26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

145. mál, rannsóknir á perlusteini í Loðmundarfirði

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Till. sú, sem ég hef flutt um rannsóknir á perlusteini í Loðmundarfirði, hefur legið nokkurn tíma fyrir þinginu, því að ég flutti hana fyrr í vetur, þegar ég kom inn í þingið sem varaþm. í hv. Nd. Nú kem ég sem varaþm. og sit í Ed. og fæ tækifæri til þess að fylgja henni úr hlaði og þykir í raun og veru vænt um það.

Ég ætla ekki að flytja langt mál fyrir þessari þáltill. Það fylgir henni nokkur grg. um það, sem í stórum dráttum hefur gerzt í þessum málum á undanförnum árum. Það er orðið alllangt síðan perlusteinninn fannst hér á landi og var greindur og skírður af Tómasi sál. Tryggvasyni jarðfræðingi. Þessi steinn er skyldur vikri, en hefur ekki náð að þenjast út við gos, eins og vikurinn gerir. Sé hann síðan malaður og hitaður upp í allmikinn hita, 7—800 gráður, þenst hann út, allt að tífalt og í þessu felst aðalnotagildi perlusteinsins. Hann er allmikið notaður orðið og í vaxandi mæli í byggingariðnaði. Sérstaklega er hann notaður í stálgrindahús og stórbyggingar. Hann er miklu eldfastari, en venjuleg steinsteypa og þess vegna hentugri í stórbyggingar. Þá er perlusteinninn notaður í ýmsar hliðargreinar byggingariðnaðar og keppir m.a. við kísílleir sem fyllingarefni á því sviði. Það má að lokum nefna, að hann er notaður í keramikiðnaðinn.

Það er verulegur markaður fyrir perlustein, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og er mjög vaxandi.

Perlusteinsnámur eru helztar á eyjum austanvert við Miðjarðarhaf og vesturströnd Bandaríkjanna. Þau stórfyrirtæki, sem hafa numið perlusteinsnámurnar, nýtt þær og framleiða byggingarefni sérstaklega, hafa haft augastað á öllum möguleikum í sambandi við perlusteinsnámur og það er nokkuð langt síðan fulltrúar þessara fyrirtækja frá ýmsum þjóðlöndum lögðu leið sína til Íslands til þess að rannsaka þann perlustein, sem hér hefur fundizt, en það er aðallega á tveimur stöðum. Það er í Loðmundarfirði eystra og í Prestahnjúk. Það er hugsanlegt, að perlusteinn kunni að leynast á fleiri stöðum á landinu, t.d. á Snæfellsnesi, og talið er, að perlusteinn sé í ljósum líparít fjöllum, sem eru eins og kunnugt er víðar um landið.

Rannsóknir í Loðmundarfirði, en þessi þáltill. er sérstaklega takmörkuð við Loðmundarfjörð, hófust fyrir alllöngu síðan. Laust fyrir 1960 hófu Þjóðverjar rannsóknir þar. Prófessor Konrad Richter frá Hannover dvaldi nokkuð lengi í Stakkahlíð í Loðmundarfirði og rannsakaði perlusteinsnámur þar, skrifaði síðan ýtarlega vísindaritgerð um rannsóknir sínar, sem hefur verið birt í erlendum vísindaritum. Niðurstöður prófessorsins voru þær, að um 1 millj. smálesta af perlusteini væru í námunum og þykkt perlusteinslagsins allt að 18 m sums staðar. Fengust ýmsar nytsamlegar upplýsingar af rannsóknum hans. Þó er nú talið, að það sé alls ekki gengið úr skugga um það til fulls, hversu mikið magn kunni að vera af perlusteini í Loðmundarfirði, þar þurfi að koma til miklu ýtarlegri rannsóknir, sem kosta verulegt fé.

Ýmsir fleiri aðilar höfðu áhuga á perlusteinsnámunum í Loðmundarfirði. Fulltrúar frá Frakklandi, Bretlandi og fleiri þjóðlöndum komu í Loðmundarfjörð og athuguðu námurnar til þess að reyna að ganga úr skugga um það, hvort möguleikar væru á því síðar að hagnýta þær.

Því er ekki að leyna, að það eru nokkur vandkvæði á því að nýta þessar námur, sem felast í því, að Loðmundarfjörður er nokkuð afskekktur. Það er ekki vegasamband við Loðmundarfjörð og það er engin höfn þar á staðnum og hafnarskilyrði ekki sem tryggust. Þess vegna er sjálfsagt ljóst, að ekki kæmi til greina að vinna þessar námur nema í nokkuð stórum stíl.

Þegar það fyrirtæki, sem er aðili að Kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn, Johns Manville, fór að huga að sínum rekstri með Kísilgúrverksmiðjuna, þá fékk félagið áhuga á perlusteinsnámunum í Loðmundarfirði, vegna þess að talið var mögulegt að hagnýta perlusteininn sem kjölfestu í þeim stóru flutningaskipum, sem mundu koma til með að flytja á vegum Kísilgúrverksmiðjunnar. Með því móti væri hugsanlegt að lækka farmgjöldin og gera kleift að hagnýta þessar námur, ef rannsóknir leiddu í ljós, að gæði perlusteinsins uppfylltu þau skilyrði, sem til hans yrðu gerð til vinnslu. Fulltrúar þessa fyrirtækis hófu rannsóknir vorið 1967 í samvinnu við iðnmrn. og þeir tóku þar mörg sýnishorn og virtust hafa verulegan áhuga á þessu máli í öndverðu. Þessi sýnishorn voru send til ýmissa landa, til Tékkóslóvakíu, Þýzkalands og Bandaríkjanna og mætti segja, að bráðabirgðaniðurstöður væru svipaðar frá þessum aðilum öllum. En lokaniðurstöður eru ekki ennþá fyrir hendi. Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur sýnt þessu máli vaxandi áhuga og hafið nokkrar rannsóknir austur þar. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hefur unnið þetta starf af hálfu rannsóknastofnunarinnar og eins og ég sagði, virðist áhugi þeirrar stofnunar vera vaxandi á þessu máli.

Fyrir nokkru svaraði hæstv. iðnrh. fsp. frá hv. 3. þm. Austf. um rannsóknir á perlusteini í Loðmundarfirði og skýrði við það tækifæri frá því, að ríkisstj. hefði þá nýlega samþykkt, að rannsóknir á perlusteininum skyldu fara fram og þær skyldu gerðar til hlítar, eins og hann komst að orði hér á hv. Alþ., þegar hann svaraði þessari fsp. Ég vonast til þess, að þessi till. fái vinsamlegar undirtektir og stuðning af hálfu ríkisstj., þegar hún kemur til atkv. hér á hv. Alþ. og sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.