05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er sammála hv. 6. þm., að það er mjög óæskilegt, að umr. um eitt mál skuli vera skornar niður á þann hátt, sem tíðkast hér á Alþ. og ég vil vona, að sú endurskoðun á starfsháttum þingsins, sem nýlega var samþykkt, leiði til þess, að við getum komizt hjá þessu í framtíðinni.

Nú hefur það gerzt, að hv. þm. hefur flutt rökstudda dagskrá við sína eigin þáltill., sem er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt. Við því er ekkert að segja og má vera, að það, sem gerzt hefur á meðan málið var til meðferðar, leiði til þess, að þetta reynist ekki óeðlilegt. Þetta breytir ekki því, að málið þarf að sjálfsögðu að fara til n., enda gerði hv. ræðumaður, 6. þm. Reykv., till. um það í fyrri hluta umr., að málinu væri vísað til utanrmn.

Hv. þm. fullyrti, að meðferð ríkisstj. á spurningunni um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og ákvörðun um, hvort þeirri þátttöku yrði haldið áfram eða ekki, geri ekki ráð fyrir þinglegri afgreiðslu. Ég er honum ósammála um þetta. Fyrir rúmlega ári lýstu bæði hæstv. forsrh. og utanrrh. yfir þeirri skoðun á Alþ., að Ísland ætti að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu. Þessi skoðun hefur verið ítrekuð síðan, svo að hún getur ekki dulizt nokkrum alþm. Nú er það svo, að ef Ísland verður áfram í Atlantshafsbandalaginu, breytist ekkert. Það þarf engar yfirlýsingar gagnvart bandalaginu til þess að svo verði. Það þarf hins vegar yfirlýsingar um stefnubreytingu eða úrsögn, ef um úrsögn væri að ræða. Af þessu leiðir, að þeir hv. alþm., sem óska eftir, að utanríkisstefnunni sé breytt að því leyti, að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu, verða, til að fá þinglega afgreiðslu á málinu, að hafa frumkvæði um tillögu í þá átt. Sú stefna sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir fyrir ári og oft endranær, er þannig, að hún útheimtir ekki frumkvæði um málaflutning hér á Alþ.

Nú hefur það til viðbótar gerzt, að hæstv. utanrrh. hefur tekið upp þann hátt að flytja Alþ. mjög ýtarlega skýrslu um utanríkismál, þar sem hann fjallaði nákvæmlega um viðhorf Íslands til Atlantshafsbandalagsins og annað, sem því máli er tengt. Verður því ekki sagt með nokkrum rökum, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert Alþ. ýtarlega grein fyrir viðhorfi sínu og ríkisstj. í þessu máli og hann hafi ekki með þeirri skýrslu lagt grundvöll að málefnalegum umr. og hverri þeirri meðferð, sem Alþ. þóknast að hafa á málinu.

Ég er sammála hv. 6. þm. Reykv., að það sé æskilegt, að þingið eða þingn., t.d. utanrmn. hefðu starfskrafta til að láta gera ýtarlegar skýrslur um slík mál sem þetta. Það væri fróðlegt að fá ýtarlega, prentaða skýrslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og 20 ára þróun í því sambandi. Við vitum, að slíkar skýrslur hafa verið samdar í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku, en við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að utanrrn. hefur mjög fáu starfsfólki á að skipa og er varla hægt að ætlast til, að það geti samið heilar bækur ofan á dagleg störf. Utanrmn. hefur raunar enga starfskrafta, ég hygg að ritari n. sé skrifstofustjóri ráðuneytisins. Yrði Alþ. því að ráða til sín starfskrafta til að gera slíka skýrslu. Ég hygg, að þetta séu ástæðurnar fyrir því, að málið hefur ekki verið lagt fyrir á þann hátt. En miðað við það, sem við eigum að venjast, hefur þetta mál verið lagt ýtarlega fyrir í skýrslu hæstv. utanrrh.

Ég ítreka, að ég tel sjálfsagt, að þetta mál og rökstudda dagskráin gangi til utanrmn.