18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

157. mál, embættaveitingar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það var einu sinni maður, sem endaði allar sínar ræður á þessu: „Auk þess legg ég til, að Karþagóborg verði eydd.“ Það er að verða nokkuð annarleg árátta á hv. 12. þm. Reykv., að hann getur naumast flutt svo ræðu, að hann ekki komi að gjaldeyris– og fjárfestingarmálum. Auðvitað eru það stór mál og góðra gjalda vert, að þau séu rædd. En ég hygg, að það fari nú fleirum sem mér, að þeim finnist erfitt að finna sambandið á milli þeirra mála og þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir til umr.

En ég vil aðeins undirstrika, að það, sem hv. þm. sagði um stefnu Framsfl. í þessu efni, er á algerum misskilningi byggt og reyndar var hann svo góður að afsanna það sjálfur í lok sinnar ræðu. Hann sagði, að till. okkar framsóknarmanna um fjárfestingarmál og gjaldeyrisstjórn miðuðu að því að færa valdið í hendur pólitískra valdhafa. Hann veit það sjálfur, að þetta er alrangt. Hann sagði það einmitt, að það væri reyndar tekið fram í okkar frv., að stjórn atvinnumálastofnunarinnar, sem við ætlum það hlutverk að setja almennar reglur um uppbyggingu atvinnumála, um gjaldeyrisstjórn og um fjárfestingarstjórn, ætti að vera í höndum fulltrúa, sem tilnefndir væru af stéttasamtökum, en ekki af hinum pólitísku flokkum. Þetta sagði hv. þm. í lok ræðu sinnar. En hann hefur ekki verið búinn að átta sig á því, þegar hann hélt fyrri part ræðunnar. Þess vegna fer því fjarri, að okkar till. gangi í þá átt að færa valdið í hendur pólitískum valdhöfum. Þvert á móti er það greinilega undirstrikað í grg. okkar með því frv., sem hann átti við og kom líka glöggt fram í þeim ræðum, sem við fluttum í því sambandi, að það væri ekki meiningin að færa valdið í þessum efnum í hendur pólitískra valdhafa. Við tókum það einmitt fram í því sambandi, að við sniðum þessar reglur á þann hátt, að minni hætta en ella, ætti að vera á því, að til pólitískrar hlutdrægni gæti komið. Þess vegna leggjum við á það áherzlu, að þær reglur, sem um þetta verði settar, verði almennar reglur. Það verði settar almennar reglur um gerð framkvæmdaáætlana um uppbyggingu atvinnulífsins, um fjárfestingarstjórnina, um gjaldeyris– og innflutningsmálin. En það liggur í augum uppi, að það er alltaf erfiðara að koma við pólitískri hlutdrægni í sambandi við setningu almennra reglna, heldur en þegar á að taka ákvörðun um einstakt tilvik, þ.e., þegar ákvarða á um hin einstöku tilvik, hvort sem það er reyndar um embættaveitingar eða um einstakar leyfisveitingar, sem hættan er mest á pólitískri hlutdrægni. Og ég hef aldrei neitað því og mun ekki neita því, að einhverju kunni að hafa verið áfátt í þeim efnum og þeim n., sem fóru með þessi mál áður fyrr, enda þótt ég hafi aldrei getað fengið það af mér að taka undir þann söng, sem hv. 12. þm. Reykv. hefur sungið í þeim efnum í garð þeirra manna, sem þessi mál hafa annazt.

Ég held, þegar þetta er skoðað, að við leggjum ekki til, að þessi ríkisstj. eða n., sem skipuð er af pólitískum flokkum, fari með valdið í þessum fjárstjórnarmálum, sem um er að tefla, heldur fulltrúar frá ýmsum stéttum og hagsmunahópum, sem hafa einmitt alveg sérstaklega brýnna hagsmuna að gæta í þessu sambandi, þá held ég, að það sé hrein rökvilla að ætla að halda því fram, að með slíku skipulagi sé verið að færa valdið í hendur pólitískra valdhafa.

Hv. 12. þm. Reykv. snerist að því i síðari hluta ræðu sinnar að reyna að sanna, að þó að ástandið í stjórn gjaldeyrismála og fjárfestingarmála o.s.frv. hefði verið slæmt áður í höndum þeirra pólitísku n., sem hann hefur harðlega deilt á, þá mundi það þó verða ennþá verra og ennþá verr komið í höndum n., sem skipaðar væru á þann hátt, sem við framsóknarmenn legðum til, þ.e.a.s. í n. tilnefndum af hagsmunasamtökunum.

Ég verð að segja, að í því sambandi kemur mér í hug nýlega uppsett skipulag af hæstv. ríkisstj. og Alþ., þ.e.a.s. skipun atvinnumálan. ríkisins, sem er ætlað það hlutverk m.a. að deila út hvorki meira né minna en 300 millj. kr. Og hverjir eiga að deila því út? Það skyldu ekki vera fulltrúar stéttasamtaka, sem þar eiga að koma nærri? Það er 9 manna n., 3 ráðh. og 6 menn tilnefndir af stéttasamtökum. Hv. 12. þm. Reykv. hlýtur að vera sérstaklega andvígur þessu fyrirkomulagi, sem þarna hefur verið sett á fót og telja sérstaka hættu á hlutdrægni í sambandi við úthlutun þess fjár, sem þar er um að tefla, úr því að hann lítur svo á, að slíkt fyrirkomulag sé enn skaðlegra en hitt, sem áður tíðkaðist og allir hv. þm. kannast við, með hve svörtum litum hann hefur dregið upp mynd af því ástandi, sem hann hefur þá talið ríkja í þessum efnum.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Það var algerlega ástæðulaust af hv. 12. þm. Reykv. að blanda þessu tvennu saman, till. um embættaveitingar og till. okkar framsóknarmanna um heildarstjórn á helztu þáttum fjármálanna. Auk þess var sú mynd, sem hann dró upp af okkar stefnu varðandi þau efni, á algerum misskilningi byggð.