23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3369)

168. mál, sumaratvinna framhaldsskólanema

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 326 hef ég leyft mér að flytja ásamt fleiri hv. þm. till. um sumaratvinnu framhaldsskólanema. Þessi þáltill. var lögð fram 6. marz, eins og ég hef vikið að hér á fundi fyrr í dag, en hún er nú fyrst til umr. Vegna þess að ég veit, að svipað mun ástatt um fleiri þáltill., sem hv. þm. hafa flutt á undanförnum mánuðum, að þær hafa ekki enn þá komizt að, þrátt fyrir það, að langur tími sé liðinn frá því, að þær voru lagðar fram, þá skal ég ekki vera mjög fjölorður um þetta mál núna, til þess að fleiri mál geti komizt til umr.

Fyrr í dag hefur verið að því vikið, að framþróun íslenzks þjóðfélags byggist ekki sízt á því, að við ættum vel menntuðum þjóðfélagsþegnum á að skipa. Þetta eru sannindi, sem oft hafa verið sögð í þessum sal og eru raunar viðurkennd um allan heim, að mennt sé máttur. Það er hins vegar rétt í þessu sambandi að benda á, að við Íslendingar erum að þessu leytinu talsvert á eftir frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum og raunar flestum öðrum þjóðum í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum um það, að við útskrifum hlutfallslega miklu færri stúdenta en þessar þjóðir flestar eða allar gera. Úr þessu er nauðsynlegt að bæta, en það kostar verulegt átak að gera það, talsvert fé, en umfram allt þó skipulagningu í sjálfu skólakerfinu. Hér á Íslandi hefur það verið svo undanfarið, að margir eða flestir hafa getað stundað framhaldsnám, enda þótt þeir eigi ekki til ríks foreldris að telja. Þetta hefur verið mögulegt, ekki sízt fyrir það, að við höfum búið við dálitla sérstöðu að því leytinu, að sumarfríin í framhaldsskólunum hafa verið lengri hér en alls staðar annars staðar, þar ég þekki. Og framhaldsskólanemar hafa gjarnan notað þessi löngu frí til þess að vinna fyrir þeim kostnaði, sem samfara er náminu á veturna. Þetta hefur verið á vissan hátt ákaflega æskilegt fyrirkomulag, því að margir af þessum framhaldsskólanemum hafa á þennan hátt kynnzt ýmsum höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar af eigin reynd vegna þessarar vinnu, auk þess, sem þetta hefur gert þeim mögulegt að halda áfram framhaldsnámi.

Á uppgangsárunum frá 1960 – 1966 var mikil atvinna í landinu og allir þeir framhaldsskólanemar, sem á vinnu þurftu að halda til þess að kosta sitt nám, áttu þess kost á þessum árum. Nú hefur hin síðari árin, þ.e.a.s. árin 1967 og 1968, mjög brugðið til hins verra að þessu leytinu. Eins og fram hefur komið í umr. fyrr í dag, þá var um talsvert atvinnuleysi hjá framhaldsskólanemum að ræða á s.l. ári og allar horfur eru á, að í ár verði þetta vandamál enn stærra en það var þó í fyrra. Það er af þessum ástæðum, að ég og meðflm. mínir að þáltill. á þskj. 326 hafa freistað þess að fá samþykkta viljayfirlýsingu meiri hl. alþm. um áskorun á ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu vandamáli. En ég verð að segja, að af þeim upplýsingum, sem fram komu i stuttu svari hæstv. félmrh. áðan við þeirri fsp., sem þá var verið að ræða, virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa lagt á sig ýkja mikið erfiði til að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr þessum vanda. Ég skildi hæstv. ráðh. m.a. þannig, að hann teldi, að forsenda þess, að sérstakt átak yrði gert í því að efla sumaratvinnu fyrir framhaldsskólanema, væri að allir aðrir í landinu hefðu atvinnu. Sem sagt, að þeirra sérstöku vandamál kæmu ekki til álita eða aðgerða af hálfu ríkisstj., fyrr en tryggt væri, að allir aðrir í landinu hefðu atvinnu. Hér tel ég, að skorti skilning á eðli þessa vanda, þessa sérstaka vandamáls skólanemanna.

Það er staðreynd, að núna á hávertíðartímanum er um að ræða mjög verulegt atvinnuleysi meðal landsmanna. Og það eru á því horfur, að nú í vertíðarlok, sem eru eftir nokkra daga, kunni þetta atvinnuleysisvandamál að verða enn stærra, heldur en í dag. Þess vegna sýnist mér, að ef meiri skilningur er ekki á þessu sérstaka vandamáli skólanemanna en mér finnst, að þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. beri vott um, þá sé ekki að vænta neinna sérstakra átaka af hálfu ríkisstj. til þess að bæta úr í þessum efnum. Ég minnist þess, að á árunum 1930–1940 var mjög áberandi norður á Siglufirði, að ýmsir stúdentar og námsmenn við háskólann voru þar starfandi við Síldarverksmiðjur ríkisins, bæði við rekstur þeirra og eins á þeim árum, þegar efnt var til byggingar nýrra verksmiðja. Þar nyrðra gekk sú saga, sem ég vænti, að sé sönn, að Jónas heitinn Jónsson frá Hriflu hefði sérstaklega beitt áhrifum sínum til þess að tryggja, að þessir námsmenn ættu þess kost að fá sumaratvinnu við síldarverksmiðjurnar. Ég minnist þess, að ég sá á þessum árum ýmsa stúdenta, sem þarna voru í vinnu, sem nú eru orðnir háttsettir og velmetnir menn í þjóðfélaginu, bæði í stétt lækna og ýmissa annarra stétta vísindamanna, sem þjóðin á mikið að þakka. E.t.v. er það því að þakka, að þessum mönnum var tryggð sumaratvinna við síldarverksmiðjurnar yfir sumartímann á þessum árum. Ég vildi gjarnan, að hæstv. núv. ráðh. hefðu þetta fordæmi til hliðsjónar, þegar þeir hugsa um þessi mál.

Í umr. áðan las hv. 6. þm. Reykv. upp upplýsingar, sem fram komu m.a. á öðru landsþingi menntaskólanema, sem haldið var í Reykjavík síðustu dagana í marzmánuði, um atvinnuhorfur framhaldsskólanema í menntaskólunum að Laugarvatni og við Hamrahlíð og í Menntaskólanum í Reykjavík. Ég hafði þessar tölur líka hér, en skal ekki lengja umr. með því að endurtaka það, sem hann sagði, en niðurstaðan af þeirri skoðanakönnun, sem þá var gerð, var sú, að 50–60% framhaldsskólanema, sem voru spurðir, töldu, að þeir yrðu að hætta námsferli sínum, ef þeir fengju ekki atvinnu í sumar. Ég held því, að það sé bæði rétt, skylt og skynsamlegt af ríkisvaldinu að gera nú öflugt og sérstakt átak til þess að bæta úr þessum vanda.

Ég er engan veginn ánægður með þá hugmynd, sem kom fram í ræðu hæstv. félmrh. áðan, þar sem hann lét liggja að því, að hugsanleg væri sú breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, að nemendur í framhaldsskólunum ættu að uppfylltum vissum skilyrðum rétt á atvinnuleysisbótum. Ég held, að það væri miklu eðlilegra að nota einhverja hluta af sjóðum almannatrygginganna til þess að efna til sérstakra atvinnuframkvæmda í landinu, sem þjóðin öll hefði gagn af og láta skólanema fá atvinnu við þær framkvæmdir. Mér dettur í hug, að ýmsar opinberar framkvæmdir eru þess eðlis, að þær má færa í auknum mæli yfir á sumartímann, þegar yfirleitt fæst meira fyrir þá peninga, sem varið er til framkvæmda, en þegar unnið er fyrir þá um hávetur og oft í vondum veðrum. Mér finnst ekkert óeðlilegt, að við í okkar veglausa landi efndum til mikillar vegagerðar í sumar víða í landinu og veittum til þess lán eða framlög t.d. úr atvinnuleysistryggingasjóði og sköpuðum á þann hátt nemendunum aðstöðu til þess að fá vinnu.

Á s.l. ári mun hafa verið flutt inn til landsins af kartöflum og grænmeti magn fyrir um tæpar 20 millj. kr. að verðmæti. Það er meira en hugsanlegt, að við gætum ræktað allar þær kartöflur sjálfir í landinu, sem við neytum, t.d. með því að veita framhaldsskólanemum atvinnu við að brjóta land og rækta kartöflur. Þannig eru ýmsir möguleikar til, ef viljinn er fyrir hendi. En vafalaust gerist ekkert í þessum efnum, ef áhugaleysið hjá þeim, sem með völdin fara, er nær algert um þetta sérstaka vandamál.

Við víkjum að því, flm. till., að ef það eigi að vera frambúðarástand í landinu, eða ástand sem vari um langan tíma, að skólanemar fái ekki atvinnu ár eftir ár, þá sé fyllilega tímabært að taka það til athugunar að lengja skólaárið og stytta sumarfríin i þeim tilgangi að útskrifa framhaldsskólanema fyrr út í atvinnulífið, heldur en nú er. Í sambandi við þá breytingu þyrfti nauðsynlega að efla mjög námslána– og námsstyrkjakerfið í landinu, stórefla það og taka til alvarlegrar íhugunar, hvort við ættum ekki að koma á hér námslaunakerfi eins og tíðkast og þekkist í sumum löndum Evrópu og víðar.

Ég skal nú, herra forseti, ekki lengja þetta mikið frekar. Ég gat um, að þessi vandamál framhaldsskólanema hefðu verið rædd sérstaklega á öðru framhaldsþingi menntaskólanema hér í Reykjavík og um það var gerð ályktun, sem ég ætla að láta vera mín síðustu orð að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Ályktunin er svo hljóðandi:

„Það er skýlaus krafa landsþingsins, að öllum nemendum, sem æskja þess, gefist kostur á að stunda nám. Grundvallarskilyrði þess er, að tryggð sé fjárhagsleg afkoma þeirra. Þess vegna leggjum við til, að:

a) Ríkið geri allt, sem í þess valdi stendur, til að auka eftirspurn eftir ófaglærðu vinnuafli yfir sumartímann.

b) Athugaðir verði möguleikar á að útvega íslenzku námsfólki atvinnu erlendis yfir sumartímann.

c) Námsstyrkjakerfi ríkisins verði stóreflt.

d) Jafnaður verði sá kostnaðar munur, sem er samfara námi fjarri átthögunum og eru þá sérstaklega hafðir í huga Austfirðir og Vestfirðir.

e) Námsmenn fái gjaldfrest og ívilnanir á opinberum gjöldum.

f) Ríkið styrki atvinnumálanefnd menntaskólanema. Í því sambandi lýsir landsþing menntaskólanema yfir eindregnum stuðningi við þáltill. nr. 326, flutta af Jóni Skaftasyni o.fl., varðandi atvinnu skólanema og vill sérstaklega undirstrika, að ríkið styrki vinnumiðlun menntaskólanema;

g) Sett verði upp heimavist í Reykjavík til að minnka fjárhagsörðugleika nemenda utan af landi. Kemur hér e.t.v. til greina KFUM–húsið eða eitthvert annað húsnæði, sem hægt væri að breyta með litlum tilkostnaði fyrir næsta haust.

h) námsmenn reyni að stilla fjárþörf sinni í hóf, eftir því sem unnt er.“

Þetta eru ályktanir 2. landsþings menntaskólanema.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þetta mál verði frestað og því vísað til hv. allshn.