18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

157. mál, embættaveitingar

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr., sem hér hafa farið fram, að neinu marki.

Ég stend ekki hér upp í sjálfu sér til þess að lýsa neinni ákveðinni afstöðu til þeirrar till., sem hér hefur verið fram borin. Um það segi ég það sama og hæstv. forsrh., að ég mun styðja það, að hún fari til n. og fái þar eðlilega athugun. Ég viðurkenni það fyllilega og er sammála hv. 4. þm. Reykv., að hér er um vandamál að ræða og sjálfsagt hafa allar þær ríkisstj., sem að undanförnu hafa setið við völd og koma til með að sitja við völd í næstu framtíð, meira og minna einhvern syndabagga í þessu sambandi, þannig að deila má um þær embættaveitingar, sem hafa átt sér stað. Hitt er annað mál, hvort sá vandi er auðleystur, því að samkvæmt eðli málsins verða embættaveitingar og hæfni manna til þess að gegna tilteknum embættum alltaf mjög háð mati, svo að slíkt hlýtur að vera umdeilt. Kjarni vandamálsins er sá, að ekki er hægt að finna neinn ákveðinn mælikvarða á slíka hæfni manna og hljóta því ákvarðanir, sem í því efni eru teknar, hvort heldur er af pólitískum ráðh. eða einhverjum öðrum, alltaf að verða umdeildar.

En það var nú ekki þetta, sem ég hafði hugsað mér að ræða, heldur get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því, að þær till., sem hv. Framsfl. ber nú fram í þessu efni og ég tel fullkomlega frambærilegar, ríða að mér finnst töluvert í bág við þá stefnu, sem sami flokkur boðar þó almennt i þjóðmálum og þá fyrst og fremst í efnahagsmálum. Það er vissulega athugunarvert að velta því fyrir sér, hvaða fyrirkomulag varðandi embættaveitingar geti bezt tryggt, að pólitísk hlutdrægni og önnur annarleg sjónarmið hafi ekki úrslitaáhrif á slíkar veitingar og hvað annað geti þá komið í stað þess skipulags, sem nú er. En svo að ég víki að hinum almennu þjóðmálum og efnahagsmálunum, þá gengur sú stefna, sem af flokknum hefur verið boðuð í þeim efnum, alveg í berhögg við anda þeirrar till., sem hér er borin fram. Allar þær till., sem boðaðar hafa verið og nú hafa verið sérstaklega undirstrikaðar á miðstjórnarfundi hv. Framsfl., sem nýlega er afstaðinn, ganga ekki í þá átt, sem þessi till. gerir, að draga valdið úr höndum ríkisstj. og pólitískra ráðh., heldur að hverfa aftur til þess fyrirkomulags, sem við Íslendingar höfum lengi þekkt og höfum misjafna reynslu af, að færa þetta vald aftur í miklu ríkara mæli og kannske enn ríkara mæli heldur en nokkru sinni áður hefur verið, í hendur hinna pólitísku valdhafa.

Hv. 4. þm. Reykv. fullyrti í ræðu sinni áðan, að hylli núverandi stjórnarflokka og stjórnarstefnu væri hallandi með þjóðinni. Úr því verður auðvitað skorið á sínum tíma, þegar til kosninga verður gengið næst, hvenær sem það verður, en sú stefna, sem hv. framsóknarmenn boða, gengur eindregið í þá átt, — um það hélt ég, að ekki ætti að vera ágreiningur, — að auka mjög verulega vald hinna pólitísku flokka í þessum efnum. Þeir vilja að vísu ekki tala um höft og afneita, að þeir hafi nokkuð slíkt í huga. En ég fæ ekki lagt neinn annan skilning í þá stefnu, sem boðuð hefur verið, en þann, að það sé það, sem áður hefur verið kallað höft, þó að nú sé það yfirleitt kallað því fína heiti, að talað er um stjórn gjaldeyris– og fjárfestingarmála o.s.frv. Stefna ríkisstj. hefur verið sú að innleiða meira frjálsræði í þessum málum, færa það vald, sem áður hefur verið í höndum ýmissa n. og ráða, sem skipaðar hafa verið af þeim pólitísku aðilum, sem með völd hafa farið hverju sinni, í hendur almennings og einstaklinganna. Þetta telja hv. framsóknarmenn, að leiði til ófarnaðar, þannig að það verði að snúa blaðinu við og efla aftur völd stjórnmálaflokkanna og ríkisstj. í þessu efni. Að vísu er talað um það og till. eru bornar fram í þeirri mynd, að það eigi ekki að vera stjórnmálaflokkarnir, sem hafi þessa stjórn gjaldeyris– og fjárfestingarmála með höndum, eins og það er orðað, heldur eigi það að vera stéttasamtök. En þar kemur nokkuð það sama til, eins og raunar snertir embættaveitingarnar. Þó að það séu aðrir aðilar, heldur en ríkisstj., sem tilnefnir til slíks, þá hefur maður enga tryggingu fyrir því, að þessir aðilar séu ópólitískir.

Það hefur borið hér á góma, bæði hjá hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., að til greina gæti komið, að samtök opinberra starfsmanna, BSRB, fjölluðu að einhverju leyti um slíkar embættaveitingar.

Svo lengi, sem ég hef haft kynni af þessum samtökum, — ég get skotið því inn í, — hafa þau yfirleitt talið það utan við sitt hlutverk og menn verið, held ég, sammála á þeim vettvangi, óháð stjórnmálaskoðunum, að ekki væri rétt, að samtökin skiptu sér af embættaveitingum eða hefðu þar íhlutun um að öðru leyti en því að beita sér fyrir almennum reglum, sem þar yrðu settar, eins og þeirri, að embættin séu auglýst, þannig að mönnum gefist kostur á að sækja um þau o.s.frv.

En ef við víkjum að efnahagsmálunum, því, sem þeir kölluðu stjórn fjárfestingar– og gjaldeyrismála, þá má telja yfirgnæfandi líkur á því, að þó að það verði hagsmunasamtök, og hef ég þar bæði hagsmunasamtök atvinnurekenda og launþega í huga, sem skipi í þessi ráð og n., má gera ráð fyrir, eins og aðstæður eru í okkar þjóðfélagi í dag, að í þessi ráð og n. verði yfirleitt skipað út frá pólitískum sjónarmiðum. Það er þannig með forystumenn flestra þessara samtaka, að þeir eru yfirleitt mjög virkir á sviði stjórnmálanna og að sínu leyti á hér það sama við og um embættaveitingarnar. Það er erfitt að finna nokkurt fyrirkomulag í þeim efnum, sem tryggi fullkomið réttlæti. Það er það varhugaverða við að taka þessi mál þó úr höndum hinna pólitísku ráðh. og flytja þau yfir í hendur einhverra annarra, ef maður hefur ekki góða tryggingu fyrir því, að betri reglu verði þá fylgt af þessum öðrum aðila, að hina pólitísku ráðh. er þó hægt að gera ábyrga fyrir þeim ákvörðunum, sem þeir taka, gagnrýna þá, ef ekki hefur þótt rétt gert og fram eftir þeim götunum, en að því leyti, sem embættismenn og aðrir slíkir fjalla um þetta, þá verður ekki komið við ábyrgð á hendur þeim. Þess vegna óttast ég, að einmitt þessar till. um, að það eigi að vera hagsmunasamtök, sem ráða í efnahagsmálum og skammta þar hverjum sitt, hvort sem um fjárfestingarleyfi eða gjaldeyrisleyfi er að ræða, að hættan yrði enn þá meiri á pólitískri misnotkun, ef sá háttur yrði hafður á, heldur en jafnvel væri með gamla fyrirkomulaginu, þegar slíkar n. voru skipaðar pólitískt, því að hinar pólitísku n. má þó gagnrýna, eins og gert var í ríkum mæli og þær reglur, ef einhverjar eru, sem settar eru í þessum efnum. Fulltrúa stéttasamtakanna og það sama á einnig við um embættismennina, er ekki hægt að gera ábyrga á sama hátt, þannig að ef þeir eru kannske ekki síður pólitískir en hinir, þá skapar þetta enn meiri hættu á pólitískri misnotkun. En aðalatriðið, sem ég vildi benda á, er hið mikla misræmi, sem ég tel vera á milli þess, sem felst í þeirri till., sem hér er flutt, og þeirri almennu stefnu, sem boðuð er af hv. Framsfl. á sviði efnahagsmála.