12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

92. mál, fjárframlög vegna byggingaráætlunar í Breiðholti

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með samkomulagi því, sem gert var í júní 1964 milli ríkisstj., vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar, var því heitið, að komið skyldi á kerfisbreytingu íbúðalána, þannig að tryggt verði fjármagn til þess að veita lán til ákveðinnar tölu íbúða á ári og verði loforð fyrir lánum veitt fyrir fram. Fyrstu árin verði þessi lán ekki færri en 750 og lánsfjárhæð á hverja íbúð ekki lægri en 280 þús. kr. Þessi tala skyldi við það miðuð, að tryggð verði bygging 150 íbúða á ári, en síðan færi hún smáhækkandi í samræmi við áætlanir um þörf fyrir nýjar íbúðir. Á árinu 1965 var í sambandi við kjarasamninga aftur gert samkomulag um húsnæðismál milli ríkisstj. og verkalýðsfélaga. Þá var ákveðið, að hefja skyldi byggingu íbúða í Reykjavík samkvæmt áætlun. Þeir félagsmenn í verkalýðsfélögum, sem keyptu þessar íbúðir, skyldu eiga kost á allt að 80% láni út á verðmæti íbúðanna. Gert var ráð fyrir, að veitt yrðu lán úr Byggingarsjóði ríkisins út á þessar íbúðir, er samsvöruðu lánum, sem aðrir húsbyggjendur fá úr sjóðnum. Að öðru leyti skyldi ríkisstj. útvega fjármagn til framkvæmdanna eftir öðrum leiðum. Í yfirlýsingu, sem gefin var út um þetta efni 1965, segir svo berum orðum m. a.:

„Samið verði við Atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir, er komi til viðbótar lánum frá húsnæðismálastjórn. Í samningum þessum sé tryggt, að lán út á þessar íbúðir geti orðið a.m.k. til 33 ára, það er 3 afborgunarlaus ár, en endurgreiðsla á 30 árum.“ Síðan segir: „Að öðru leiti séu kjörin hin sömu og á lánum húsnæðismálastjórnar.“

Nú eru framkvæmdir samkvæmt þessari byggingaráætlun nokkuð langt á veg komnar. Það var að gefnu tilefni á fyrri hluta þessa þings flutt hér af hendi hv. félmrh. grg. um þessar framkvæmdir og kostnað við þær, eins og hann var orðinn að ég ætla í okt. s.l. haust. Þá kom í ljós, að gert var ráð fyrir, að fyrsta áfanga framkvæmdanna samkvæmt þessari áætlun yrði lokið á árinu 1969 og þá yrðu fullgerðar 335 íbúðir og heildarkostnaður, þegar þessi grg. var flutt, sem ég vitna hér til, var orðin 331 millj. kr.

Nú er það svo, eins og fram kom í sambandi við annað mál, sem rætt var á þessum fundi, að í framkvæmdinni hefur Byggingarsjóður ríkisins lagt fram miklu meira fé til Breiðholtsbygginganna en nemur því, sem samsvarar venjulegum íbúðalánum til íbúðabyggjenda. Það er rétt að gera sér grein fyrir því, að hámarkslán samkvæmt hinu almenna veðlánakerfi er tiltekið í krónutölu. Ég hygg, að nú sé þeirri almennu reglu fylgt, að hámarkslán út á venjulega íbúð sé 380 þús. kr., en til viðbótar því geti þeir, sem eru aðilar að verkalýðsfélögunum, fengið 75 þús. kr., sem er svo kallað verkalýðslán. Samkvæmt þessu er þá algjört hámarkslán út á eina íbúð úr hinu almenna veðlánakerfi 455 þús. kr. Hámarkslán út á íbúðirnar, sem reistar eru samkvæmt áætluninni í Breiðholti, eru ekki tiltekin í krónum, heldur sem prósentur eða hlutfall af heildarbyggingarkostnaði. Það kom fram í grg. félmrh. á fyrri hluta þessa þings, að íbúðir þessar væru misjafnlega dýrar, bæði eftir stærð þeirra og gerð. Hinar ódýrustu eru taldar kosta 767 þús. kr., en þær, sem kosta mest, 1 millj. 490 þús. kr. Og þegar við lítum á heildartölurnar, að hér er um að ræða 335 íbúðir, sem eiga að kosta 331 millj. samtals, þá er meðalverð hverrar íbúðar allt að 1 millj. kr. Hámarkslán, 80% af því, er vitanlega miklu hærri fjárhæð, en hið almenna veðlánakerfi lánar hinum almenna húsbyggjanda. 80% af allt að 1 millj. nema þá um 800 þús., sem lánsféð á að geta numið.

Það er að minni hyggju þessi mismunur, sem í öndverðu var ætlað að jafna með sérstökum lánum frá Atvinnuleysistryggingasjóði eða sérstakri fjáröflun af hendi ríkisstj. til þessara framkvæmda. En það hefur í framkvæmdinni, — ég vil endurtaka það, — farið svo úr hendi, að Byggingarsjóður ríkisins hefur verið látinn bera miklu þyngri byrðar í þessu sambandi, heldur en honum var ætlað. Það mun nema allt að eða um 150 millj. kr., sem fest hefur verið af fé Byggingarsjóðs ríkisins í þessu skyni.

Þessi framkvæmd, eins og hún hefur farið úr hendi, veldur því, að lánamöguleikar hins almenna veðlánakerfis skerðast að sama skapi. Það er afar tilfinnanlegt fyrir hinn almenna húsbyggjanda og það veldur honum bæði óþægindum og auknum kostnaði, að hið almenna veðlánakerfi geti ekki afgreitt lán nokkurn veginn eftir því, sem byggingunni miðar áfram. Þessu veldur m.a. sívaxandi verðbólga, sem hefur þau áhrif að þyngja byrðar húsbyggjandans, ef framkvæmdin dreifist á mjög langan tíma. Hins er líka að gæta, að það eru mjög þungbærir vextir, sem margir verða að bera af lausaskuldum, sem þeir stofna til í þessu sambandi.

Till., sem hér er til fyrri umr., er þannig með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að afla fjár vegna framkvæmda samkvæmt áætlun um byggingar í Breiðholti í Reykjavík, eftir því sem þörf krefur, til viðbótar lánum Húsnæðismálastofnunarinnar til íbúðakaupenda og eigin framlögum þeirra. Jafnframt endurgreiði framkvæmdanefnd byggingar áætlunarinnar Byggingarsjóði ríkisins það fé, sem hann hefur varið til framkvæmdanna í Breiðholti umfram venjuleg íbúðarlán, enda úthluti húsnæðismálastjórn þessu fjármagni eftir reglum hins almenna veðlánakerfis.“

Í þessari till. felst raunverulega ekki annað en það, að framkvæmdinni verði hagað í samræmi við yfirlýsinguna frá 1965, þar sem berum orðum segir, að það skuli veitt lán frá Atvinnuleysistryggingasjóði til viðbótar lánum frá hinu almenna veðlánakerfi. Og nú er kunnara en frá þurfi að segja að atvinna er mjög af skornum skammti víða um land og veldur það auknum erfiðleikum hjá fjölda manna. Í því skyni hafa verið settar á fót atvinnumálanefndir, sem þegar eru teknar til starfa. Það hefur þegar komið fram frá þeirra hendi, að eitt af því, — kannske eitt af því fyrsta — sem komi til greina til þess að auka atvinnu, sé að auka framlög til íbúðalána og örva íbúðabyggingar til þess að færa þannig nokkurt líf í atvinnu á mörgum stöðum. Ég tel, að með hliðsjón af þessu sé þessi till. mjög tímabær, því að það mundi vissulega auka fjármagn það, sem hið almenna veðlánakerfi gæti lagt af mörkum nú á næstu vikum og mánuðum, ef framkvæmd yrði færð í það horf, sem við leggjum til með þessari till.

Það hafa verið ákveðnar tvær umr. um þessa till. Ég legg til að lokum, að henni verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.