11.11.1968
Neðri deild: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í framsöguræðu sinni með þessu frv. í fundarbyrjun í dag lét hæstv. forsrh. svo um mælt, að þjóðin hefði orðið fyrir meiri áföllum en nútímamenn hefðu áður kynnzt. Þar átti hann við þá lækkun, sem orðið hefur á tekjum þjóðarinnar fyrir útfluttar vörur. Þetta hafa þeir endurtekið æ ofan í æ, hæstv. ráðh. og aðrir forystumenn stjórnarflokkanna, og látið málgögn flokka sinna flytja þennan boðskap. En þessi boðskapur er rangur. Það er að vísu rétt, að árið 1967 var verðmæti útfluttrar vöru hér frá landinu allmiklu minna heldur en 1966, en þá var það líka meira en nokkru sinni áður. Það var algjört metár. 1967 var útflutningurinn um 30% lægri í krónutölu heldur en árið 1966. Hvernig útkoman verður á þessu ári, er ekki enn vitað, því að árið er ekki liðið. En síðustu skýrslur, sem birtar hafa verið í Hagtíðindunum, sýna innflutning og útflutning til septemberloka í ár, og í septemberlok var útflutningurinn nokkru hærri heldur en 1967. Það kemur á daginn síðar, hver hann verður, þegar árið er liðið.

En það er bara ekki rétt, að þetta séu meiri áföll heldur en þjóðin hefur áður komizt í kynni við. Árið 1929 voru útfluttar vörur frá Íslandi fyrir 74 millj. kr. Árið 1930 lækkaði útflutningurinn niður í 60 millj. Það var 19% lækkun á einu ári. En meira átti eftir að koma. Árið 1931 fór útflutningurinn niður í 48 millj. Var þá 35% lægri heldur en 1929. Og árið 1932 var útflutningurinn enn 48 millj. eða 35% lægri heldur en 1929. Annað árið í röð. 1933 var útflutningurinn 52 millj. eða 30% lægri heldur en 1929. Þannig var þetta þá. Þrjú ár í röð var útflutningurinn 30–35% lægri á árunum upp úr 1930 heldur en hann var 1929. Þarna var um miklu meiri skerðingu á útflutningstekjum þjóðarinnar að ræða, heldur en nú hefur orðið, miklu meiri. En það var önnur stjórnarstefna hér þá og önnur ríkisstj. Þá var þessum vanda mætt með margs konar ráðstöfunum. Á þeim árum og þeim, sem á eftir fóru. Þá var t.d. lagður grundvöllur að hraðfrystiiðnaðinum hér á landi, sem hefur verið helzta stoðin í okkar atvinnulífi nú um lagt skeið. Ég vildi aðeins benda á þetta til að sýna fram á það, að þarna fara stjórnarflokkarnir með rangt mál, eins og á mörgum fleiri sviðum.

Nú er ný gengislækkun skollin yfir. Einn bandarískur dollar kostar nú 88 ísl. kr. Þetta er fjórða gengislækkunin á valdatíma núv. ríkisstj. Sú fyrsta var í upphafi stjórnartímabilsins í febr. 1960, þá lækkuðu þeir gengi krónunnar mjög mikið og þá ákváðu þeir gengi á Bandaríkjadollar 38 kr. En núna 88 kr. í grg. með frv. stjórnarinnar um efnahagsmál í febr. 1960 segir stjórnin, að hún telji það höfuðverkefni sitt að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. Stjórnin boðaði nýja stefnu og sagði, að það væri megintilgangur þeirrar stefnubreytingar, sem ríkisstj. legði til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna væri skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hefðu átt við að búa undanfarin ár. Þannig hljóðaði þetta þá. Síðan hafa þeir fellt gengið þrisvar og svo þess á milli stöðugt verið að gera ráðstafanir til að greiða uppbætur á útflutning. Og alltaf hefur þetta verið túlkað á sama hátt hjá þeim. Í ræðu sinni í dag um þetta mál sagði hæstv. viðskmrh., að með þessum ráðstöfunum, gengisbreytingunni og því, sem henni fylgdi, mundi færast nýtt líf í sjávarútveg og iðnað, og með þessu væri skapaður nauðsynlegur grundvöllur aðhliða uppbyggingar atvinnulífsins. Þetta ef alveg sami boðskapurinn eins og var fyrir tæpum níu árum, alveg nákvæmlega sá sami. Hann sagði, að þetta ætti að stuðla að söfnun fjár í gjaldeyrisvarasjóðinn á nýjan leik. Ég veit það ekki, hvort þeim tekst einhvers staðar að herja út lán í útlöndum og leggja eitthvað af því fyrir í bili og kalla það gjaldeyrisvarasjóð. Ég skal ekki segja um það, en skuldir þjóðarinnar við útlönd eru orðnar það geigvænlega miklar, að maður gæti haldið, að færi að þrengjast um lántökumöguleika hjá öðrum þjóðum.

Hæstv. viðskmrh. segir, að með þessu sé lagður nauðsynlegur grundvöllur alhliða uppbyggingar atvinnulífsins. Hverjir trúa þessu nú orðið, eftir þá reynslu, sem fengin er af sams konar yfirlýsingum ríkisstj. við gengisbreytingar, eða í sambandi við gengisbreytingar á liðnum árum? Hverjir verða til þess að trúa þessu? Ég held að þeim hljóti að fara fækkandi, sem trúa slíkum yfirlýsingum frá núv. ríkisstj. Og hvað skyldi verða langt þangað til þeir fara að ákveða uppbætur í einhverju formi til viðbótar við þessa miklu gengislækkun? Ég geri ráð fyrir því, að þeir gripi til þess ráðs, eins og áður, frekar en að fella gengið enn eftir einn eða tvo mánuði. Skyldi það geta dregizt fram yfir næstu áramót, að þeir setji lög um uppbótargreiðslur? Ég veit það ekki. Það kemur í ljós næstu mánuðina. Ég skal engu spá um það.

Það var sagt fyrir ári síðan, þegar gengislækkun stjórnarinnar nr. 3 var hér á ferðinni, að stjórnin mundi strax byrja að safna í nýja gengislækkun. Þetta hefur komið fram. Hún byrjaði strax að efna í nýja gengislækkun og hefur verið að því síðan, og nú er árangurinn af því starfi kominn í ljós. Hann kom í ljós í dag með hinni nýju gengisskráningu. Það er með ýmsu móti, sem stefnt er að gengislækkunum. Einn liðurinn í því starfi er það að byggja hús, íbúðarhús, handa fólki langtum dýrari heldur en þau þurfa að vera. Það hefur lengi verið svo hér eða í mörg ár, að byggingarnar hafa verið alltof dýrar, miklu dýrari heldur en þær þurfa að vera og verð þeirra hefur verið hærra en svo, að þjóðin fái undir því risið. En þegar ríkisstj. og ráðamenn Reykjavíkurborgar mynduðu félagsskap um íbúðarhúsabyggingar nú fyrir skömmu, þá fyrst komst vitleysan í algleyming. Ég gerði fyrirspurn í upphafi þings nú í haust um kostnaðinn við þessar íbúðarhúsabyggingar ríkisins og Reykjavíkurborgar, og hæstv. félmrh. svaraði þessum spurningum 23. okt. í haust. Þar kom fram, að litlar íbúðir, þriggja herbergja íbúðir, í sambýlishúsum hafa kostað um eina millj. kr. hver íbúð. Íbúð, sem var 92 ferm., kostaði 1 millj. og 16 þús. kr. og svo var flutt inn nokkuð af tilbúnum timburhúsum frá nágrannalöndum okkar. Verðið á þeim var, eftir því sem upp var gefið, 1 millj. og 370 þús. og upp í 1 millj. og 490 þús. eða rétt um 11/2 millj., hús, sem var 112,2 ferm. að stærð. Og það hefur tekið upp undir ár að reisa þessi timburhús.

Hvað segja þessir menn, sem fyrir þessu standa, um það, hvað þarf sá verkamaður að hafa mikil laun, sem býr í þessum nýju íbúðum, hvað þarf hann að hafa mikil laun, til að geta risið undir þeim kostnaði sem er því samfara að búa í íbúð, sem kostar 1–11/2 millj. kr.? Hafa þeir leitt hugann að þessu? Hvaða atvinnuvegur getur borgað slíkt kaup? Og hvað þarf að lækka krónuna mikið, til þess að atvinnuvegirnir, útflutningsatvinnuvegirnir, geti borgað það kaup, sem menn þurfa að hafa, til þess að geta staðið undir þessum íbúðarkostn.? Eru þeir búnir að láta reikna þetta út, láta sína sérfræðinga og reiknimaskínur finna þetta út? Er ekki þarna verið að efna til enn meiri gengisfellingar áður en langt líður? Ég gæti trúað því. Þessi íbúðarkostnaður er langtum hærri en hann þarf að vera. Það er hægt að byggja sómasamlegar íbúðir fyrir meðalfjölskyldur fyrir langtum, langtum lægri upphæðir heldur en hér er um að ræða, ef þessu er stjórnað af einhverju viti. Það hefur sýnt sig, að einstaklingar geta það. Einn alþm., sem hér á sæti í þessari hv. d., byggði íbúðarhús fyrir sig uppi í Borgarfirði í sumar, það tók ekki nema einn mánuð að koma þessu húsi upp, og það kostaði fullfrágengið 700 þús. kr. Þetta var timburhús, smíðað í verksmiðju hér í Reykjavík. Það var þannig um það bil helmingi ódýrara heldur en innfluttu timburhúsin, sem ríkisstj. og Reykjavíkurborg fluttu til landsins.

Hvenær koma næstu ráðstafanir núv. ríkisstj. til þess að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll, sem þeir kalla svo? Þess verður tæplega langt að bíða. Þetta hefur alltaf hvað rekið annað, ýmist uppbætur eða gengisfellingar, og þannig mun þetta ganga, meðan núv. ríkisstj. verður við völd. Hún sagðist í febr. 1960 telja það sitt höfuðverkefni að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. Það vita allir, hvernig henni hefur tekizt þetta á þeim árum, sem síðan eru liðin. Þannig er ástandið nú í málum atvinnuveganna, að flest atvinnufyrirtæki, a.m.k. þau fyrirtæki, sem vinna að framleiðslu á vörum til útflutnings, eru á heljarþröminni. Og erlendar skuldir þjóðarinnar hafa margfaldazt á valdatíma núv. stjórnar, munu nú vera 8–9 milljarðar króna miðað við hið fyrra gengi, en 13–14 milljarðar króna miðað við nýja gengið, sem skráð var í dag. Og ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla. Atvinnuleysi er skollið á víða um land. Þannig er ástandið, þrátt fyrir það, að árferði hafi verið mjög gott sum árin að undanförnu, hafi veríð metaflaár, og verðið á útflutningsvörunum hærra en nokkru sinni áður. Það eru engar líkur til þess, að núv. ríkisstj. muni nú frekar en áður leysa þann vanda, sem við er að fást. Vandinn í efnahags- og atvinnumálum okkar hefur stöðugt farið vaxandi, þrátt fyrir allar gengisbreytingar og aðrar ráðstafanir núv. ríkisstj. Og hann mun enn halda áfram að aukast, meðan slíku er fram haldið. Þess vegna á stjórnin að fara, hún átti að vera farin fyrir löngu. Það er engin von til þess, að nokkuð rætist úr í okkar málum, fyrr en hún er farin og tekizt hefur að mynda nýja stjórn. Það þarf grundvallarstefnubreytingu í málefnum þjóðarinnar, og það þarf nýja stjórn og nýjar aðferðir til þess að framkvæma hina nýju stefnu.