08.05.1969
Sameinað þing: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

171. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem fram hefur komið í þessum umr.

Hæstv. heilbrmrh. hóf mál sitt á því fyrra sinnið að segja, að þessi þáltill., sem hér er til umr., væri þýðingarlaus og óþörf. Hún hefði engin áhrif á gang málsins, vegna þess að hæstv. heilbrigðismálastjórn og hæstv. ríkisstj. hefðu fyrir löngu ákveðið að gera allt, sem hægt er til úrbóta í þessu máli. Fyrir þá, sem ekki eru hér á hverjum degi í þessu húsi, má geta þess, að þetta er nú venjulegur formáli hjá hæstv. ráðh., þegar við stjórnarandstæðingar flytjum mál. Þá eru þau yfirleitt talin óþörf, vegna þess að alsjáandi auga hæstv. ríkisstj. hafi fyrir löngu komið auga á misfellurnar og sé alveg að því komið að bæta úr þeim, svoleiðis að ég vona nú, að hv. þm., sem þessu eru vanir, taki þessi orð ekki alvarlega, heldur taki efnislega afstöðu til þeirrar till., sem hér er til umr.

Hæstv. ráðh. varði miklu af máli sínu til þess að leiðrétta alls konar missagnir, sem höfðu komið fram að hans dómi í því, sem sagt hefur verið og ritað um málið. Það átti allt að vera á misskilningi byggt, sem aðrir sögðu, þ.á.m. færustu sérfræðingar, sem starfað hafa að þessu máli. Þeir hafa misskilið málið frá rótum. Allt starfsfólkið á Fæðingardeildinni og Landsspítalanum hefði meira og minna misskilið aðstæðurnar, eins og þær eru þarna og þannig mætti lengi telja. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé svo og satt að segja fannst mér þau atriði, sem nefnd voru til staðfestingar þessu, harla lítilvæg í þessu sambandi. Menn spyrja að því og hv. 1. þm. Vestf. spurði að því, hvað ylli því, að ekkert væri hægt að gera á þessu ári. Þessu hefur nú hæstv. ráðh. verið að svara í tveimur ræðum og það er þá víst aðallega það, að það tekur svo langan tíma að teikna þetta hús, að það verður undir engum kringumstæðum hægt að byrja nokkrar framkvæmdir, fyrr en á næsta ári. Þetta þykja mér hörmuleg tíðindi, að enginn arkitekt íslenzkur skuli freistast til þess að teikna þessar byggingar á skemmri tíma en heilu ári. Það sýnir, svo að ekki verður um deilt, að ekkert hefur verið fyrir þessum málum hugsað. Það þarf að byrja á því að vinna þessi mál alveg frá grunni.

Það er alveg rétt, sem hæstv. heilbrmrh. sagði, að undirbúningurinn varðar miklu og hann vildi nefna það því til sönnunar, að gamla Fæðingardeildin, þessi eina, sem við höfum nú, hafi verið misheppnað hús frá upphafi. Ég held, að því sé ekki þannig varið. Hins vegar er það áreiðanlegt, að Fæðingardeildin var aldrei ráðgerð fyrir allan þann mikla fjölda, sem a.m.k. orðið hefur að nota hana upp á síðkastið og það er fyrir löngu búið að eyðileggja alla aðstöðu, sem þarna var, það er alveg rétt, með því að fjölga rúmum langt fram yfir það, sem nokkurt vit er í á svona spítala og fórna til þess alls konar sérfræðiaðstöðu, sem upphaflega var gert ráð fyrir þarna, en hefur orðið að fella niður vegna þeirrar miklu notkunar, sem á húsinu hefur verið.

Þá sagði hæstv. heilbrrh., að hugmyndin um byggingar þarna, a.m.k. um samtenginguna, væri alveg ný. Hún væri til komin í einhverri byggingarnefnd, má ég segja, sem hann, hæstv. núv. heilbrmrh., hefði skipað 1965. Það er þá væntanlega einn misskilningurinn enn, sem dr. Gunnlaugur Snædal lætur eftir sér hafa í áðurnefndu viðtali við Tímann, en um þetta atriði segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur ekki farið leynt“, sögðu þeir Gunnlaugur Snædal og Guðmundur Jónsson, „að við erum mjög óánægðir með þessa bráðabirgðalausn á málefnum Fæðingardeildar og geislalækningadeildar Landsspítalans. Í fyrra var unnið að till. að byggingum fyrir kóbalttækin ásamt stækkun deildanna tveggja og teljum við þá lausn miklu æskilegri.“ Ég veit nú ekki, hvort þetta er alveg rétt, en síðan segir: „Þær till., sem hér er um að ræða, eiga sér langa forsögu og eru upphaflega til komnar á dögum Gunnlaugs Claessens yfirlæknis röntgendeildar Landsspítalans og Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins, sem teiknaði gamla Landsspítalann. Í fyrsta lagi var strax í upphafi fyrirhuguð miklu stærri bygging en raun varð á. M.a. var þá ætlunin að byggja sérstaka geislalækningadeild vestur úr gamla spítalanum. Fæðingar– og kvensjúkdómadeild Landsspítalans var byggð á árunum 1947–1949. Þegar 1956 var síðan teiknuð viðbót við Fæðingardeildina af skrifstofu húsameistara ríkisins, Landsspítalamegin við bygginguna til suðurs niður á túnið. Illu heilli var horfið frá því ráði að framkvæma þessa stækkun.“

Þetta er eflaust misskilningur. Þetta segir, að það hafi 1956 verið ráðgert að byggja a.m.k. hluta af því, sem hefði getað orðið samtenging milli sjúkrahúsanna. Það er bæði talað um röntgendeild út úr Landsspítalanum (Gripið fram í: Það er ekki minnzt á, að það hafi verið nein till. um þetta.) Þessar byggingar, sem hér er sagt frá, að hafi verið ráðgerðar á þessu ári, eru á því svæði, sem viðtenging og samtenging hlýtur að koma. Það er ekki hægt að tengja þessi hús saman, nema á þessu svæði. Það liggur í hlutarins eðli.

Þá voru talin hér upp þau rúm, þar sem kvensjúkdómasjúklingar eru stundaðir og þau talin 82. Það er vafalaust alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði um það, ég dreg það ekkert í efa. En sá mikli munur, sem er á þessu og því, sem við erum hér að ræða um, er sá, að við teljum, að þau þurfi að vera á sérstakri deild, þar sem sérfræðingar eru og hafa alla aðstöðu til þeirra lækninga, sem hér er verið að tala um. Og ég tel, með fullri virðingu fyrir þeim sjúkrahúsum víðsvegar um landið, sem taka á móti sjúklingum með þessa sjúkdóma, þá geti það ekki jafnazt við eða komið í staðinn fyrir það, sem hér er verið að tala um. Það má líka segja, að stjórnarnefnd ríkisspítalanna hafi nú 6. maí, — í fyrradag, — komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta dygði ekki og ákveðið, að einhvern tíma í framtíðinni skyldu byggð 50 rúm í viðbót til þess að sinna þessum sjúklingum. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt. Ég tók fram, að þetta væri árétting á fyrri afstöðu.) Það er sjálfsagt að hafa það svo, en til fundargerðar 6. maí var vitnað og eitthvað hefur þótt við liggja að árétta afstöðuna. Hún hefur þá ekki verið mönnum svo ofarlega í huga, að ástæða væri talin til þess að endurtaka það, af hvaða ástæðum, sem það kann nú að vera.

Hæstv. ráðh. varpaði hér fram að mínum dómi mjög athyglisverðri spurningu. Hann sagði eitthvað á þessa leið – það er efnislega held ég rétt, hvort ég náði orðalaginu skal ég ekki segja: Er eðlilegt, að ráðh. þurfi að skipta sér af því, hvaða sjúklingar skuli vera hvar, m.ö.o., þegar hann var að segja frá þessum 6 rúmum, sem handlækningadeildin hafði góðfúslega látið í té? (Gripið fram í.) Og mér fannst á hæstv. ráðh., — hann svaraði nú ekki spurningunni, — en mér fannst, að honum þætti það ekki eðlilegt, að hæstv. ráðh. þyrfti að skipta sér af þessu máli og hann teldi það óeðlilegt. En er það óeðlilegt, að heilbrigðisyfirvöld þurfi að hafa hönd í bagga með slíku? Ég tel, að það sé ekki. (Gripið fram í: Það er bara óeðlilegt, að læknarnir skuli ekki sjálfir hafa frumkvæði að því.) Já, það má segja það kannske, að læknunum sé ætlað að stjórna þessum málum og það hafa þeir sjálfsagt gert. En hvernig hefur reynslan af því verið? Ég vitna bara til þeirrar skýrslu, sem ég las upp úr áðan frá borgarlækni hér í Reykjavík. Þar kemur fram, að almennar deildir verða 1970 svipað því, sem kröfur standa til á öðrum Norðurlöndum, en kvensjúkdómadeildin langt á eftir og í áðurnefndri skýrslu borgarlæknis segir hann ennfremur:

„Eins og áður er sagt, eru horfur á, að heildartala almennra sjúkrarúma í Reykjavík verði nægjanleg um það leyti, er þeim byggingarframkvæmdum lýkur, sem nú eru í gangi við sjúkrahúsin hér í borg. Hér eru ekki til deildir, sem nauðsynlega þarf að koma upp, háls–, nef– og eyrnadeild, augnadeild, geislalækningadeild og legudeild.“

Hver er það, sem á að sjá um þessa deildaskiptingu? Það hélt ég, að væri heilbrigðisstjórnin, yfirstjórn heilbrigðismálanna, en ekki einstakir læknar. Það er fullkomlega eðlilegt, að einstakir læknar, sem ráða fyrir tilteknum deildum, leggi áherzlu á, að einmitt þeirra deild búi við sem beztar aðstæður. Og þetta er það, sem hér hefur átt sér stað. Bæði Reykjavíkurborg og ríkið hafa verið í samkeppni um að byggja sams konar sjúkradeildir með þeim afleiðingum, að ýmsar aðrar deildir hafa orðið gjörsamlega útundan, eins og borgarlæknir kveður að orði: Það vantar algjörlega háls–, nef– og eyrnadeild, það vantar augnadeild og það vantar legudeild og það, sem við erum að ræða um hér í kvöld, kvensjúkdómadeildin, hefur orðið útundan, vegna þess að forustuna í heilbrigðismálunum hefur skort. Ég vil ekki kenna hæstv. heilbrmrh. um þetta. Ég veit, að með þeirri skipan í rn., sem hér er, hefur hann ýmis önnur mál á sinni könnu og það er tæpast von til þess, að einn ráðh. geti fylgzt svo með öllum málum, að hann geti gripið inn í þessi mál á hverjum tíma, þó að þörf væri. En hér er til starfandi sjúkrahúsnefnd og hvert er hlutverk hennar, ef það er ekki þetta? Hvað hefur sjúkrahúsnefnd kynnt sér oft aðstæðurnar á þeim deildum, sem við erum að ræða um undanfarin — ja við skulum bara segja 10 ár? Ég held, að það sé mjög sjaldan. En ég veit til þess, að eftir að skriður komst á þetta mál, mætti sjúkrahúsnefnd þar upp frá og kynnti sér aðstæður, og heiður sé henni fyrir það. En betur hefði verið, að hún hefði gert það eitthvað fyrr. Annars verð ég að segja það hæstv. heilbrmrh. til hróss, að það er verulega annað hljóð í honum núna heldur en 27. marz, þegar við ræddum þessi mál síðast. Og það hefur ýmislegt verið gert, það er skylt að viðurkenna og þakka það, því að ég er ekki þeirrar skoðunar, að þær bráðabirgðaráðstafanir, sem gerðar hafa verið, þurfi að tefja nauðsynlega framkvæmd þessara mála. Ég tek ekki undir það. Það er búið að bæta við 6 rúmum, það er náttúrlega ekki mikið, ég skal viðurkenna það. En þegar við höfum í huga, að rúmin eru 16 fyrir, þá eru þó 6 rúm svolítil viðbót.

Hinn 27. marz s.l. var talað um skipulag Reykjavíkurborgar sem algjörlega óyfirstíganlega hindrun. Nú hefur því þó verið áorkað, að hæstv. ráðh. treystir sér til þess að segja frá því hér, að skipulag Reykjavíkurborgar muni að öllum líkindum ekki verða hindrun fyrir þessum framkvæmdum. Það er vissulega nokkurs virði. 27. marz sagði hæstv. heilbrmrh. að útilokað væri, að hægt yrði að byrja á þessum framkvæmdum, fyrr en framkvæmdum við Landsspítalann, sem nú eru í gangi, yrði lokið og það yrði í fyrsta lagi eftir 2 ár. Nú segir hæstv. heilbrmrh., að hægt verði að byrja í vor. (Gripið fram í.) Hann taldi það hæpið í fyrra sinnið, en nú sem sagt telur hann mikla von til þess. Á þessu er töluverður munur.

Svo er ein sérstök rós í hnappagatinu til viðbótar þessu. Það er búið að ákveða, að kona skuli verða sett í byggingarnefnd Landsspítalans. Það er ekki lítils virði. Ég hygg nú, að þær konur, sem þessu máli hreyfðu, séu þegar búnar að áorka talsverðu og búnar að koma töluverðu til leiðar. Ég er ekki viss um, að það væru komin 6 ný rúm á handlækningadeildinni, að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar hefðu lofað betrun og bót, að teikningar yrðu örygglega til á næsta ári og fjármagnsvon væri mikil á næsta vori, ef afskipti þessara kvenna hefðu ekki komið til. Ætli það hefði þá bara ekki verið eins og það var? Ég er næstum því alveg viss um það.

Ég skal nú ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, en mér þykir það þó hljóta að skipta miklu máli, að Alþ. sýni a.m.k. hug sinn til þessa máls nú þegar, með því að leggja fram á þessu þingi nokkurt fé. Og ég tek undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. hafði áðan um það mál að segja. Ég vona, að hv. Alþ. sjái sér fært að veita hæstv. ríkisstj. heimild til að taka 20 millj. króna lán til viðbótar öllum þeim lánum, sem nú er verið að taka í þessu skyni. Samanborið við aðrar lántökur er þetta ekki há fjárhæð, eins og hér hefur verið rifjað upp og ef hv. Alþ. hefur efni á því að heimila ríkisstj. að bæta 150 millj. króna við framkvæmdirnar við Mývatn í kísilgúrverksmiðjuna þar, eins beysið og það verk hefur nú verið allt saman, finnst mér ekki til of mikils mælzt, að Alþ. sæi sér fært að taka eins og 20 millj. að láni í þessu skyni.

Um bráðabirgðabygginguna yfir kóbalttækin skal ég ekki ræða né um þá lausn, sem hæstv. heilbrmrh. beitti sér fyrir í því skyni, en ég get ekki látið hjá líða, að segja eins og hv. 9. þm. Reykv., að einnig þessar framkvæmdir ganga grátlega seint og fólk furðar sig á því, hvað valdi því. Ég ætla ekki að vera með getgátur uppi um það, en staðreyndin er sú, að af 5 mánaða byggingartíma, sem áætlaður var, eru 2 mánuðir þegar liðnir og næsta lítið af byggingunni sést. Vonandi eru það ekki neinar óyfirstíganlegar hindranir, sem þar er við að fást. En æskilegt væri, að meiri framkvæmdahraði væri á þessu máli.

Ég skal svo, herra forseti, láta þessu máli mínu lokið að sinni. Ég vona og ætla að segja það að lokum, að hv. alþm. þyki þessi till. og það mál, sem hér er til umr., ekki einskis vert, þó að sumir kunni að hafa á því lítið álit. Og ég skora á hv. þm. að sýna hug sinn til þessa máls og veita ríkisstj. það aðhald, sem hún áreiðanlega þarf með því að samþ. þessa till., eða þá till., sem hv. 9. þm. Reykv. flytur, sem er efnislega á sömu lund. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að hv. alþm. vilji ekki vera í þeim hópi, sem með góðvild og skynsemi vill stuðla að því og taka höndum saman um það að leysa þetta mikilsverða mál á viðunandi hátt og til frambúðar.