19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara og ég vildi nú óska eftir því, að beðið væri um nærveru hæstv. sjútvmrh.

Nú, herra forseti. Hæstv. ráðh. er sjálfsagt upptekinn við störf í Ed., þannig að ég get tjáð honum mitt mál síðar, þegar hann hefur tíma til þess að mæta hér. En ég mun ekki greiða þessu frv. atkv., fái ég ekki skýr og jákvæð svör við fsp., sem ég mun beina til hæstv. ráðh. hér síðar í minni ræðu. Og með hliðsjón af því svari er minn fyrirvari kominn við undirskrift álits meiri hl. sjútvn.

En vegna þessara miklu umræðna, sem hafa orðið um þetta frv., og miklu fullyrðinga, sem fram hafa komið, bæði í blöðum, á mannamótum og hér á hv. Alþ., þá langar mig til þess að ræða það nokkuð efnislega, ekki sízt vegna þess, að ég hef þegar tekið þátt í slíkum umræðum, bæði innan stjórnar sjómannasamtakanna og á sjómannaráðstefnu, sem haldin var hérna í Reykjavík þann 8. desember s.l. Það, sem vekur athygli mína, annars vegar í þeim umræðum, sem ég hef átt við sjómenn, og hins vegar í ræðum sumra hv. stjórnarandstæðinga hér á Alþ., er, að þótt báðir þessir aðilar séu á móti l. kafla frv. eða hafi verið þangað til hv. síðasti ræðumaður hélt ræðu sína, en hann lýsti því þá yfir, að hann væri honum fylgjandi, svo langt sem hann náði og mælti þar fyrir hv. stjórnarandstöðu að því er forseti tjáði mér, þá má segja, eins og ég tók fram og reyndar er komið nú í ljós með frammíkalli hv. þm. Reykn., að þeir eru á móti I. kafla frv. og vilja láta vísa honum frá eins og öðrum og sama er að segja um afstöðu sjómannanna. Þó finnst mér, að sjómennirnir, sem ég hef átt mínar viðræður við og hlustað á, viðurkenni með mjög fáum undantekningum þann mikla efnahagsvanda, sem við stöndum frammi fyrir, en sumir hv. stjórnarandstæðingar vilja helzt láta í það skína, að við þennan vanda verði ráðið með t.d. stöðvun á tertubotnainnflutningi og fleiri sambærilegum aðgerðum og máske, eins og sumir hafa tæpt á, smávægilegri gengislækkun að slíkum aðgerðum loknum — kannske einhvern tíma í ókominni framtíð, þegar áhrifin á efnahaginn af stöðvun tertubotnainnflutningsins hafa fengið að segja til sín. Maður skyldi þó ætla, að skilningur sjómannanna á þessum vandamálum, sem dvelja langdvölum fjarri heimilum sínum, fjarri bæði blöðum og útvarpi jafnvel og þeim fréttum, sem þessum miðlunartækjum fylgja, þeirra skilningur ætti ekki að vera meiri heldur en þeirra stjórnmálamanna, sem fengið hafa allar þær upplýsingar um stöðu og horfur og áætlanir í þessum málum ekki síður en t.d. ríkisstj. sjálf og hennar stuðningsflokkar. En af hverju skyldi skilningur sjómannsins vera þessum mönnum svo miklu fremri? Skyldi sú þekking ekki vera fengin af biturri reynslu þeirra, sem fyrstir urðu fyrir áföllunum, sem þjóðin í heild hefur einnig orðið fyrir, þeirra sem á tveimur árum hafa misst allt að helmingi launatekna sinna, meðan stórar stéttir, launþegahópar og reyndar mikill hluti alls almennings, hafa haldið sínu og öllu sínu, og þá kannske ekki sízt þeir, sem á sínum tíma náðu fram miklum launahækkunum á grundvelli mikilla tímabundinna tekna þessara sömu sjómanna. Ég geri ráð fyrir, að svo sé, og undir þau orð, sem komið hafa hér fram í umræðum um þetta mál til þessa um það tilfinnanlega tjón, sem okkar fiskimenn hafa orðið fyrir, vil ég taka að fullu og öllu leyti.

Ég minnist þess, að á þessari sjómannaráðstefnu, sem ég vitnaði til áðan, sagði einn af forystumönnum sjómannasamtakanna, Tryggvi Helgason, formaður Sjómannafélags Akureyrar, eitthvað á þessa leið:

„Þá, sem bera þetta frv. fram, skortir að gera sér grein fyrir því, að lög þessi verði að veruleika.“

Ég tók það fram á þessari ráðstefnu, að þetta væru nánast sömu orðin og ég hefði haft við efnahagssérfræðinga ríkisstj., þegar þeir kölluðu á mig ásamt nokkrum öðrum þm. stjórnarflokkanna til þess að ræða um þetta frv. Strax og ég varð var við, þótt þá lægi það alls ekki fyrir, hvernig þau skipti yrðu, sem nú eru komin fram í fyrstu greinum frv., hafði ég við orð, að þetta yrði aldrei liðið af sjómönnunum sjálfum. Ekki það, að bæði þeir viðurkenndu ekki, og kannske ég öllu frekar viðurkenndi ekki, að slíkra ráðstafana og að þessu marki væri þörf, heldur vegna þess, að þeir, sem sömdu og undirbjuggu frv., gengju út frá alrangri forsendu. Þeir gengju út frá þeirri forsendu, að það væri verið að taka af mönnum — ég kem nú að því síðar. Auðvitað er alls ekki rétt að segja, að það sé verið að taka af þeim. Það er hins vegar verið að skerða samningsbundinn rétt mannanna. Þeir gerðu sér alls ekki grein fyrir því, hvað þessir menn voru komnir gífurlega lágt í sínum launatekjum. Ef þeir hefðu staðið á sama „level“ eins og þeir gerðu fyrir ári síðan, að ég tali ekki um fyrir tveimur árum síðan, var allt annað að horfa framan í þetta frv. En þegar sú þróun hefur orðið, sem hefur orðið á undanförnum tveimur árum, þá er aðstaða þeirra orðin allt önnur. Ég skal viðurkenna það og viðurkenndi það við þá, að það hefur verið sú hætta og reyndar það hefur ekki aðeins verið hætta, heldur því miður höfum við bitra reynslu að því, en sú hætta hefði verið fyrir hendi núna, að ef gengislækkunin hefði komið fram í fiskverðinu og síðan til sjómannanna eftir óbreyttum hlutaskiptareglum, þá er ég viss um það, að aðrar launastéttir í landinu hefðu aldrei unað því. Og sá ótti þessara efnahagssérfræðinga er því algerlega á rökum reistur, sérstaklega vegna þess, að þessir aðilar, sjómenn og almennir launþegar í landinu, hafa aldrei komið sér saman um það, hver afstaða annars til hins ætti að vera. Það hefur aldrei fengizt viðurkenning ekki einu sinni hjá þessum bræðrum og systrum í verkalýðshreyfingunni, hvað þá hjá allri íslenzku þjóðinni — á því, að fiskimaðurinn ætti að hafa launalega séð svo og svo mikið meira heldur en sambærilegir aðilar í landi fyrir áhættu sína í starfi, fyrir fjarvistir sínar, fyrir vinnuaðstöðu o.fl. o.fl., sem mætti upp telja. Það væri kannske tímabært að fara að fá þessa viðurkenningu einhvers staðar fram. Það má vera, að hún komi út úr væntanlegum samningum. Um það verður ekki sagt að þessu sinni.

Vegna þess að hæstv. sjútvmrh. er mættur hér í d., þá vil ég endurtaka mín upphafsorð, sem ég viðhafði í þessari ræðu minni. Ég tók það fram eins og þegar er séð, að ég skrifaði undir nál. meiri hl. með fyrirvara og ég sagði síðan, að áður en ég greiddi þessu frv. atkv., vildi ég fá skýr, jákvæð svör við fsp., sem ég mundi beina til hans síðar í minni ræðu.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að ræða um eitt og annað, sem kom fram hér við 1. umr., hvorki fullyrðingar hv. 4. þm. Austf. um skiptaverð á undanförnum árum né fullyrðingar hæstv. ráðh. um, hver munurinn hefði verið á verðinu, sem sjómennirnir hafa fengið til skipta, og svo verði því, sem útgerðin hefur fengið. Hins vegar verður ekki á móti því mælt, að mismunur á þessu verði hefur verið alla tíð. Hann hefur líka verið þann tíma, sem þau orð hafa staðið í samningum sjómanna og útgerðarmanna, að sjómenn skuli aldrei fá lægra verð heldur en útgerðarmaðurinn. Það er opinberlega vitað, að útgerðin hefur fengið borgað á bak við miklu hærra verð heldur en komið hefur til skipta bæði hjá síldarverksmiðjum, síldarsöltunarstöðvum og fiskvinnslustöðvum. Meira að segja veit ég til þess, að í höfuðborg Austfirðinga, Neskaupstað, þar sem hv. 4. þm. Austf. býr, hefur þetta verið stundað og nú síðast s.l. sumar af mjög eðlilegum ástæðum. Mér er líka kunnugt um það, að á sumum skipum þaðan kom þetta allt til skipta. En mér er líka sagt frá því, að á öðrum skipum hafi ekki komið til skipta hjá skipverjum. Á þessu hefur sjálfsagt verið allur háttur, en ég held, að það sé vitað, og sjómenn hafa reyndar vitað það líka, þótt þeir hafi ekki getað náð tökum á því, að þetta hefur verið stundað allt í kringum landið í mörg ár.

Einni spurningu varpaði ég fram á þessari sjómannaráðstefnu. Ég spurði þá, sem þar voru staddir, hver hefði orðið þessi svo kallaða kjaraskerðing sjómanna, sem nú er sem mest talað um, ef gengisfellingarleiðin hefði ekki verið valin? Jú, svörin komu ekki við henni. Ég hélt áfram þessum þankagangi mínum og spurði: Ef haldið hefði verið áfram á þeirri leið, sem hefur verið upp tekin nú um nokkurt skeið, t.d. að bæta eins og 1000–1400 millj. kr. við þær 124 millj., sem borgaðar voru til útgerðarinnar úr ríkissjóði á s.l. vetri, hvaða áhrif hefði það haft á fiskimennina okkar, hvernig hefði átt að ná þessu fé, hvaðan hefði það átt að koma? Ég geri ráð fyrir því, að þrátt fyrir það, að margar till. hafi komið fram um það hér á þingi, hvernig þessir fjármunir ættu að nást, hefði fyrr eða síðar komið að því, að þeir — eins og allur almenningur — hefðu orðið að leggja í það púkk með almennum sköttum eða skattgreiðslum. Það er alveg öruggt, að að þessu hefði komið, ef hin svo kallaða uppbótaleið hefði verið farin, en ég leyfi mér að fullyrða, að það hefði orðið enn þá þungbærara fyrir þá eins og aðra launþega, ef svo kölluð niðurfærsluleið hefði verið valin. Mér er engin launung á því, að ég var lengi vel þeirrar skoðunar, að það hefði átt að reyna að sameina þessar tvær leiðir, uppbótaleiðina og svo gengisfellingu, en eftir því sem rökin hlóðust að manni og stefnt var að því enn ákveðnar heldur en nokkru sinni áður að reyna að styrkja atvinnuvegina þannig, að þeir gætu komizt í gang hið fyrsta til þess að koma um leið atvinnulífinu og vinnu í gang, þá gaf ég mig á þessu og fylgdi því, að sú leið yrði valin, sem valin var. En því er auðvitað ekki að neita, að henni fylgja ýmsir vankantar, m.a. þessi, sem fram hefðu komið í sambandi við þetta frv.

Ég geri ráð fyrir því, að það séu aðrir mér færari til þess að svara fullyrðingum eins og komu fram hjá síðasta hv. ræðumanni, þegar hann hélt því fram, að hér væri hægt að leysa þetta vandamál um 1500–1600 millj. kr. tilfærslu í þjóðarbúinu vegna sjávarútvegsins og svo kannske 504–600 millj. kr. tilfærslu þá til viðbótar vegna iðnaðarins, sem margir vilja láta sér sjást yfir, þegar talað er um þetta vandamál í heild. Ég geri ráð fyrir, að það séu einhverjir aðrir betur færir til þess að afsanna þessar fullyrðingar hans, sem ég krotaði nú að nokkru hjá mér, bæði um vextina, hvað þeir þýddu, þótt þeir yrðu felldir niður á útgerðinni; launaskattinn, lækkun olíunnar, hafnargjöldin og rafmagnskostnaðinn, sem hann auðvitað gleymir, að er ekki ríkissjóðs nema í sárafáum tilfellum, heldur viðkomandi sveitarfélaga og héraðsveitna og svo auðvitað ríkisveitnanna, þó að ríkissjóður komi inn í þá mynd. Nei, ég held, að þegar menn fara að skoða dæmið í heild og virkilega viðurkenna, hvað á ferðinni er, sjái þeir, hvað svona hjal er þýðingarlaust eins og kom fram í ræðu hv. síðasta þm.

Stjórnarandstaðan leggur til, að l. kafli frv. verði felldur niður. Þetta var líka krafa sjómannaráðstefnunnar, sem haldin var, að hann yrði felldur niður — eða þeirra, sem með því greiddu atkv. þar. Fulltrúar Sjómannasambandsins óskuðu einnig eftir því, að frv. yrði stöðvað. Þeir óskuðu eftir þessu við ríkisstj., en höfuðáherzluna lögðu þeir á, að þeir samningar, sem bundnir væru, yrðu losaðir með löggjöfinni sjálfri. Við þessari ósk okkar var orðið við 2. umr. í Ed. En þá voru sett inn ákvæði í frv. þess efnis, að við gildistöku þessara laga skyldu kjarasamningar milli útvegsmanna og sjómanna, sem samkv. ákvæðum þeirra var ætlað að gilda til ársloka 1969, þá væri heimilt sem sagt að segja þeim upp án fyrirvara.

Þeir, sem ferðinni ráða í sjómannasamtökunum hafa ekki óskað eftir efnislegum breytingum við einstakar greinar þessa frv. Er þetta á margan hátt mjög skiljanlegt, þegar haft er í huga, að stór hluti þeirra, sem við þetta eiga að búa, sjómannskjörin, hafa verið og eru fjarverandi og eru fyrst nú hina síðustu daga að koma til sinna heimahafna. Mótun krafna þeirra og aðgerðir geta því tæpast talizt eðlileg, fyrr en meðlimir sjómannafélaganna sjálfra eiga þess kost að láta álit sitt um þær í ljós. Því hefur oft verið h:eyft að undanförnu í samtökum sjómanna, að eðlilegt væri, þegar hafður væri í huga minnkandi afli, að taka upp breytt launafyrirkomulag á fiskiskipaflotanum, fara meira inn á fastakaupsfyrirkomulag með fríu fæði og aflapremíu í líkingu við það, sem er á togaraflotanum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að slíkt launafyrirkomulag kemur til umræðu í væntanlegum samningum hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Ég hreyfði því á fundi í stjórn og á ráðstefnu Sjómannasambandsins áður en frv. var tekið til 1. umr. í hv. Ed., hvort samtökin ættu ekki að beita sér fyrir því að fá þá breytingu fram á þessum lögum, að hluti þeirrar prósentu, sem á að renna í stofnfjársjóðinn samkv. þessu frv., verði látinn renna í sérstakan verðjöfnunarsjóð fyrir áhafnir fiskiskipa. Og ég vil taka það fram, að þessi hugmynd um sérstakan verðjöfnunarsjóð fyrir áhafnir fiskiskipa, sú hugmynd er ekki ný. Henni hefur meira að segja verið hreyft á fundum í Verðlagsráði sjávarútvegsins af fulltrúum sjómannasamtakanna þar. Ég taldi líka þá rétt, að ef af slíku gæti orðið, að það væri síðan samið um ýmsar leiðir, sem fara mætti til nýtingar á því fé, sem inn í slíkan sjóð kæmi, t.d. til þess að greiða a.m.k. hluta fæðiskostnaðar, greiðslu kostnaðar við allsherjarlíftryggingu, eins og frv. liggur nú fyrir um hér á Alþ., og jafnvel til þess að greiða framlag sjómanna í lífeyrissjóði fiskimanna, en það mál hefur nú um langt árabil verið mikið baráttumál hjá þeim flestum og skal það viðurkennt, þótt ekki hafi enn orðið samkomulag um það mál innan raða sjómannasamtakanna. Þessar hugmyndir eru enn í mótun hjá sjómannasamtökunum og verða að sjálfsögðu ræddar, þegar hægt verður að hafa fundi með félagsmönnunum. Og það er ekki fráleitt að hugsa sér, að einhverjar þeirra, eða hluti þeirra, gæti náð fram í frjálsum samningum við útgerðarmenn eins og ég tók fram, í samningaviðræðum, sem hljóta að hefjast nú alveg á næstunni, ekki sízt þegar haft er í huga, að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir við mig, að ef samkomulag náist milli þessara aðila, skuli ekki standa á því, að ríkisstj. beiti sér fyrir nauðsynlegri lagasetningu hér á Alþ., ef þörf þykir.

Vegna þess, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, frsm. minni hl., þá vil ég taka það fram, að ég hef alltaf talið, að það hefði ekki verið óeðlilegt, ef ekki hefðu fleiri breytingar verið ætlaðar á hlutaskiptafyrirkomulaginu, að sjómenn hefðu tekið þátt í af óskiptu að greiða aukinn kostnað, sem hefði orðið af gengislækkuninni, ef sú hin sama gengislækkun hefði þá fært þeim þá hækkun fiskverðs, sem samningarnir sögðu til um. Ég hefði talið það miklu eðlilegra heldur en að tekið sé af sjómönnunum til þess að borga í Stofnfjársjóð, sem síðan er varið til þess, að Björn Pálsson á Löngumýri, ýmsir rakarar og ljósmyndarar geti síðan eignazt hinar og þessar útgerðir.

En út af fæðiskostnaðinum, þá vil ég taka það fram í framhaldi af þessum vangaveltum um aukinn kostnað útgerðarinnar af gengislækkuninni, að við skulum bara hafa það í huga, að sjómennirnir hafa líka orðið fyrir auknum kostnaði af gengislækkuninni. Þessir menn, sem í ákaflega mörgum tilfellum, eins og í öðrum stéttum að sjálfsögðu, eru fjölskyldumenn, hafa sín heimili í landi og þurfa að sjá þeim fyrir nauðsynjum og verða að borga þann fæðiskostnað, sem þar kemur fram, þeir verða líka að borga hann um borð í skipunum. Og hann er ekki ódýr þar, sem mjög er eðlilegt, þegar mennirnir borga þetta sjálfir. Útgerðarmennirnir hafa engan vanda þar af annan en að ráða þann mann, sem tilreiðir matinn og kaupir inn vöruna. Í mörgum tilfellum er svo komið, ef ekki öllum — ég veit ekki, hvernig samningar skipstjóranna eru — þá eru þeir á fríu fæði hjá útgerðunum. Þeir eru það ekki, en það þekkist samt, að sumar útgerðir borgi fæði fyrir þá, og um leið auðvitað er allt það aðhald með þessum mönnum, sem eiga að fara með þessi miklu verðmæti fyrir áhöfnina, fari út í veður og vind. Útgerðin þarf ekki að hafa áhyggjur af því, matsveinninn getur farið með þetta á þann hátt, sem hann vill, og í mörgum tilfellum þarf skipstjórinn þess ekki heldur. Ég tel mjög nauðsynlegt, að á þessu yrði breyting, þannig að maðurinn, sem ræður þennan mann á skipið, hann hafi líka þá ábyrgð að fylgjast með því, að sá maður sé sínu starfi vaxinn. Nú er ég ekki að segja þetta til þess að lasta matsveinastétt fiskiskipaflotans, því að þar eru margir hinir ágætustu einstaklingar, eins og fæðiskostnaður þeirra sýnir. En því miður finnast líka dæmi hins, og þegar sjómenn þurfa af 13, 14, 15 þús. kr. kauptryggingu kannske að borga, eins og þekkjast dæmi, sem ekki eru þó, guði sé lof, mörg, upp í 10 þús. kr. í fæði yfir mánuðinn, og eiga svo að koma með 5–6 þús. kr. til sinna heimila til þess að borga húsaleigu, skatta og fæði sinnar fjölskyldu, þá sjá auðvitað allir, að þetta nær ekki orðið nokkurri átt. Og ef hinir svo kölluðu efnahagssérfræðingar ríkisstj. telja, að það sé ærin ástæða að taka einmitt af þessum mönnum til þess að styðja útgerðina, þessum mönnum, sem kannske ærið margir hafa orðið að lifa af sinni kauptryggingu núna í tvö ár, þá segi ég, að þeir eru að fara villir vegar. Enda er enginn vafi á því, að þeir komast að því og þeim verður bent á það í þessum væntanlegu samningum milli sjómanna og útgerðarmanna.

Ég kem þá að fyrirvara mínum. Skömmu eftir að gengislækkunin var ákveðin, þá kom sá ótti upp bæði hjá verksmiðjueigendum og söltunarstöðvum austanlands, og jafnvel hjá þm. þess kjördæmis einnig, að þar eð ný verðákvörðun á síld til bræðslu og söltunar vegna gengisfellingarinnar væri ekki fyrir hendi, væri rík ástæða til að óttast, að allur síldveiðiflotinn færi til veiða á Norðursjávarmiðum, jafnvel þó að síld kæmi upp á Austfjarðamiðum, vegna hinnar miklu verðmætisaukningar pr. kg, sem þeir fengju fyrir aflann í íslenzkum krónum vegna gengisfellingarinnar, þ.e.a.s. þeir, sem erlendis seldu. Ef afli hefði verið fyrir hendi á Austfjarðamiðum, hefði þetta vissulega orðið mikið áfall fyrir byggðirnar og þessi fyrirtæki og allan almenning þarna eystra, það skal viðurkennt. Það voru margs konar bollaleggingar uppi um, hvernig fyrirbyggja mætti, að til slíks kæmi. M.a. var rætt um það, hvort hægt væri að flýta nýrri verðákvörðun og láta hin nýju eða væntanlegu lög um skerðingarákvæðin, þegar landað væri erlendis, taka gildi frá 15. nóvember, eins og hið innlenda fiskverð á að gera. Ég átti marga viðræðufundi við ráðh. um þetta atriði, og mótmælti öllum slíkum hugmyndum. Ég benti m.a. á, að síldveiðiflotinn hefði nú verið fjarverandi mánuðum saman norður í hafi með tekjur áhafna í algjöru lágmarki. Væri sízt til of mikils mælzt, þó að þeir sjómenn, sem væru á skipum, er erlendis seldu á næstu fjórum til fimm vikum, fengju að njóta þess, þó að eitthvað legðist þeim til í tekjuaukningarátt á þessum mjög takmarkaða tíma, þangað til að frv. yrði væntanlega samþykkt. Eftir þessar viðræður tel ég mig hafa verið með loforð ráðh. fyrir því, að framkvæmdin yrði sú, að ef íslenzkt fiskiskip seldi erlendis á tímabilinu frá 15. nóvember til þess dags, er lög þessi öðlast gildi, skuli áhafnir þessara skipa taka laun samkv. núgildandi skiptakjörum án allrar skerðingar. Mín fsp. til hv. sjútvmrh. er því sú, hvort við þetta verði ekki staðið og hvort þetta sé ekki rétt túlkað hjá mér. Þessi fsp. er borin fram af gefnu tilefni, en þess munu mörg dæmi, ef það hefur ekki verið atgilt á undanförnum vikum að útgerðir þessara skipa eða sá ágæti Seðlabanki hafi fyrst upphæðir, sem frádráttarprósentunum næmi. Þetta eru ekki fáar krónur, skipta kannske millj., ef ekki meira. Það er auðvitað öllum kunnugt um hinar miklu landanir og góðu sölur margra okkar skipa í s.l. mánuði, bæði í Noregi, V.- Þýzkalandi og Englandi. Ef svar ráðh. við þessari fsp. minni er jákvætt, þá greiði ég þessu frv. atkvæði mitt.