16.12.1968
Neðri deild: 30. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á engum atvinnuvegi þjóðarinnar hafa áföll síðustu tveggja ára bitnað verr en á sjávarútveginum. Og engri launastétt þessa lands hefur tekjutapið bitnað jafnillilega á og einmitt á sjómannastéttinni þar sem sannanlegt er, að tekjutap hennar á 1–2 seinustu árunum mun nema um 100 þús. á hvern starfandi sjómann. Frv. því, sem hér er til umræðu, er ætlað að leysa vanda sjávarútvegsins og fjallar það um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytts gengis íslenzku krónunnar. Ég mun ekki nú á þessari stundu við 1. umr. ganga í það að rekja efni sjálfs frv. Málið kemur fyrir hv. sjútvn., þar sem ég á sæti, og gefst mér þá tóm væntanlega við 2. umr. og í nál. að gera grein fyrir mínum skoðunum á þessu frv. í smærri atriðum. Hins vegar vil ég við þetta tækifæri lýsa því sem meginstefnu, að ég er andvígur þeirri stefnu í frv. að breyta gildandi hlutaskiptum sjómanna þeim mjög verulega í óhag með lagaboði eins og því, sem frv. hefur að geyma. Ég vil minna hv. þm. á það, að hlutaskipti þessi eru fengin með samningum sjómanna og útgerðarmanna á undanförnum árum og hafa þau kjör, sem sjómenn hafa í dag, lágmarkskjör, verið ákvörðuð á þann hátt. Ég vil halda áfram að ákveða þeirra kjör með frjálsu samkomulagi. Ákvæði I. kafla frv., um ákvörðun fiskverðs og Stofnfjársjóð, hljóta að mínu viti að leiða til þess, að sjómenn, við það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir að verði, muni krefjast enn þá hærri hlutdeildar í skiptaverðinu en þeir hafa samkv. gildandi samningum og þeir munu fá þeirri kröfu sinni framgengt eftir skamma eða langa baráttu, sem aðeins getur skaðað þjóðfélag okkar.

Ég tel, að með frv. þessu sé hlutur útgerðarinnar verulega bættur frá því sem er, og á því er þörf. En er það ekki bæði skammsýnt og í fyllsta máta óréttlátt að ætlast til þess, að sjómenn uni því, að þessar bætur fáist með því að ganga á þeirra samningsbundnu kjör? Íslenzkir sjómenn munu vera um 5000 talsins, og þessi stétt mun vera ein sú mikilvægasta í landinu, sem flest í okkar þjóðarbúskap byggir meira eða minna á. Ég tel það eðlilegt, að þessi stétt manna sé betur launuð almennt talað en flestar aðrar stéttir, sem starfa í landi, miðað við mikilvægi starfa þeirra og sérstöðu umfram þá, sem hafa vinnu í landi. Vandamál sjávarútvegsins verða ekki leyst að mínu viti, ef ekki á að virða þessa meginstaðreynd, þegar kjör sjómanna eru ákveðin. Þegar illa árar eins og nú og tekjur útgerðarinnar skerðast, verður þjóðfélagið að hlaupa undir bagga og tryggja þessari frumframleiðslustarfsemi viðunandi aðstöðu. Í stað þess að leysa vandamál sjávarútvegsins á kostnað sjómannanna, á ríkisvaldið að gera nú gangskör að því að létta ýmsum álögum af útgerðinni, bæði í formi beinna skatta og allt of dýrrar þjónustu á mörgum sviðum við útgerðina, en ég tel, að hvort tveggja sé gerlegt.

Útgerðarmenn og sjómenn eiga óskilið mál að því leyti, að báðum er mikið í mun, að fiskveiðar verði reknar hér af fullum krafti. Á því byggist afkoma þessara aðila beggja. Ég tel það affarasælast, að þeir njóti fulls samningsfrelsis um skiptingu aflaverðmætis hverju sinni án óeðlilegrar íhlutunar annars staðar frá, eins og ég tel, að gert sé með þessu frv. Þessir aðilar þekkja vandamálin bezt og eiga meira undir því en aðrir, að þau verði leyst á friðsamlegan hátt við samningaborðið. Heildarafstaða mín til frv. mun markast af þessari grundvallarskoðun, þegar það verður rætt í nefnd, og í nál., sem ég kem til með að leggja hér fram, mun ég víkja nokkuð nánar að þessum atriðum.