08.05.1969
Sameinað þing: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

171. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við erum búnir að heyra langa ræðu hjá hæstv. heilbrmrh. um kvensjúkdómadeild og Fæðingardeild Landsspítalans. Og við erum búnir að hlusta á upplýsingar á Alþ. fyrir nokkru síðan um þessi mál í fsp.–tíma. Auk alls þessa höfum við lesið greinar í blöðum um málið og við höfum hlustað á sjónvarpsþátt um allt þetta sama og niðurstöðurnar af öllu þessu eru allar á einn veg: Ástandið er svo fyrir neðan allar hellur, að það getur enginn heiðarlegur maður sætt sig við, að þetta verði svona lengur. Öll þau svör, sem komu fram hjá lækni Fæðingardeildarinnar um daginn við spurningum hjúkrunarkonunnar staðfestu það, sem áður hefur komið fram. Ég fullyrði, að hverjum heiðarlegum manni hefur runnið til rifja að heyra þessar lýsingar og ég vil þakka konunum, sem hafa haft forgöngu um að opna augu þm. fyrir ástandinu, eins og það er.

Ég ætla mér ekki að fara að deila á einn eða neinn af hverju ástandið er svona. En af þeim niðurstöðum, sem hæstv. ráðh. komst hér að áðan, dró ég þá ályktun, að hann teldi og hann hafi reyndar sagt það skýrum stöfum, að það sé ekkert hægt að gera í málinu á þessu ári. Ef ég hef tekið rétt eftir, þá held ég, að hann hafi sagt, að það væri sennilega hægt að ljúka teikningum eftir eitt ár. Það væri sennilega hægt að byrja að byggja 1971. Ég heyrði ekki, hvort hann sagði nokkuð um það, hvenær yrði lokið við að byggja.

Hvað verður nú búið að ske á þessu tímabili? Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum. Ég veit ekki, hvað skipulag Reykjavíkurborgar getur dregið þetta mál lengi, hvað það skipulag eða skipulagsleysi getur sett margar konur í lífshættu hér á landi. Kannske það standi í 4 ár eða meir að ræða um þetta skipulag. Hvað á að bíða lengi eftir þessu? Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að teiknistofa ríkisins gæti ekki teiknað þessa byggingu eða þessar byggingar, fyrr en á næsta ári, gæti ekki lokið við þær teikningar fyrr. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi sagt lokið við þær. Er þá engin leið til þess að fá þessar byggingar teiknaðar af einhverjum öðrum aðila? Mér hefur skilizt, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki vílað fyrir sér að ráða hingað ýmsa sérfræðinga til starfa erlendis frá. Getum við ekki fengið erlenda menn til þess að teikna þessar byggingar og gera það fljótt, ef annríkið er svona hjá húsameistara ríkisins, að ekki er hægt að koma þessu af á skemmri tíma, þrátt fyrir allan þann tíma, sem þessi ríkisstofnun hefur haft hingað til? (Gripið fram í.) Nú, það er svona mikið verk. En vinnst verkið ekki fyrr, ef fengnir væru fleiri menn? Er með öðrum orðum ómögulegt að hraða teikningum á húsi meira en þetta? Ég get ómögulega skilið þetta, ég verð að segja það eins og er. Og jafnvel þó að brotið verði eitthvað í bága við skipulag, sem ekkert er til þarna hjá Reykjavíkurborg, þá tel ég það tilvinnandi. Ég held, að það ætti að vera öllum mönnum ljóst, að það er verið að reyna að afstýra slysum með því að hraða þessu máli. Það er bókstaflega verið að reyna að bjarga mönnum úr lífsháska með því að hraða því og gera það, sem hægt er, til þess að koma þessum byggingum upp. Ég held, að allir reyni eftir mætti að bjarga mönnum úr lífsháska og hér er fólk í lífsháska og það dettur engum manni í hug að bíða eftir einhverjum óendanlegum breytingum eða skipulagi, þegar á að bjarga mönnum.

Hæstv. ráðh. varði svo að segja allri ræðunni til þess að leiðrétta misskilning þann, sem hefði komið fram hjá konum og öðrum gagnrýnendum á það fyrirkomulag þessara mála sem nú er ríkjandi. Það kann vel að vera, að einhvers staðar hafi gætt misskilnings, en þetta var svo mikill hégómi hjá honum, að ég held, að hann hefði getað sleppt megninu af þessu. Aðalatriðið er ekki þetta, aðalatriðið er að hefjast handa í þessu máli.

Fyrir Alþ. liggur frv. ríkisstj. um heimild til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar á árinu 1969. Þessar lántökur, sem þar eru ráðgerðar, eru samtals 225 millj. Allt eru þetta nauðsynlegir og góðir hlutir, sem þarna er ráðgert að framkvæma, ekki er að neita því, en við höfum 3 þm. flutt brtt. við þetta frv. Það var á dagskrá dagsins í dag, en var ekki tekið fyrir. Við flytjum þá brtt. við það frv. að heimila ríkisstj. að taka 20 millj. kr. lán til kvensjúkdóma- og fæðingardeildar Landsspítalans, bæta þessu við upphæðina og það sýnist nú ekki ákaflega langt gengið, þó bætt verði 20 millj. við 225 millj., þegar ekki minna mál en þetta er í húfi. Við gerum þetta til þess að reyna að stuðla að því, að allt verði gert þegar á þessu ári til að hraða þeim óhjákvæmilegu byggingum, sem nú vantar. Ég vil beina þeirri fsp, til hæstv. ráðh., hvort hann geti ekki fallizt á, að þessi brtt. okkar verði samþ., hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því, að hún verði samþ. Mér heyrðist reyndar á ræðu hans áðan, að hann væri þegar að svara þessu, þar sem honum fórust orð eitthvað á þá leið, að útilokað sé að byrja á neinu á þessu ári. Ég get ekki annað sagt en ég á ákaflega erfitt með að trúa þessu. Ég á ákaflega erfitt með að trúa því, að ekki sé hægt að hraða neinu á þessu ári, en fyrsta skilyrðið til þess að geta gert eitthvað að gagni og hraða málinu, er að hafa peningana til þess, en þeir eru engir til. Meira að segja var hæstv. ráðh. að segja okkur frá 10 millj. kr. láni, sem hann er búinn að tryggja frá atvinnumálanefnd ríkisins, til að vinna að því, sem ógert er í Landsspítalabyggingunni sjálfri. Það er auðvitað gott að fá það fé. En ég vil a.m.k. fá að heyra betri rökstuðning fyrir því, að ekkert sé hægt að gera á þessu ári til þess að hraða máli kvennanna. Ég endurtek þess vegna þessa fsp. mína til hæstv. ráðh. Sér hann enga leið til þess að hraða þessu máli á þessu ári, ef hann fær peninga til þess? Á maður að trúa því? Og ef hann sér einhverja leið, vill hann þá ekki hafa samvinnu við okkur um það að heimila lántöku til þess? Ef hann vill hafa það í einhverju öðru formi, skiptir það engu máli fyrir okkur, aðeins að peningarnir komi. Hann má sjálfur leggja fram till. eða ríkisstj. eða hver sem er. Það verður að fá peningana til þess, ef hægt er með því að gera eitthvað til gagns í þessu aðkallandi máli.