12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Samkvæmt ákvæðum þingskapa er hægt að bera fram rökstudda dagskrá hvenær sem er við meðferð máls. Það er eins hægt að bera hana fram þegar í upphafi við 1. umr. og eins eftir að málin fara til n. og við 2. umr., eins og hv. 5. þm. Vesturl. taldi venju. Samkvæmt þingsköpum er það alveg eins heimilt að bera hana fram við 1. umr. og þá verður að afgreiða hina rökstuddu dagskrá. Rökstudd dagskrá felur í sér till. um, að mál sé afgreitt þegar í stað á þeim rökum, sem þar eru tiltekin. Og mér er ómögulegt að sjá, að hægt sé að hafa annan hátt á. Auk þess verð ég að lýsa undrun minni yfir því, að menn skuli reyna að úthugsa hvers kyns lagakróka til þess að afgreiða jafneinfalda till. og hér er um að ræða. Hv. þm. er í lófa lagið að afgreiða þessa rökstuddu dagskrá, eins og þeim finnst hæfa, samþykkja hana eða fella hana. En hvers vegna þeir eru að reyna að smeygja sér hjá því að taka afstöðu til hennar, er ofvaxið mínum skilningi.