05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Til mín hefur verið beint fsp. um það, hvort ég sé fylgjandi áframhaldandi aðild að Atlantshafsbandalaginu eða ekki og fyrir mér er ákaflega einfalt að svara því. Ég hef alltaf verið andstæður þátttöku Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu og er það enn. Mun ég beita mínu atfylgi, svo langt sem það nær, til þess að við göngum úr þessu bandalagi svo fljótt sem verða má. Ég svara hér að sjálfsögðu aðeins fyrir mig sjálfan, en ekki fyrir hv. 9. þm. Reykv. Það er haft hér eftir honum af hv. 4. landsk. þm., að hann hafi sagt á fundi í vetur, að við ættum að sitja sem lengst og fastast í þessu bandalagi. Ég ætla ekki að hafa eftir neinar fullyrðingar um það, hvort þessi ummæli hv. þm. eru rétt. Til þess gefst vafalaust tækifæri að rannsaka sannleiksgildi þeirra. Mér er alls ókunnugt um nokkrar yfirlýsingar af hálfu 9. þm. Reykv. í þessu efni. Þó má vel vera, að hann hafi eitthvað um þetta sagt, en það er a.m.k. alveg án minnar vitundar og hvergi hef ég séð þessi ummæli eftir honum höfð á opinberum vettvangi, sem þessi hv. þm. telur hann hafa viðhaft.

Ég vil taka það fram, að ég lýsi ekki þessari skoðun minni á afstöðunni til Atlantshafsbandalagsins vegna þess, að það er skoðun Alþb., heldur vegna þess, að það er mín skoðun og hefur alltaf verið og um það er þessum hv. þm. vel kunnugt. En hann fylgir trúlega þeirri reglu, sem hér er yfirleitt í gildi á Alþ., að menn standa hér naumast upp til þess að spyrja um annað, en þeir vita fyrir fram um svörin á og þá reglu hefur hann ekki brotið.