23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

170. mál, skólasjónvarp

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það væri ekki úr vegi að taka undir athugasemdir hv. 6. þm. Reykv. áðan um fundarsókn. Mér telst til, að hér sé staddur u.þ.b. 1/4 þingheims. (Gripið fram í: Það hefur nú oft verið verra en þetta.) Af þessum hópi eru að ég held 5 þm. stjórnarflokkanna, einn ráðh. var staddur hér áðan, en var að fara burtu í fússi. Það er sem sé fámennt hér, en ég get sagt óvenju góðmennt þó. Það má spyrja, hvort það sé eiginlega forsvaranlegt að halda fundi við þessar kringumstæður og hvort það sé forsvaranlegt af manni sjálfum að halda ræður um mál, sem manni liggja þungt á hjarta, yfir tómum stólum stjórnarsinna, sem helzt ættu á orð manns að hlýða. En látum það vera. Ég vildi reyndar koma þessari aths. á framfæri, sérstaklega ef einhverjir fréttamenn skyldu nú heyra þetta. Mér finnst, að t.d. fréttamaður útvarpsins mætti gjarnan láta þessa getið, af því að þjóðin á að mínum dómi heimtingu á að vita, hvernig við þm. vinnum fyrir kaupinu.

Hér á þskj. 335 er þáltill., sem ég flyt ásamt Björgvin Salómonssyni. Hann átti sæti sem varamaður á Alþ., þegar till. var lögð fram, og þessari till. er ætlað að ýta á um framkvæmd mikils nauðsynjamáls.

Í grg. með till. er vitnað í skýrslu, sem sjónvarpsn. tók saman fyrir 5 árum. Í skýrslunni kemur fram, að n. hefur talið, að fræðslustarfsemi hlyti að verða eitt helzta verkefni íslenzks sjónvarps. N. virðist hafa litið á það sem sjálfsagðan hlut, að íslenzka sjónvarpið yrði ekki aðeins starfrækt sem dægrastytting og til fréttaflutnings og listrænnar uppbyggingar eftir því sem aðstæður leyfðu og mátulegt þætti. Sjónvarpið hlyti einnig að verða starfrækt sem skóli, skipulagður skóli með víðtækt starfssvið.

Nú hefur íslenzkt sjónvarp starfað í 21/2 ár og það hefur að vísu flutt ýmsa ágæta fræðsluþætti í dagskrá sinni innan um og saman við og örlítil kennsla hefur þar farið fram, þ.e.a.s. enskukennsla fyrir byrjendur, sem hefur nú verið lögð niður einhverra hluta vegna og væri fróðlegt að vita hvers vegna, en hér er enginn ráðh. staddur til þess að svara þeirri spurningu né öðrum, sem maður kynni að vilja leggja fyrir ríkisstj. En raunverulegt skólasjónvarp, eins og það, sem fyrirheit var gefið um í skýrslu sjónvarpsn. fyrir 5 árum, hefur látið á sér standa.

Eðlilegt virðist, að skipulagning og starfræksla skólasjónvarps verði í höndum fræðsluyfirvalda landsins, enda er gert ráð fyrir því í skýrslu sjónvarpsn. og þess um leið getið, að fræðsluyfirvöldin hafi mikinn áhuga á þessu máli og hafi þá þegar, þ.e.a.s. fyrir 5 árum, verið komið fyrir sérstökum útbúnaði í tilteknum skólum til þess að notfæra sér sem bezt fræðslustarfsemi skólasjónvarps. Maður hlýtur að spyrja: Hvað hefur eiginlega orðið af þessum áhuga? Hvers vegna hefur hans hvergi orðið vart í framkvæmd? Varla hafa fræðsluyfirvöldin komizt að þeirri niðurstöðu, að ástandið í skólamálum sé orðið svo gott, að það sé ekki lengur þörf þeirra miklu nota, sem hægt væri að hafa af skólasjónvarpi.

Ég ætla ekki af þessu tilefni að leggja út í umr. um þau mál, skólamálin eða kennslumálin almennt. Ennþá bíðum við nú eftir þeirri skýrslu hæstv. menntmrh., sem okkur var einu sinni gefið fyrirheit um, en það má benda á örfáa þætti kennslumálanna, þar sem skólasjónvarp ætti að geta bætt nokkuð og jafnvel mikið úr slæmu ástandi.

Þess er fyrst að geta, að samkvæmt könnun, sem nýlega fór fram á aðstöðunni til eðlisfræðikennslu í skólum okkar, þá ríkir þar svo mikill skortur á nauðsynlegri aðstöðu og nauðsynlegum tækjum, að það myndi kosta tugi millj. að skipa þeim málum svo, að sambærilegt væri við það, sem tíðkast hjá frændum okkar á Norðurlöndum og raunar flestum öðrum þjóðum Evrópu. Við stöndum sem sagt óralangt að baki þessum þjóðum að veita ungmennum okkar nauðsynlegustu undirstöðufræðslu í þessari grein, sem svo mikla þýðingu hefur nú á tímum, undirstöðugrein til vísindalegra rannsókna ýmiss konar og tæknilegra framfara og velmegunar. Úr þessu gæti skólasjónvarp að sjálfsögðu bætt mikið. Einn góður kennari, sem fram kæmi reglulega í sjónvarpi og hefði fullkomin tæki til afnota við kennsluna, gæti miklu áorkað í þá átt að veita ungmennum okkar þá fræðslu í eðlisfræði, sem svo mikla þýðingu hefur. Æskilegast væri að sjálfsögðu, að hver skóli hefði á að skipa og hefði til afnota nauðsynleg tæki og byggi við fullkomnustu aðstöðu til eðlisfræðikennslu, en það er nú því miður þannig, að tugir millj. hrynja ekki beinlínis niður úr erminni á fjárveitingarvaldinu, hvenær sem einhverjum dytti í hug að hrista hana. Og jafnvel þó að fjárveiting væri fyrir hendi, þá mundi í fyrsta lagi taka langan tíma að koma góðu skipulagi á þessi mál og þegar tækin væru fyrir hendi, þá er hætt við, að víða mundu ekki einu sinni vera til kennarar með nægilega sérþekkingu til þess að nota þessi tæki.

Svipað er að segja um aðstöðu til náttúrufræðikennslu og í fleiri greinum, þar sem mikið vantar á enn þá vegna skorts á tækjum og sérmenntuðum kennurum. Úr slíku mætti eflaust mikið bæta með kennslu í sjónvarpi.

Það, sem ég hef hér sagt um skort á nauðsynlegri aðstöðu og sérmenntuðum kennurum, á sérstaklega við um dreifbýlið og raunar um landsbyggðina almennt, en þar bætist einnig við sums staðar í framhaldsskólum og unglingaskólum, að kennarar með nauðsynlega þekkingu í tungumálum, dönsku og ensku og jafnvel líka í íslenzku, þeir fyrirfinnast ekki, þannig að skipuleg og regluleg sjónvarpskennsla í tungumálunum framkvæmd af úrvalskennurum gæti sums staðar að ég ekki segi víða í skólum orðið til þess að leysa mjög alvarlegan vanda.

Það er sem sé, eins og ég tek fram í grg., ekki hvað sízt vegna erfiðleika þeirra, sem dreifbýlið á við að búa í skólamálum, að ég hef leyft mér að flytja þessa till. Þörfin fyrir skólasjónvarp er alls staðar mikil, en hún er þó langmest í dreifbýlinu. Og slíkt sjónvarp mundi áreiðanlega, ef vel yrði til þess vandað, geta orðið þar til þess að opna ungu fólki nýjar leiðir til þroska og menntunar, leiðir sem hafa hingað til verið því lokaðar að mestu.

Svo legg ég til, að umr. verði frestað og málinu, herra forseti, vísað til allshn.