16.12.1968
Neðri deild: 30. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið hér fram, er hér um eina af meiri háttar hliðarráðstöfunum að ræða í sambandi við gengislækkunartillögu ríkisstj. í efnahagsmálum. Með þessu frv. er lagt til að lögbinda ýmis mikilvæg ákvæði, sem snerta sjávarútveginn og þegar hafa risið allmiklar deilur út af.

Í I. kafla þessa frv. er gert ráð fyrir því að gjörbreyta þeim reglum, sem í gildi hafa verið um alllangan tíma um skiptingu á aflaverðmæti fiskiskipanna á milli skipshafnar annars vegar og útgerðar hins vegar. Það eru þessi ákvæði frv., sem sérstaklega hafa valdið deilum. Eins og fram hefur komið, þá er hér lagt til, að sá háttur verði tekinn upp að ákveða, að 10% af fiskverði fiskiskipanna, þegar að aflinn er lagður upp innanlands, 10% af aflaverðmætinu verði tekið af óskiptu og lagt í svo nefndan Stofnfjársjóð fiskiskipa, sem er ætlað það hlutverk að standa undir greiðslum á afborgunum og vöxtum á lánum fiskiskipanna. Þó er gert ráð fyrir því, að þegar um er að ræða síldveiðar og humarveiðar, þá eigi þetta gjald af óskiptum afla að nema 20%. Það er auðvitað öllum ljóst, að hér er um að ræða stórfellda breytingu, sem snertir hlutaskiptakjörin á fiskiskipum.

Þá er einnig í þessum I. kafla frv. gert ráð fyrir, að 17% af aflaverðmætinu, þegar um innanlandslöndun á afla er að ræða, skuli renna beint til útgerðaraðila og dragast frá aflaverðmætinu, áður en hlutaskipti eiga sér stað til skipshafnar. Með þessum tveim ákvæðum er því lagt til, að tekið verði af óskiptum afla á þorskveiðum sem nemur 27%, 10% í Stofnfjársjóð og 17% vegna almennrar hækkunar á útgerðarkostnaði skipanna, eða sem nemur 27% af óskiptu, og þetta mundi sem sagt koma fram í lækkuðum aflahlut sjómanna. Þegar um er að ræða síldveiðar, þá gæti þetta numið 37%, sem vitanlega raskar hér hlutaskiptakjörunum mjög verulega frá því, sem verið hefur.

Í stað þessara ákvæða er svo það að finna í þessum kafla, að þegar um er að ræða, að fiskiskip selji afla sinn erlendis, þá er gert ráð fyrir því, að á þennan sama hátt verði dregið frá óskiptu verðmæti sem nemur 22% af brúttósöluverði aflans. En með því að sú hundraðstala er nokkuð lægri en í hinum tilfellunum, þegar um innanlandslöndun er að ræða, þá byggist það á því, að hún er reiknuð af allmiklu hærra aflaverðmæti, sem fæst fyrir aflann erlendis, heldur en innlenda verðið er yfirleitt.

Það er auðvitað ekkert um það að villast, að hér er farið inn á samningakjör sjómanna við útvegsmenn. Hér er lagt til með lögum að breyta þeim samningum, sem í gildi hafa verið, og það er ekki nema von, að það kalli á hörð mótmæli af hálfu þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli og verða fyrir verulegri tekjuskerðingu í þessu tilfelli.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvmrh. gerði hér nokkra tilraun til þess að láta það líta svo út, að hér væri ekki um neina nýjung að ræða. Raðstafanir hliðstæðar þessum hefðu verið gerðar hér áður. En það er mikill misskilningur. En af því að nokkrir fleiri hafa reynt hér í umræðum um þetta mál að halda fram svipuðu, þykir mér rétt að fara um það nokkrum orðum, hvernig þessum málum hefur verið háttað hér áður.

Það var á árinu 1951, sem upp var tekinn hér svo nefndur bátagjaldeyrir til stuðnings fiskibátaútgerðinni í landinu, og árið þar á eftir naut útgerðin ýmiss konar fríðinda, gjaldeyrisfríðinda, og stuðnings á ýmsum sviðum og í mjög margvíslegu formi. Þetta leiddi til þess, að á næstu árum á eftir voru uppi allmiklar deilur um það á milli sjómanna og útvegsmanna, hvert væri í raun og veru orðið fiskverðið í landinu, en sjómenn höfðu haft samninga við útgerðarmenn um það, að þeir skyldu hafa tiltekinn aflahlut af fiskverðinu, eins og það væri á hverjum tíma. Þessi ágreiningur leiddi til þess, að sjómenn fóru í mál við útgerðarmenn í þó nokkrum tilfellum til þess að fá úr því skorið, hvort þeir fengju raunverulega þann aflahlut, sem samningaákvæði segðu til um, af því að á þessum árum var það orðið harla óljóst, hvað það væri í rauninni orðið, fiskverðið. Það gekk eins og fyrri daginn nokkuð misjafnlega að fá úr þessu skorið með dómi, og þetta leiddi síðan til þess, að sjómenn tóku almennt upp þá reglu, að þeir sömdu við útvegsmenn um fast skiptaverð á fiski, samningsbundið. Þannig var samningum sjómanna og útvegsmanna fyrir komið um margra ára skeið, að í samningunum, sem í gildi voru á milli útgerðarmanna og sjómanna, þá var skiptaprósenta sjómanna miðuð við tiltekið, þar til greint fast skiptaverð. Nú hefur því verið haldið hér fram, að t.d. á vinstri stjórnar tímunum, þá hafi ég átt hlut að því, á svipaðan hátt eins og gert er í þessu frv., að raska þeim kjaraákvæðum, sem voru í gildi á milli sjómanna og útvegsmanna. Þetta er vitanlega algjör þvættingur. Það fær ekki staðizt raunveruleikann á nokkurn hátt. Það eina, sem gerðist í þessu á þessum tíma, var það, að þegar útvegsmenn leituðu eftir því að fá aukinn stuðning, þá átti ég nokkurn þátt í því og þeir, sem þá voru í ríkisstj., að tryggja það, að sjómenn fengju hækkað sitt skiptaverð frá því, sem samningar stóðu um á milli þeirra og útgerðarmanna. Málin snúa því gjörsamlega öfugt við. Það, sem gerðist á þessum tíma, var það, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þegar aukinn var stuðningur við útvegsmenn, að þá skyldu útvegsmenn samþykkja það um leið að breyta þeim samningum, sem í gildi voru, sjómönnum í hag. En nú er hins vegar lagt fram frv. um það að rifta þeim samningum, sem í gildi eru á milli sjómanna og útvegsmanna. Það er sá stóri munur. Enda kom heldur aldrei til þess, að sjómannasamtökin í landinu mótmæltu því, sem gerðist á vinstri stjórnar árunum í þessum efnum. Nei, það var þvert á móti. Núverandi formaður sjómannasambandsins, Jón Sigurðsson, og aðrir af forystumönnum sjómannasamtakanna í landinu áttu samninga við ríkisstj. um það, að hún beitti sér fyrir því, að skiptaverðið, sem þeir höfðu samið um við útvegsmenn, það yrði hækkað sjómönnum í hag, um leið og útgerðarmenn fengju aukinn stuðning. Og það var það, sem gerðist. Svo að þær einu breytingar, sem urðu í þessum efnum á vinstri stjórnar árunum, voru því gerðar í fullu samráði við sjómenn og eingöngu þeim í hag, öfugt við það, sem er verið að gera nú.

En þessi saga er ekki öll sögð enn. En sem sagt, eins og ég hef sagt, þá hafði skapazt á þessum tíma sú venja í kjarasamningunum sjálfum, að hlutaskiptakjörin voru orðin miðuð við þar til tekið skiptaverð alveg án tillits til þess, hvað fiskverðið var, því það var mjög óljóst, hvað það var, þegar að einstök fríðindi höfðu verið metin. En vitað var það, auðvitað, að vegna þess, að hér var miðað við tiltekið fast skiptaverð í samningum, þá var skiptaprósentan þar af leiðandi tiltölulega há. En svo gerðist það, að núverandi stjórnarflokkar beittu sér fyrir samþykkt efnahagslaganna árið 1960, og þá settu þeir ákvæði í þau lög um það að svipta í sundur þeim hlutaskiptalögum, sem áður höfðu verið í gildi, og þeir settu þá samtökum sjómanna og útvegsmanna ákveðinn frest til þess að semja um hlutaskiptakjörin að nýju, og þá skyldu hlutaskiptasamningar miðaðir við það fiskverð, sem ákveðið yrði af Verðlagsráði á hverjum tíma, og þá skyldi það vera sama fiskverð til útgerðarmanna og sjómanna.

Það er rétt að rifja þetta upp, að það var árið 1960, sem núv. stjórnarflokkar beita sér fyrir löggjöf um það, að fyrri ákvæði skuli felld niður, svo að sjómenn og útvegsmenn verði að semja um ný skiptakjör og þau nýju skiptakjör skulu miðast við sama verð til sjómanna og útvegsmanna miðað við hinar nýju ráðstafanir í efnahagsmálum. Og þetta var gert, sjómenn og útvegsmenn tóku upp nýja samninga og hlutaskiptaprósentan minnkaði sjómönnum verulega í óhag upp úr 1960 með tilliti til þess, að nú ættu þeir að taka hlut úr sama verði og útgerðarmenn. Þetta var gert með beinum lagafyrirmælum. En nú koma þeir sömu stjórnmálaflokkar, sem beittu sér fyrir þessu, þegar á þennan hátt var búið að fá sjómenn til að lækka sína skiptaprósentu — nú koma þeir og vilja einnig afnema þetta með lögum. Slíkar ráðstafanir þýða auðvitað það í framkvæmd, að það er með lögum verið að lækka aflahlut sjómanna. Það er því ósköp eðlilegt, að sjómenn — þegar svona stendur á — að þeir komi fram með hörð mótmæli gegn þessum vinnubrögðum, sem eru auðvitað hreinar árásir á launakjör sjómanna og alveg einsdæmi, því það eru engin fordæmi um það, að á þennan hátt hafi verið snúizt að launakjörum sjómanna — engin. Því, eins og ég hef bent á, að á árabilinu frá 1951 og fram til 1960 þá giltu í þessum efnum gjörsamlega aðrar grundvallarreglur. Ég held því, að ef hæstv. sjútvmrh. og aðrir, sem um þessi mál hafa talað, vilja hafa hið rétta, þá ættu þeir að kynna sér þetta, sem ég hef verið að segja þeim frá núna, því að þetta er í samræmi við veruleikann. En hitt var aðeins út í bláinn, það sem hæstv. ráðh. sagði um þetta.

Þá er það mjög athyglisvert í sambandi við þessi ákvæði í frv., sem snerta launakjör sjómanna, að því er haldið hér fram af ýmsum, að óhjákvæmilegt sé að breyta skiptakjörunum á þann hátt, sem hér er lagt til, til þess að útgerðin fái risið undir auknum útgerðarkostnaði. Auðvitað er það reginmisskilningur, að það gerist nokkuð hjá útgerðinni út af fyrir sig við gengisbreytingu, sem raskar þessu hlutfalli. Það er rangt. Það eru auðvitað bara aðeins ein rök fyrir því, að hér þurfi að breyta þessu hlutfalli, og á þau rök hefur auðvitað oft verið minnzt í þessum umræðum líka, en það er rétt að skoða þau, hvað þau fá staðizt. Þau eru þau, að nú hafi þurft að gera gengislækkun, vegna þess að afli hafi stórminnkað og aflaverðmæti sé orðið miklu minna en það var áður. Þetta eru meginástæðurnar til þess, að nú þykir þörf á því að lækka gengi krónunnar, hækka í verði erlendan gjaldeyri útflutningnum í hag, vegna þess að afli hafi minnkað og aflaverðmæti lækkað. Jú, auðvitað þýðir þetta það í framkvæmd, að þeir aðilar, sem eiga afkomu sína undir aflaverðmætum, eins og útgerðarfyrirtæki, auðvitað þurfa þau tvímælalaust á einhverri aðstoð að halda, þegar þetta gerist. Það er auðvitað ekkert um það að villast, að þegar að afli minnkar t.d. um helming á einhverjum veiðum, ég tala nú ekki um, ef að verðmæti fellur líka, þá er gefið mál, að tekjur þessarar framleiðslu hafa minnkað og það þurfa að koma til einhverjar ráðstafanir til þess að bæta þarna úr. En ef menn skilja það, að útgerðin þurfi á auknum tekjum að halda, vegna þess, að aflahlutur hennar gefur orðið færri krónur, vegna þess að aflinn er minni og aflaverðmætið hefur lækkað, geta menn þá ekki skilið það, að hinn aðilinn, sem átti hinn hlutann af aflanum, hinn helminginn af aflaverðmætinu, sjómennirnir, að þeir hafi líkað orðið fyrir áfalli, og það þurfi kannske eitthvað að gera líka fyrir þá. Það er einmitt í þessum efnum, sem menn gleyma öllu samhengi í sínu máli. Þeir geta allt svo séð það, að það muni þurfa að drýgja tekjurnar hjá útgerðinni, vegna þess að hún varð fyrir því að fá minni afla og fékk minna verðmæti út úr aflanum, en þeim sést yfir það, að skipshöfnin þurfti á þessu að halda alveg á sama hátt.

Ég tók eftir því, að form. Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem hér á sæti á þingi, hann skýrði frá því í sinni yfirlitsræðu á landsfundi útgerðarmanna nú fyrir stuttu, hvernig hefði verið háttað þeim aflaverðmætum, sem síldarflotinn hefur dregið á land nú síðustu árin. Hann skýrði frá því, að miðað við 25. nóvember hefði aflaverðmæti fyrir landaða síld síldveiðiflotans verið árið 1966 11l8 millj. kr. Það er aðeins löndunarverðmæti aflans árið 1966 fram til 25. nóv. Á árinu 1967, sagði form. Landssambands ísl. útvegsmanna, að miðað við 25. nóvember hefði landað aflaverðmæti á síldveiðum verið 500 millj. kr., eða landað aflaverðmæti hafði reynzt 618 millj. kr. minna á árinu 1967 en á árinu 1966, 618 millj. kr. Nú, það er ekki aðeins útgerðin, sem hefur orðið fyrir áfalli á þessu ári, skipshafnir síldveiðiskipanna hafa vitanlega orðið fyrir þessu áfalli að jöfnu á við útgerðina. Í þessu tilfelli, þegar aflinn reyndist yfir 600 millj. minni en á sama tíma árið áður, þá jafngildir það því, að sjómennirnir á síldveiðiflotanum hafa fengið um 300 millj. minna í tekjur á þessum tíma.

Ég tók líka eftir því, að form. Landssambands ísl. útvegsmanna skýrði frá því í þessari ræðu sinni, að miðað við 25. nóvember á þessu ári hefði löndunarverðmæti síldaraflans verið 230 millj. kr., eða það lækkar enn um 270 millj. kr. miðað við það lága ár 1967. Og enn áttu vitanlega skipshafnirnar helminginn af aflaverðmætinu og urðu fyrir þessu áfalli líka.

Nú er okkur sagt, að það þurfi að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, sem miðist við það, að það, sem hafi verið að gerast á árinu 1967 og á árinu 1968, að við verðum að reikna með því, að þetta sé viðvarandi, megum ekki reikna með miklu meiri afla eða meiri verðmætum en komu á land á þessum árum, og að við það þurfi að miða hinar nýju ráðstafanir útgerðinni til stuðnings. En þá segi ég, þó að sjómennirnir fengju að halda sínum aflahlut áfram, sem þeir hafa búið við, eftir að gengislækkun hefur verið framkvæmd í þeim mæli, sem nú hefur verið ákveðið, þá yrði vitanlega ekki um að ræða tekjuhækkun hjá sjómönnum, heldur aðeins um það að ræða, að tekjufall þeirra yrði ekki alveg eins þungbært og áberandi, eins og það hefur verið. Það er vitanlega hin mesta meinloka hjá þeim, sem reyndar í Ed. kölluðu það meinloku hjá öðrum að gera hér kröfur um það, að sjómenn ættu einir allra vinnustétta í landinu að fá kauphækkun vegna gengislækkunarinnar. Það er þeirra stóra meinloka, sem þetta segja, að þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því, að einmitt vegna þess, að aflinn hefur minnkað og aflaverðmætið hefur lækkað, þá hafa sjómenn orðið fyrir miklu meira tekjutapi en aðrir vinnandi menn í landinu, og af því vitanlega á að ætla þeim nú svipaðan aflahlut og þeir hafa haft áður, og þeir mundu ekki verða ofhaldnir af því.

Ég veit það, að það mundu ýmsir segja, eins og hér kom fram hjá hæstv. sjútvmrh., að geti útgerðin ekki fengið þessar sérstöku bætur, sem gert er ráð fyrir í I. kafla þessa frv. - ef útgerðin ekki fengi þessar sérstöku bætur, þar sem stórar greiðslur eru teknar af óskiptum afla og auðvitað á kostnað sjómanna, og þessar upphæðir eru færðar yfir til útgerðarmanna, það er sagt, að ef að útgerðin fengi ekki þessar sérstöku bætur, þá mundi gengisbreytingin ekki koma að gagni fyrir útgerðina. En er það þá alveg víxl, að þetta sé eini hugsanlegi möguleikinn til þess að styðja útgerðina, að ganga á hlut sjómanna á þann hátt, sem lagt er til með þessum ákvæðum? Er það alveg víst, að þetta sé eina hugsanlega leiðin til þess að bjarga útgerðinni í landinu, þ.e. að ganga á þennan hátt á hlut sjómannanna? Ég er ekki í neinum vafa um það, að það eru til aðrar leiðir. Vitanlega hefði verið réttmætt að fara þá leið, sem við höfum bent hér á áður í stjórnarandstöðunni æ ofan í æ í sambandi við umræður um þessi mál. Það hefði mátt létta af útgerðinni margvíslegum útgjöldum, sem á henni hvíla nú, með sérstökum ráðstöfunum. Vitanlega var hægt að lækka vextina, það er enginn vafi á því. Við þurfum ekki að búa hér við þá okurvexti, sem við höfum búið við, og allra sízt okkar útflutningsframleiðsla, það var með öllu ástæðulaust. En þeirri leið var bara einfaldlega neitað og sagt: Við látum sjómennina borga þennan mismun, sem á vantar. Það var líka hægt auðvitað að lækka útflutningsgjöldin til verulegra muna frá því, sem þau eru nú. Þessi útflutningsgjöld eru alltof há, og þau eru líka lögð á á alröngum grundvelli og til þess að halda uppi starfsemi að verulegu leyti, sem er vægast sagt mjög vafasöm.

Það var auðvitað einnig hægt að gera margvíslegar aðrar ráðstafanir, sem miðuðu að því að létta af útgerðinni útgerðarkostnaði. Auðvitað var hægt að mæta kröfum útgerðarinnar í landinu, t.d. með lækkuðu olíuverði. Fyrir nokkrum dögum síðan þá upplýsti hæstv. viðskmrh. það, að verðmunurinn á olíu hér á landi og t.d. í Vestur-Þýzkalandi væri í ýmsum tilfellum 50–70% miðað við afgreiðslu til skipa. Það er enginn vafi á því, að það væri hægt að koma við hér verulegri lækkun á olíuverði, sérstaklega til skipa, frá því sem nú er, ef það væri vilji fyrir hendi. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að athuga þessa möguleika, en telur, að hún geti farið þessa einföldu leið að ætla að leysa allan vandann á kostnað sjómanna. Auk þess hvað hér er nú óréttilega að farið og ósanngjarnlega að farið gagnvart sjómönnum, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að þessi leið er með öllu ófær, hún stenzt ekki í framkvæmd. Ef ríkisstj. kæmi því í gegn og gæti haldið því uppi að breyta hlutaskiptakjörunum á þann hátt, sem hér er lagt til, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að afleiðingarnar yrðu þær á mjög stuttum tíma, að allir beztu sjómennirnir, sem þá vinnu stunda nú, þeir hyrfu í land. Það mundi ekkert halda þeim úti á sjó, eftir að þessar ráðstafanir væru komnar í framkvæmd, annað en þá allsherjaratvinnuleysi í landinu. Vilji menn fara í það að skoða kaupgjaldsnóturnar hjá sjómönnunum, eins og þær koma út á þessu ári, og vilji þeir meta það til einhvers, hverjir það eru, sem hafa lagt sig í það á þessum árum að vera fiskimenn í okkar landi, þá ættu þeir að sannfærast um það, að þeir fá ekki þá menn, sem valizt hafa til sjómennsku, þeir fá þá ekki til þess að ráða sig á fiskiskipin með þeim kjörum, sem alveg óhjákvæmilega mundu leiða til þess, að þeir byggju við mun lægra heildarkaup en þeir gætu fengið í landi. Þetta mundi því ekki standast í framkvæmd. Þetta yrði útgerðinni ekki til góðs. En það er rétt, að það er ekkert nýtt fyrirbæri, að einstaka útgerðarmenn og forystumenn þeirra hafi gerzt svo blindir í þessum efnum, að þeir hafi haldið áfram að berjast fyrir því að lækka aflahlutinn, lækka kaupið hjá sínum starfsmönnum, svo að það hafi leitt til þess, að þeir gátu ekki fengið sjómenn. Það er ekki ýkja langt síðan, að það ástand var ríkjandi í okkar landi, að við gátum með engu móti haldið uppi eðlilegri vetrarvertíð hér, án þess að ráða erlenda sjómenn, mikið á annað þúsund talsins, frá Færeyjum og öðrum löndum, svo að nokkur leið væri til þess að halda skipunum úti. Og það var einmitt um þetta leyti, sem farið var að snúa þessari öfugþróun við, það var á tímum vinstri stjórnarinnar, þegar að lengra var gengið í því að hækka aflahlutinn til sjómanna en áður hafði verið gert. Þá fór þetta fyrst að snúast nokkuð við til hins betra, að það fór að draga úr því, að við þyrftum að sækja sjómenn til annarra landa til þess að við gætum haldið okkar fiskiskipum úti.

En nú heldur hæstv. ríkisstj. það, að það sé eitthvað auðvelt að leysa efnahagsmálin á Íslandi á þann veg að lækka aðeins aflahlut sjómanna nógu mikið. Og svo er sagt í hinu orðinu, að menn ætli að vinna að því, að það komist nú fullt fjör í útgerðina í landinu og að við getum flutt meira út en við höfum gert. En auk þess er svo það, að það eru næstum engar líkur til þess, að ríkisstj. fái ákvæði, eins og felast í þessu frv., raunverulega framkvæmd með samþykki sjómannasamtakanna í landinu. Ríkisstj. hefur þegar beitt sér fyrir því að breyta sínu upphaflega frv. á þá lund, að um leið og þetta frv. yrði gert að lögum, þá eru kjarasamningar á milli útgerðarmanna og sjómanna úr gildi fallnir. Þá þarf aðeins einfalda tilkynningu — án uppsagnarfrests — til þess að tilkynna það, að svo sé. Það er því nokkurn veginn alveg víst, að verði frv. samþykkt á þann hátt, sem það kom frá Ed., þá gerist það um næstu áramót, að allir samningar um launakjör á fiskiskipum ganga úr gildi, og þá byrjar árið með því, að það verða væntanlega uppi tilraunir um nýja samninga, um ný skiptakjör á fiskiskipunum á milli sjómanna og útvegsmanna. Ef að líkum lætur, þá fer janúarmánuður í slíkt þras á milli aðila, og menn losa sig nokkurn veginn við útgerð í þeim mánuði, en það er auðvitað í stíl við það, sem stundum hefur verið áður hjá núv. hæstv. ríkisstj. í þeim efnum. Ég hef því ákaflega litla trú á því, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, leysi vandann, en færi þetta nú á þann veg, að sjómenn stæðu fast á sínu, og neituðu með öllu að gera samninga, sem fela í sér þessa kjaraskerðingu, sem hér er gert ráð fyrir, færi það þannig og útgerðarmenn yrðu að láta undan og fallast á svipuð skiptakjör og áður voru — ja, hvað gerist þá? Þá gerist það, að það er yfirlýst af þeim efnahagssérfræðingum, sem að efnahagsaðgerðunum standa og einnig af hæstv. ríkisstj., að þá sé þessi þáttur lausnarinnar farinn út í sandinn. Þá er það viðurkennt, að það hefur ekki verið búið þannig um mál útgerðarinnar í landinu, að hún fái staðizt.

Mér sýnist því, að menn standi frammi fyrir því að verða að viðurkenna það tiltölulega fljótlega, að þeim hefur ekki tekizt að leysa þann vanda, sem við var að glíma. Þessi hugsaða leið hún dugar ekki. Hún fæst hvorki samþykkt né framkvæmd utan þingsins. Það er kannske hægt að fá hana samþykkta hér á Alþingi, en það dugar nú ekki til, svo að róið verði og fiskað verði.

Eins og ég hef hér sagt, þá sýnist mér, að ríkisstj. hafi látið villa sér sýn í þeim efnum, að með því að leyfa sjómönnum að halda þeirri skiptaprósentu, sem þeir hafa haft í sínum samningum, að þá væri verið að tryggja sjómönnum hér almenna launahækkun, sem kynni að leiða það af sér, að aðrar vinnustéttir í landinu heimtuðu tilsvarandi launahækkun. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á það, að í þessum efnum, þá hefur hún alveg misskilið stöðuna, ef hún hefur haldið, að þetta væri á þessa lund. Svona er þetta ekki. Hið rétta er það, eins og ég hef hér sagt, það eru sjómennirnir, sem hafa orðið fyrir miklu meira tekjufalli en nokkur önnur vinnustétt í landinu, og það var því full ástæða til þess að haga málum þannig, að sú vinnustétt fengi hér nokkrar bætur, sem drægju úr þessu mikla áfalli.

Þessi I. kafli frv., sem ég hef gert hér aðallega að umtalsefni, hann er býsna furðulegur í ýmsum öðrum efnum heldur en varðandi þetta, sem ég hef hér aðallega rætt. Samkv. 4. gr. er gert ráð fyrir því að taka skuli 22% af heildarsöluverðmæti eða brúttósöluverðmæti afla erlendis og þessi fjárhæð skuli lögð í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Það er auðvitað alveg ljóst mál, að hér er um svo háa fjárhæð að ræða, að ef hún er miðuð við það, að fiskiskip stundi sínar veiðar á eðlilegan hátt og á svipaðan hátt og verið hefur, þá er hér um miklu hærri upphæð að ræða heldur en þessi skip eiga í mörgum tilfellum að greiða í afborganir og vexti af sínum stofnlánum. Ég tek t.d. dæmi af venjulegum íslenzkum togara. Það er ekki mikill afli hjá togara, miðað við það gengi krónunnar, sem nú á að miða við, að reikna með að togari selji fyrir 25 millj. kr. á ári, það er ekki mikill afli, og allmargir þeirra munu selja fyrir hærri upphæð. Það er því augljóst, að það á að taka af þessu söluverði hjá togara í mjög mörgum tilfellum upphæð, sem fer yfir 5 millj. kr. Þetta er miklu hærri upphæð en þessir togarar skulda beinlínis í stofnlán og miklu hærra en þeim ber að greiða á einu ári í afborganir og vexti, miklu hærri upphæð. Og meira segja er það svo, að af ýmsum fiskibátum, sem ekki stunda nú mjög mikið siglingar út með afla, að þar mundi upphæðin líka vera miklu hærri en þeir eiga að borga í afborganir og vexti. En hvað meina menn þá með því, að það eigi að taka þessa stóru upphæð og leggja hana í Stofnfjársjóð, og svo er gefið til kynna í frv., að það eigi að gera upp þennan stofnfjársjóð með upplýsingum frá Fiskifélaginu tvisvar á ári? Á þá að halda öllum þessum fjármunum fyrir þessum útgerðaraðilum, sem annars eru stuðnings þurfi, á þá að halda þessu fé allan þennan tíma? Ja, ef það er ekki meiningin að halda þessu fé, þá ætti það vitanlega að koma hér fram í þessari löggjöf, hvernig ætlað er að fara með þetta fé.

Mér sýnist því, að í þessum tilfellum öllum sé ekki um það að ræða, að það sé verið að taka 22% til viðbótar við það, sem nú er tekið vegna löndunarkostnaðar erlendis og tollgreiðslu erlendis af aflanum, það er ekki verið að taka 22% af brúttósöluverðmætinu vegna stofnfjárgreiðslna, vegna afborgana og vaxta, það er verið að taka þessa upphæð af brúttósöluverðinu til þess að ná því marki að hafa af sjómönnunum, sem hér eiga hlut að máli, tiltekna fjárhæð, en það er bara gert undir þessu heiti. Það á að taka fjárhæðina frá, og aflaprósentan á síðan að reiknast af lægri upphæð, og það er gert undir þessu yfirskini, en meiningin er allt önnur; meiningin er sýnilega sú, eða hlýtur að vera sú, að fá að flytja þetta fé með einhverjum hætti úr Stofnfjársjóði yfir til eigendanna, og ég get varla ætlað annað, en að það verði gert svona nokkuð eftir hendinni, því það er varla meiningin að fara að halda þessu fé fyrir mönnum í langan tíma.

Ég hef nú rætt hér alveg sérstaklega um 1. kafla þessa frv., og það er ekkert um það að efast, ég er algjörlega andvígur þessum kafla. Ég tel, að þennan kafla eigi að fella niður. Hér á að leita annarra ráða til stuðnings við útgerðarfyrirtæki heldur en þeirra, sem felast í þessum kafla. Og ég tek undir þau hörðu mótmæli, sem komið hafa frá sjómannasamtökunum gegn þessum kafla, þar sem þau hafa eindregið farið fram á það, að hann verði felldur úr frv. Og ég vara ríkisstj. við að reyna að halda ákvæðum þessa kafla til streitu, því það er ábyggilegt, að það mun ekki borga sig fyrir neinn.

Ég vildi þá víkja hér nokkrum orðum að II. kafla frv., en sá kafli fjallar um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Ég hef sagt það hér nokkrum sinnum áður, að ég væri þeirrar skoðunar, að það ætti að fella þessi útflutningsgjöld niður svo til algjörlega. Ég er algjörlega andvígur því að hafa áfram það fyrirkomulag, sem gilt hefur með greiðslur á vátryggingaiðgjöldum fiskiskipa. Ég hef margsinnis lýst því hér í umræðum á Alþ. á undanförnum árum, að þetta fyrirkomulag er hið mesta vandræðafyrirkomulag og það hefur leitt af sér stórkostleg aukaútgjöld fyrir sjávarútveginn og það er í rauninni engin leið að mínum dómi að komast hjá því, ef þetta heldur áfram, að þetta verði vandræðafyrirkomulag, ef þetta á að grundvallast í aðalatriðum á því kerfi, sem stuðzt hefur verið við. Ég veitti því athygli, að aðalefnahagssérfræðingur ríkisstj., forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, viðurkenndi þetta sjónarmið, sem ég hef hér verið talsmaður fyrir undanfarin ár, í umsögn um málið til fulltrúa stjórnmalaflokkanna, sem ræddust hér nokkuð við um efnahagsmálin nú á s.l. hausti. Í þessari umsögn sagði forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar um þetta mál m.a. það, sem hér greinir:

„Snemma varð ljóst, að greiðsla iðgjalda úr sameiginlegum sjóði stuðlaði að hækkun iðgjalda. Þar sem útgerðarmenn báru ekki áhættu af tjónum og kostnaður þeirra sjálfra hækkaði ekki með vaxandi tjóni, urðu bæði þeir og skipsstjórnarmenn hirðulausari varðandi tjón en áður og reyndu eftir fremsta megni að koma viðhaldskostnaði undir tjónabætur. Vátryggingarfélögin svöruðu þessu hins vegar með hækkun iðgjalda, sem þau þurftu ekki að hafa fyrir að innheimta. Eins og vænta mátti, hefur þessi þróun leitt til þess, að vátryggingarkostnaður fiskiskipa er miklu hærri hér á landi en tíðkast annars staðar og miklu hærri en ástæða virðist til að ætla að hann þyrfti að vera.“

Þetta voru auðvitað ýmsir búnir að sjá í langan tíma og hafa hér varað við árlega nú í mörg ár, en ég vara við því fyrir mitt leyti enn, að það krull, sem menn eru nú að tala um að taka upp í þessum efnum, að það mun ekki lagfæra þessi mál nema að sáralitlu leyti. Ég er hæstv. sjútvmrh. algjörlega ósammála um það, að það sé æskilegt að viðhalda áfram því kerfi í vátryggingarmálum, að vátryggingarkostnaður fiskiskipa sé greiddur úr sameiginlegum sjóði. Þarna er ég á allt annarri skoðun en hann. Ég er á því að sjálfsögðu, að það sé hagstætt að byggja upp eitt stórt og öflugt vátryggingarfélag fyrir fiskiskipaflotann, og teldi, miðað við okkar aðstæður, að það væri eðlilegast, að það væri ríkisrekið félag. En ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt miðað við það skipulag, sem er ríkjandi hjá okkur í útgerðinni, þar sem það er í aðalatriðum einkarekstursfyrirkomulag, þá sé alveg óhjákvæmilegt að viðhalda þeirri grundvallarreglu í tryggingarmálum, að hver og einn verði að bera nokkra beina ábyrgð á því, hvernig hann stendur að sínum tryggingarmálum. Þeir, sem hirða vel um sín skip og gæta vel að þeim, þeir eiga gjarnan að njóta þess í lágum iðgjöldum. Hins vegar þarf vitanlega að koma tryggingarmálunum þannig fyrir, að skipin séu tryggð fyrir öllum meiri háttar tjónum, sem þau verða fyrir. En sú leið, að ætla að innheimta af allri útgerðinni í landinu með tilteknu útflutningsgjaldi ákveðið gjald, sem á að renna í einn sameiginlegan sjóð og úr honum eigi síðan að greiða vátryggingargjöldin fyrir hina ýmsu aðila, þetta fyrirkomulag held ég að leiði alltaf af sér umframkostnað, aukakostnað. Ég veit það hins vegar, að það er uppi vilji hjá ýmsum útgerðarmönnum að hafa þennan hátt á, m.a. vegna þess, að þeir telja, að á þennan hátt geti þeir komið helmingi af kostnaðinum við vátryggingu á skipunum yfir á skipverja sína. En það er eins og ég hef sagt hér áður, að það er nú ekki eingöngu kostur fyrir einn útgerðarmann að geta haft hlut skipverja sinna sem lægstan, því fer nú víðs fjarri.

Þetta gjald, sem lagt er á útgerðina í þennan sjóð, það er svo þar að auki mjög ósanngjarnlega á lagt og þeir, sem standa fyrir því að ákveða þær reglur, sem m.a. eru settar fram í þessu frv., þeir geta ekki rökstutt þetta á neinn frambærilegan hátt, af hverju þeir ætla ákveðnum framleiðslugreinum að borga meira gjald í þennan sjóð, þennan sameiginlega sjóð, en öðrum. Hvað rök skyldu t.d. vera fyrir því að ákveða það, að það skuli greiða hærra gjald í þennan sameiginlega vátryggingarsjóð af útfluttu síldarlýsi, sem hefur lækkað meira í verði en allar okkar afurðir, — að það skuli reikna á útflutt síldarlýsi hæstu prósentu, en miklu minna prósentu af ýmsum öðrum útfluttum afurðum okkar, sem ýmist hafa lækkað lítið eða ekki neitt í verði? Hvaða rök ætli séu fyrir þessu? Þar sem áfallið hefur orðið mest, erfiðleikarnir eru mestir, og þar sem til þurfa að koma alveg sérstakar ráðstafanir til stuðnings, þar þykir sjálfsagt að leggja á aukagjald umfram það, sem lagt er á aðra. Nei, þessi gjöld eru auðvitað mjög óréttlát, eins og lagt er til í þessu frv., mjög ósanngjörn, og ég get að vísu ekki séð annað en það, að þeir, sem hafa staðið að því að semja þetta frv., að það hafi verið þeim efst í huga að reyna að ganga þannig frá málum, að t.d. síldarútgerð í landinu skuli alltaf skattleggjast hvernig svo sem þar gengur — mun meira heldur en öll önnur útgerð í landinu. Ef sama skip gengur til síldveiða, þá á að taka 20% af því skipi í Stofnfjársjóð, en ef það aftur á móti gengur á þorskveiðar, þá á ekki að taka af því nema 10%. Sama er þetta með útflutningsgjaldið sjálft, að það á alltaf að borga mun hærra útflutningsgjald af síldarafurðum en öðrum afurðum. Þetta er auðvitað alveg út í bláinn, nema þá að menn hafi fengið ofnæmi fyrir síldarútgerð yfirleitt og vilji leggja hana niður.

Það er sannast mála, að þau gjöld, sem nú er farið að miða hér við af ýmsum síldarafurðum, þau eru orðin svo fráleit, að það er í rauninni alveg lygilegt, að mönnum skuli hafa dottið það til hugar að ætla að leggja slíkt á útflutningsafurðir. Á s.l. sumri var t.d. ákveðið, að verð á uppsaltaðri tunnu, sem fiskiskip kemur með að landi, væri 472 kr., 472 kr. fyrir uppsaltaða tunnu. Nú er ákveðið, að taka skuli af þessu verði — sem hingað til hefur komið til skipta — taka skuli af því 37% eða um 175 kr. af hverri uppsaltaðri tunnu skuli tekið frá og á ekki að koma til skipta til sjómanna. Auk þess á svo auðvitað að leggja hér áfram á 8% útflutningsgjald af útflutningsverði saltsíldarinnar og önnur útflutningsgjöld, sem þar bætast einnig við, til Aflatryggingasjóðs og til ýmissa annarra aðila, og þau gjöld verða á hverja útflutningstunnu talsvert mikið á þriðja hundrað krónur á tunnuna, af því að það er miðað við útflutningsverð hverrar saltsíldartunnu. Auðvitað er búið að stafla hér svo sérstökum gjöldum á þennan atvinnuveg, að það er ekkert sambærilegt við það, sem gert er í ýmsum öðrum greinum. Og þar sem svo stendur nú á t.d., að vissir landshlutar eiga hér meiri hlut að máli, þar sem menn sem sagt binda sig meira við þessa framleiðslu og þessa vinnu en aðra, þá virkar þetta þannig, að það er verið að flytja fé í stórum stíl frá þessum landshlutum til annarra landshluta, af því þetta er lagt í sameiginlegan sjóð og skipt þar upp eftir allt öðrum reglum. Svona fyrirkomulag á auðvitað ekki rétt á sér, og það ber að vinna að því að breyta þessu. Samræmi er ekki hægt að finna í þessu á neinn hátt.

Eitt dæmi skal ég nefna enn. Það hefur verið svo um langan tíma hjá okkur, að við höfum alltaf fengið nokkru hærra verð fyrir fiskimjöl en fyrir síldarmjöl, en þá er því auðvitað snúið þannig við í þessu frv., að fiskimjöl er skattlagt heldur minna heldur en síldarmjöl, — af því að verðið á síldarmjöli er heldur lægra, þá þykir rétt að taka af því heldur hærri útflutningsprósentu.

Ég hefði helzt kosið, að þessi II. kafli, sem fjallar um útflutningsgjald af sjávarafurðum, yrði líka felldur niður, en mér er það ljóst, að það er ekki hægt að fella þennan kafla niður nema að koma sér þá saman jafnframt um nýtt skipulag á þessi mál, en ég álít, að það sé kominn tími og meiri en svo til þess að vinna að því að taka þar upp nýtt fyrirkomulag.

Ég vildi þá víkja hér nokkrum orðum að III. kafla frv., sem fjallar um ráðstöfun á gengishagnaði. Samkv. 14. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að greitt verði af gengishagnaði, sem myndast við það, að þær birgðir, sem til eru í landinu af sjávarafurðum og fluttar verða út eftir gengisbreytingu, verða auðvitað seldar fyrir fleiri krónur en áður, og er gert ráð fyrir því að verja nokkrum hluta af þessum gengishagnaði til nokkurra málefna, sem snerta sjávarútveginn. Ég tel fyrir mitt leyti, að það, sem fjallað er um í a-lið þessarar greinar, sé fullkomlega réttmætt og sjálfsagt, þ.e.a.s. að taka af þessum gengishagnaði nokkra fjárhæð til þess að standa beinlínis undir hækkun á flutningskostnaði á erlenda markaði, sem leiðir af gengislækkuninni. Þetta virðist auðvitað vera alveg sjálfsagt. En samkv. b-lið og c-lið og í rauninni einnig e-lið er þar fjallað um sérstakar greiðslur, sem ég tel, að ríkissjóður hafi verið búinn að taka að sér, hafi verið búinn að veita loforð um að greiða, og var búinn að fá tekjustofna til að standa undir. Ég álít því, að það hefði verið eðlilegt að standa við fyrri loforð ríkisins í þessum efnum og greiða þessar fjárhæðir af tekjum ríkisins, en ekki af gengishagnaði. Nú, en hér er ekki um ýkjaháa fjárhæð að ræða. Það er talað um 30 millj. kr. til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og um 40 millj. kr. til sérstakrar uppbótar á saltfisk og um 20 millj. kr. í aukarekstrarstyrk til togara á árinu 1968. En það er enginn vafi á því, a.m.k. með suma af þessum liðum, þá var ríkissjóður búinn að gefa loforð um það að taka á sig þessar greiðslur, og hann hafði einnig fengið tekjustofna til þess að gera það. Og þegar að flokkarnir ræddu saman um efnahagsmálin í september og októbermánuði, þá lýsti beinlínis fjmrh. yfir því, að miðað við það, að ríkið fengi tekjurnar af 20% innflutningsgjaldinu og þá aðra tekjustofna, sem ríkið hafði áður fengið, þá gæti ríkissjóður staðið við allar þessar skuldbindingar sínar. En nú hefur mönnum þótt þetta léttara að hlaupast frá þessu og láta sjávarútveginn í rauninni sjálfan taka á sig þessar greiðslur með þessum hætti.

Samkv. 16. gr. frv. þá er síðan gert ráð fyrir því að ráðstafa meginhlutanum af gengishagnaðinum eins og þar segir. Stærsti hlutinn á að ganga til þess að mæta gengistöpum, sem fram koma í sambandi við erlend lán við fiskiskipakaup. Ég er fyrir mitt leyti sammála því, að varið verði fjárhæð, eins og segir í þessari grein, í þessu skyni. Það tel ég mjög eðlilegt. Það er enginn vafi á því, að útvegsmenn hafa þarna orðið fyrir verulegu tjóni og mæta þarna allmiklum erfiðleikum vegna gengisbreytingarinnar og það er réttmætt að taka nokkuð af gengishagnaðinum og verja honum í þessu skyni. En svo koma í þessari 16. gr. liðirnir b og c, og þeir eru báðir af þessu tagi, sem ég minntist á áður. Þar er um að ræða að verja gengishagnaði til þess að standa við skuldbindingar, sem ríkissjóður hafði tekið á sig og sem fjmrh. hafði lýst yfir áður, að hann hefði fjármagn til þess að greiða, en nú allt svo hefur fjmrh. komið því svo haganlega fyrir, að hann skýtur sér undan því að borga úr ríkissjóði þessar upphæðir, en vill láta útvegsmenn sjálfa borga það með sínum eigin gengishagnaði. Þetta er auðvitað vel á haldið af hálfu fjmrh., séð beint frá hans kassa, en það er ekki að mínum dómi jafn vel á haldið af hæstv. sjútvmrh., sem hefur fyrir sína umbjóðendur að þessu leyti til verið plataður um þessa upphæð að mínum dómi, því að það er ekkert um að villast, að gefin höfðu verið loforð um það að greiða þessar fjárhæðir og ríkið hafði fengið tekjustofna til þess að standa undir þessu, en fjmrh. fer áfram með þá tekjustofna, hirðir þá, hleypur frá að greiða þetta og lætur síðan útvegsmenn borga sér þetta sjálfa af gengishagnaði þeim, sem myndast af þeim birgðum, sem í landinu voru. Ég tel út af fyrir sig, að það sé ekki hægt að víkja sér undan því að greiða þessar upphæðir, því að það er sannað mál, að útvegsmönnum höfðu verið gefin fyrirheit í þessum efnum og þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa orðið fyrir miklum áföllum og geta ábyggilega ekki staðið undir þessum greiðslum. En ég álít, að það hefði átt að koma þessu fyrir á annan hátt en gert er ráð fyrir í þessu frv. Þá verð ég einnig að segja það, að í c-lið hefur verið bætt við einu viðbótarákvæði varðandi síldarflutningaskip og ég get ekki séð annað, en þar sé gert ráð fyrir því að klípa beinlínis af þeirri fjárhæð, sem búið var að lofa öðrum aðilum, það eigi að klípa af þeirri fjárhæð til þess að mæta þeim vanda, sem þarna hefur komið fram hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Þá hlýt ég einnig að benda á það, að við ráðstöfun á þessum gengishagnaði er gengið þannig frá þessum málum, að vissir þættir útgerðarframleiðslunnar njóta ekki svo til neins góðs af ráðstöfun á þessum gengishagnaði. Hinir smærri fiskibátar, sem vitanlega eiga sinn hlut af þeim afla, sem á land hefur verið lagður og nú liggur í birgðum og gengishagnaðurinn kemur til með að stafa frá, hinir minni bátar eiga ekki samkv. þessu að fá svo að segja neitt í sinn hlut af þessum gengishagnaði. Það er þá aðeins sú hlutdeild, sem þeir eiga í því, að vátryggingakerfi bátanna á að fá nokkuð aukið framlag, en að öðru leyti ekki. Ég hefði talið eðlilegt, að sú grein framleiðslunnar hefði hér fengið eitthvað af þessum gengishagnaði, sem hér er til ráðstöfunar.

Ég hef hér gert nokkrar almennar aths. við þetta frv. og skal nú ekki orðlengja þetta mikið meir við þessa umræðu. En ég tel þó, að það, sem skiptir hér mestu máli, sé það, að l. kafli frv., sem gerir ráð fyrir því, að breytt verði með lögum frá Alþ. kjarasamningum milli sjómanna og útgerðarmanna, sá kafli eigi ekki rétt á sér og það beri að leita eftir öðrum ráðum útgerðinni til stuðnings heldur en þeim, sem felast í þessum kafla. Þetta álít ég að sé alveg höfuðatriði. Hinar aths., sem ég hef minnzt hér á, eru á engan hátt í mínum augum eins mikilvægar, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að hugsa sig betur um en hún hefur gert, áður en hún knýr það í gegn að samþykkja þennan I. kafla frv., eins og hann er.