru tekin fram í grg. nokkur atriði, sem gætu komið til greina, að þessi n. ætti að vinna eftir. Það hefur verið skipulögð landkynningarauglýsing í landinu á vegum ríkisins, en að því er unnið og það má auka, enda þótt engin ný n. kæmi til. Miklar samgöngubætur um óbyggðir landsins, sem auðveldi aðgang að náttúruundrum landsins og veiðisvæðum öræfanna. Þetta er alveg sjálfsagt, að unnið verði að og ferðamálaráð hefur áreiðanlega mikinn skilning á. Það verður vitanlega unnið að þessu eftir því, sem fjármagn verður til hverju sinni. Hagkvæmar framkvæmdir í byggingu gistihúsa og veitingastaða og sumarhúsa í óbyggðum og við veiðivötn. Þetta er einnig vettvangur ferðamálaráðs eins og reynslan hefur sýnt. Stóraukin laxfiskirækt í ám og vötnum ásamt vernd þeirra fiskistofna, sem fyrir hendi eru. Þetta er líka nokkuð, sem er fyrir hendi. Fjármagnsþörf í samræmi við markmið áætlunarinnar verði gaumgæfð og þá um leið möguleikar á erlendu lánsfjármagni til að hrinda henni í framkvæmd. Einnig þarf þetta að fylgja með og er vitanlega með í útreikningunum. Aukin samvinna þeirra, sem að atvinnugreininni starfa m.a. með tilliti til öflunar fjárfestingarfjármagns og nýtingar þess.

Allir þessir punktar eru nauðsynlegir og nauðsynlegt að hafa með, þegar hugsað er um þessi mál og framkvæmd þeirra og ákveðið er að efla þau, þannig að mér dettur ekki í hug að mótmæla því á neinn hátt, en vil eigi að síður vekja athygli á því, að öll þessi atriði hefur ferðamálaráð á sinni stefnuskrá og hefur unnið eftir meira og minna.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri, en vil aðeins óska þess, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, sem ugglaust hefur sama áhuga og hv. flm. fyrir eflingu ferðamála í landinu, kynni sér rækilega starfsemi ferðamálaráðs og þá stefnu, sem það hefur unnið eftir síðan það var sett á laggirnar