14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (3414)

175. mál, heyrnleysingjaskóli

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég tók mig til einu sinni í vetur og heimsótti Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík. Ég kynntist þar merkilegu starfi, sem þarna fer fram og ég kynntist líka því að, að þessari stofnun er búið á hinn hörmulegasta hátt. Þetta er eini skólinn, sem íslenzka ríkið rekur fyrir heyrnarlaus börn og hefur gleymt honum mjög á undanförnum árum og gert til hans næsta illa.

Ég sagði það hér í vetur, að ég hefði raunar komizt við af því, sem ég sá og kynntist þarna, því aðstöðuleysi, sem því fólki er búið, sem að þessum kennslustörfum á að vinna. Það er afleiðing af þessari heimsókn minni í Heyrnleysingjaskólann, að ég ásamt 11. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Sunnl. eða varamanni þess þm., sem þá átti sæti á Alþ., flyt svo hljóðandi þáltill.:

„Þar eð Heyrnleysingjaskólinn býr nú við allsendis ófullnægjandi húsnæði, ályktar Alþ. að skora á ríkisstj. að hefja þegar á næsta vori byggingu fyrsta áfanga fyrirhugaðrar byggingar Heyrnleysingjaskólans, svo að honum verði búin forsvaranleg ytri skilyrði og starfsaðstaða og gert unnt að gegna þýðingarmiklu hlutverki sínu.“

Það er ekki nóg með, að allur húsakostur skólans sé óviðunandi. Þarna eru ófullnægjandi kennslustofur, það er engin leikstofa, engin húsakynni fyrir líkamsíþróttir, engin smíðastofa eða handavinnustofur yfirleitt og herbergi skólastjórans, sem hann hefur bæði til einkakennslu fyrir heyrnarlausa nemendur og til viðræðu við nemendur yfirleitt, er líkara skáp en herbergi. Húsin eru sambyggð úr þremur gömlum byggingum og lega skólans er þannig, að hann stendur við eina fjölförnustu umferðargötu borgarinnar, þar sem hávaðinn er slíkur, að ekki er með góðu móti hægt að framkvæma venjulega kennslu, hvað þá heldur að framkvæma kennslu með nákvæmum heyrnartækjum, þar sem þarf að vera algjör kyrrð, og í öðrum löndum eru slíkar kennslustofur með sérstakri hljóðeinangrun, til þess að hægt sé að framkvæma slíka kennslu með árangri. Það er þess vegna allt, sem útilokar, að þetta fólk, sem þarna vinnur, hafi aðstöðu til þess að framkvæma sitt verk með fullnægjandi árangri.

Það hefur svo borið við, að nemendafjöldi í þessum skóla hefur allt í einu meira en tvöfaldazt. Þetta kemur til af því, að 1963–64 geisaði hér faraldur rauðra hunda. Þessi sjúkdómur veldur heilaskemmdum og á innri hlutum eyrans, þannig að börn, sem konur ganga með, þegar þær verða veikar af þessum sjúkdómi, verða nálega alltaf heyrnarlaus, eða með mjög skerta heyrn. Þessi árgangur, börn sem fæddust árið 1964, komu inn í skólann á árinu 1967. Þegar börnin eru 4 ára, skal þessi skóli taka við þeim, og þá var hann mjög vanbúinn því að taka við þessum hópi barna.

Það er ekki rétt sögð sagan, ef ekki er játað, að þá hrukku menn líka við og sáu, að ástandið var ógnvekjandi á þessu sviði. Reykjavíkurborg heimilaði 1967 rúmgóða lóð á ágætum stað undir framtíðarbyggingu fyrir skólann og menntmrh. fékk færan arkitekt til þess að gera uppdrætti að nauðsynlegum húsakosti fyrir þessa kennslustofnun og þessum uppdráttum fylgdu kostnaðaráætlanir. Þá var líka aðeins sýndur litur á því að útvega fjármagn til þess að framkvæma byggingar fyrir skólann, en það voru aðeins 300 þús. kr. eða sem svarar svona 1/3 til 1/4 af kostnaðarverði einnar íbúðar, algjörlega ófullnægjandi upphæð. En það gaf samt vonir um, að nú væru menn vaknaðir til vitundar um það, að búa yrði þessari stofnun ytri skilyrði, svo að hún gæti innt sitt hlutverk af hendi. En því miður er framhald sögunnar það, að engin fjárveiting hefur verið veitt síðan til Heyrnleysingjaskólans, ekki á fjárl. 1968, ekki á fjárl. ársins 1969 og ekki á fjárl. næsta árs. Það er engin hreyfing á málinu síðan. Hins vegar var gerð bráðabirgðaúrlausn í þessu efni, eins og oft vill verða og það var með því að taka íbúð skólastjórans og breyta henni í kennsluhúsnæði og taka á leigu húsnæði við Laugaveg, sem ég áðan sagði, að væri lítt nothæft til þessa hlutverks, vegna þess að það hús liggur alveg að aðalumferðaræð borgarinnar.

Vonirnar, sem vöknuðu 1967 um, að bætt yrði úr húsnæðisþörf skólans, hafa þess vegna dáið aftur og engin hreyfing verið á málinu síðan og það ber að harma.

Í þessari till. er farið fram á, að þeir uppdrættir, sem til eru frá hendi Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts um skólahúsnæðið, verði lagðir til grundvallar framkvæmdum og samkvæmt þeim verði byggður sá hluti skólans, sem snertir kennsluhúsrýmið, en hinn hluti teikninganna látinn bíða, en notazt við núverandi húsnæði skólans sem heimavistarhúsnæði fyrir nemendurna. Þetta væri hægt að bjargast með, ef svona væri tekið á málinu, en það er líka þá farið eins vægt í sakir um framkvæmdir og hugsanlegt er, ef það ætti að koma að verulegu gagni.

Ég held, að í þessari stofnun sé unnið mjög merkilegt starf við léleg skilyrði. Þarna er verið að bjarga mannsefnum, bjarga hæfileikum, sem með engu móti geta notið sín í þjóðfélaginu, ef þau ekki fá sérfræðilega kennslu og sérstakar ráðstafanir eru gerðar til þess að nýta þær heyrnarleifar, sem þessi börn hafa og kenna þeim mál, því að þegar börnin hafa ekki heyrnina, þá verða þau mállaus, nema sérstaklega sé að gert og það þarf sérfræðinga til.

Ákaflega lítið hefur verið gert í því að sérmennta kennara á þessu sviði, svo að skólinn verður að mestu leyti að notast við ófaglærða kennara, og það er hvergi nærri gott. Ennfremur er það svo, að mér er ekki kunnugt um, að hið opinbera hafi varið neinum fjárfúlgum til þess að gefa út eða láta semja kennslubækur fyrir heyrnarlaus börn, en til þess þarf sérstakar kennslubækur. Þetta er hvort tveggja vanrækt og má ekki svo til ganga lengur. Ég kynntist því, að kennararnir þarna hafa búið út nokkur kennslugögn sjálfir, algjörlega án opinberrar aðstoðar, og er það góðra gjalda vert, en það er þó á engan hátt búið svo að skólabókakosti þessa námshóps sem skyldi.

Það eru rétt 100 ár síðan Íslendingar fóru fyrst að sinna kennslu heyrnarlausra og það var einstaklingur, sem tók sig fram um það. Frumherjinn á þessu sviði er séra Páll Pálsson, seinast í Þingmúla og alþm. Skaftfellinga um skeið. Hann fór til útlanda að kynna sér málleysingjakennslu í Kaupmannahöfn og hóf fyrstur manna kennslu fyrir málleysingja hér á Íslandi árið 1868, en séra Páll gerði meira. Hann samdi Biblíusögur fyrir málleysingja og heyrnarlaus börn og hann bjó Kristinfræði Lúthers út með stuttum skýringum handa mál– og heyrnarlausum unglingum á Íslandi og einnig er til orðasafn til undirbúnings kennslu handa mál– og heyrnarleysingjum og öll voru þessi rit gefin út í Kaupmannahöfn 1868 og 1869, fyrir réttri öld.

En síðan hefur ríkið tekið við þeim skóla, sem séra Páll kom á fót, það var Málleysingjaskólinn, sem lengi hét svo, en með löggjöfinni, sem sett var nú fyrir nokkrum árum, var honum valið heitið Heyrnleysingjaskóli. Og það er þessi stofnun, þessi vanrækta stofnun, sem ég er hér að gera að umtalsefni samkvæmt þeirri till., sem ég og hv. 11. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Sunnl. flytjum.

Menntmrn. mun hafa skipað n. sérfræðinga til að kanna þessi mál og þessi n. hefur nýlega lokið störfum og gefið út merkilegt nál., sem ýmsir þm. hafa í höndum og ef til vill allir, mér er ekki alveg að fullu kunnugt um það. Þeirra niðurstaða er sú, að ótvírætt verði að fullnægja þeirri nauðsyn að hefja nýbyggingu fyrir heyrnskerta. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í niðurlagi þessa nál.:

N. telur sjálfsagt, að unnið verði ótrauðlega að því, að þau heyrnskert börn, sem virðast hafa möguleika til þess að njóta kennslu í almennum skólum, fái skilyrði til þess, enda á hið sama við um þessi börn sem um önnur fötluð börn, að þau eiga því aðeins að vera í sérskólum, að þroska þeirra sé þar betur borgið. Slík skilyrði eru nú betri hér en áður var, m.a. vegna starfsemi heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.“

Um skólann sjálfan segja þau, að það verði að sjá honum fyrir húsnæði, því að það húsnæði, sem hann búi nú við, sé með öllu óhæft. N. ræðir nokkuð um það, hvort hægt sé að leysa málið með því að ætla þessum börnum kennsluaðstöðu í almennum skólum og kemst að þeirri niðurstöðu, að það séu eingöngu þau börn, sem hafi lítið skerta heyrn, sem þar geti verið. En þau börn, sem hafa litlar sem engar heyrnarleifar og varla er hægt að hjálpa með heyrnartækjum, þau verður auðvitað að hafa í sérstökum skólum.

Það er sammæli allra, að það sé ekki hægt að hafa meira en 5–8 nemendur í heyrnleysingjabekk, nema þeir séu þá með litið skerta heyrn og í einstökum tilfellum verður að vera þarna um einstaklingskennslu að ræða. Slíkt er ekki hægt að ætla hinum almennu barnaskólum.

Á einum stað hér í nál. segja sérfræðingarnir íslenzku:

„Þegar heyrnarstöðvar heilans og heyrnartaugin eða líffæri í innra eyra er óstarfhæft, þá hjálpa heyrnartæki eyranu ekki fremur en sterk gleraugu gagna steinblindu auga.“

Þetta eru svo auðskilin rök, að ég held, að móti þeim verði ekki mælt. Heyrnartækin koma hins vegar að því meiri notum, sem bilun heyrnarinnar er minni. En þegar hún er engin, þá duga engin heyrnartæki.

Þeir vitna síðan til Dana og segja:

„Þó fer fjarri því, að Danir telji þessar framfarir í heyrnartækjum hafa leyst sérskóla fyrir heyrnskerta af hólmi. Þeir byggja nú sízt færri skóla af þessu tagi en áður. Nýr skóli er í Álaborg, skóli er í byggingu í Kaupmannahöfn og annar í Fredricia.“

Hins vegar játa þeir, að ýmsir, sem áður urðu að stunda nám í sérskólum fyrir heyrnskerta, geta nú með hjálp viðeigandi heyrnartækja gengið í almenna skóla, ef þeim er veitt þar sérstök hjálp.

Þeir víkja svo að því hér, að danskur læknir, dr. med. Ole Bentsen, hafi látið allverulega að sér kveða um málefni heyrnskertra hér á landi, einkum fyrir milligöngu kvenfélagsins Zontaklúbbsins. Læknir þessi heldur því fram, að heyrnskertum beri að kenna í almennum skólum og að meginatriði til þess, að heyrnskert börn læri málið, sé, að þau lifi í „sprogmiljö“, þ.e.a.s. fái nógu mikið „lydbombardement“, eins og hann orðar það. Þessar staðhæfingar eru því miður villandi, segir sérfræðinganefndin íslenzka. Eins og bent hefur verið á hér að framan, kemur þetta að engum notum, þegar þau líffæri, sem við tónum taka, eru óstarfhæf. Það hljóð, sem barn getur ekki heyrt, lærir það aldrei eftir eyranu. Þessi rök hygg ég, að séu ómótmælanleg og þykir furðulegt, ef nokkrir reyna að ganga gegn þeim. Það er sjálfsagt að taka það fram, að Zontaklúbburinn í Reykjavík hefur margt gott gert í þessum málum, hefur tekið þátt í að kosta kennara erlendis, til þess að þeir nemi aðferðir heyrnleysingjakennara, hefur sett upp magnarastöðvar hér í kirkjum og stutt að því, að teknar væru upp heyrnarmælingar hér við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Þetta er allt saman góðra gjalda vert og er sjálfsagt að meta að verðleikum. En hins vegar má ekki þessi félagsskapur eða neinir aðrir halda þeirri villukenningu fram, að heyrnleysingjaskólar séu óþarfir fyrir þau börn, sem heyrnarlaus eru. Þar get ég talað um sem kennari. Ég hef fengið í skóla, sem ég starfaði við, heyrnskert börn og veit, hve miklum erfiðleikum það er bundið kennurum að sinna þeim sem skyldi. Auk þess vantar almenna kennara algjörlega sérfræðilega þekkingu til þess að taka slíka nemendur réttum tökum og veita þeim þá hjálp, sem þeir verða að fá, ef þeir eiga ekki að verða fyrir tjóni á sálu sinni af því að vera í almennum skólum.

Það eru sumir, sem halda því fram, að börnin, sem vantar heyrnina, verði minna vör við fötlun sina, ef þau séu meðal þeirra barna, sem heyra. En ég efa, að þessi kenning sé rétt. Ég held, að þegar heyrnarskert barn er meðal fullheyrandi barna, sé það á hverju augnabliki minnt á fötlun sína meira en góðu hófi gegnir, en þau verði minna minnt á þetta, þegar þau eru meðal annarra barna , sem eru með sama ágalla. Svo mikið er víst, að skólastjóri Heyrnleysingjaskólans hér hefur tjáð mér, að hann hafi gert tilraunir með að senda börn, sem voru með skerta heyrn, í almenna skóla, en í þremur tilfellum fór það svo, að þessi börn komu eftir nokkurn tíma aftur í Heyrnleysingjaskólann og voru þá verr farin en áður og ein stúlkan var þannig farin andlega, að ef hún sá bók, þá stóðst hún ekki mátið og fór að gráta. Það er enginn vafi á því, að þessi stúlka hefur orðið fyrir andlegu áfalli við það, að henni var ætlað að nema með börnum með fulla heyrn.

Hins vegar tjáði skólastjórinn mér það, að nú eftir páska hefði hann reynt að koma pilti, sem hafði haft lítt skerta heyrn, í almennan barnaskóla, þar sem sérfróður kennari var til staðar og það hafi ennþá gefið sæmilega raun. Það er því ljóst af þessu, að það dugar hvorki að halda því fram, að engir heyrnleysingjaskólar eigi að vera eða öll heyrnskert börn, sem geta bjargað sér í almennum skólum, en eru með skerta heyrn, þurfi sérskóla fyrir sig. Þau eiga að vera í hinum almennu barnaskólum, svo framarlega sem þar er hægt að fullnægja þeirra þörf fyrir fræðslu og kennslu.

Þessi danski læknir, sem hér hefur verið nefndur, Ole Bentsen, hefur komið hingað til lands og talað um þessi mál og hefur látið eftir sér hafa ýmislegt, sem jafnvel er lagt út á þann veg, að hann telji, að engir heyrnleysingjaskólar eigi að vera til og það eigi heldur ekki að takast á dagskrá að byggja slíka skóla, en þar held ég að hans orð séu jafnvel nokkuð ýkt.

Í einu blaði er haft eftir þessum manni: „Það er ekki í mínum verkahring að sækjast eftir vinsældum“, segir dr. med. Ole Bentsen, „en hins vegar heyrir undir mig að hafa á réttu að standa og við förum ekki með neitt fleipur.“

Þetta finnst mér nú nokkuð sjálfbirgingslega mælt af manni, sem þó er ekki að úttala sig um sína sérfræði, heldur um kennslumál, sem hann mun ekki vera neinn sérfræðingur í. Hann hefur hins vegar óneitanlega haldið því fram, að fjárfesting í heyrnleysingjaskólum sé vitlaus fjárfesting og heyrnskert börn eigi að vera í almennum barnaskólum. En ég hef bent á það áður og geri það aftur hér, að þegar hann var beint spurður, hvort hann vildi þá leggja niður alla sérskóla og stofnanir fyrir vanheil börn á þessu sviði, þá svaraði bann: „Ja, ég vil a.m.k. ekki, að þau séu gerð útlagar í þjóðfélaginu með því að einangra þau í sérstökum stofnunum.“ Þarna virðist mér sjálfur læknirinn draga nokkuð í land og hopa frá þeirri fullyrðingu, að engir heyrnleysingjaskólar eigi að vera, enda væri það fásinna hin mesta. En ekki meira um það.

Þessi maður starfar í Danmörku, og hann starfar einmitt við skóla, sem hefur með heyrnskert börn að gera. En jafnvel á því svæði í Danmörku, sem þessi maður starfar, er ekki búið að leggja niður heyrnleysingjaskólana. Þeirra virðist vera full þörf þar og allt, sem ég hef fengið af lögum og reglugerðum um þessi mál frá Danmörku, sýnir það og sannar, að Danir halda áfram að byggja heyrnleysingjaskóla og reka þá og hafa auk þess 10 heyrnarhjálparstöðvar í landi sínu og ætla hinum almennu skólum eingöngu að fást við kennslu þeirra barna, sem hafa mjög lítt skerta heyrn. Á Jótlandi er þessum málum komið fyrir á þann veg, að borgir og mörg sveitarfélög hafa sameinazt um að standa að heyrnleysingjakennslunni sameiginlega, með því að mynda um það sérstakt samstarfskerfi. Ég ætla hér að fara nokkrum orðum um kennslumiðstöðina í Herning í Jótlandi.

Í Herningborg eru 29 þús. íbúar og 4.900 skólaskyld börn eru á svæðinu. Þeir halda því fram þar, að börn með samskonar fötlun eigi saman og eigi að vera í sama skóla með tilliti til kennara og kennslutækja o.s.frv. , þ.e.a.s. heyrnskert börn sér og börn með aðra fötlun í öðrum sérstökum skólum. Hér segir í riti um þetta frá Herning.

„Áður hafði það verið svo, að fjöldi fatlaðra barna sat í barnaskólunum og fékk í mörgum tilfellum ekki fullnægjandi árangur af kennslunni. En til þess að bekkirnir séu ekki skipaðir of ósamstæðum börnum, sem erfitt er að kenna saman, þurfa börnin að koma frá landssvæði með 30—40 þús. skólaskyld börn.“

Þetta er þeirra reynsla.

Skólastofur heyrnardaufra barna eru sérstaklega hljóðeinangraðar, segir líka í ritinu. Þær þurfa að vera búnar mjög margvíslegum tækjum til kennslunnar. Það er mælt með því, að heyrnardauf börn séu höfð á unga aldri í leikskólum. Þá er lögð rík áherzla á, að menntaðir og sérhæfðir kennarar fari með slíka kennslu og hér segir í ritinu: „Einkum eru valdir til kennslunnar kennarar með próf frá kennaraháskólanum og sérpróf í mál– og heyrnarpædagogik og sumir hafa sérpróf í heyrnleysingjakennslu — (dövelærernes teori og uddannelse).“ —

Það lítur því svo út þarna, einmitt á svæðinu, þar sem dr. med. Ole Bentsen starfar, en það er við Statens Hörecentral í Árósum, að þar sé svo á þessum málum haldið, hann er ráðunautur við þessa stofnun í Herning, að hann sé aldeilis ekki búinn að koma í praxis þeirri kenningu sinni, að þessum málum sé hægt að ráða til lykta á fullnægjandi hátt í almennum barnaskólum, því að hann starfar við þessa stofnun.

Ég á það Zontaklúbbnum að þakka og áhuga hans í þessum málum, að mér voru send ýmis gögn varðandi þessi mál og þ.á.m. bréf, sem sent hafði verið sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Það var gert 23. sept. í fyrra, 1968 og beðið um upplýsingar um kennslu heyrnarlausra og heyrnardaufra í Danmörku. Svar kom frá menntmrn. danska 14. nóv. 1968 og þessu svari fylgdi reglugerð, sem um þessi mál gildir í Danmörku. Í svarinu frá menntmrn. danska segir svo efnislega, — ég hef tekið nokkrar setningar, sem mér þóttu máli skipta, alveg orðrétt upp, með leyfi hæstv. forseta:

Á síðari árum eru börnum útveguð heyrnartæki, strax og heyrnardeyfðar verður vart, jafnvel eiga ungbörn hér hlut að máli.

Barn, sem fengið hefur heyrnartæki, er undir eftirliti leiðbeinanda, sem óslitið samband hefur við foreldra og barnið.

Börn með skerta heyrn eru nálega alltaf sett í leikskóla („börnehave“) — og njóta þar kennslu heyrnleysingjakennara. — Þeir kalla þetta Danir „hörelærere“, sem komi til þeirra nokkrum sinnum í viku.

Börnin fá heyrnaræfingar („hörekorrektion“), varaaflestur („mundaflæsning“), málleiðbeiningar fá þau ennfremur og kennslu í málskilningi („sprogforståelse“), strax og þau koma í skólann. Og nú spyr ég: Hvernig haldið þið, að þessum hliðum kennslunnar yrði fullnægt hér í almennum íslenzkum barnaskólum? Ég held, að það sé alveg útilokað. Ég held, að það liggi svo í augum uppi, að Danir mundu ekki gera þessar ráðstafanir, ef þeir teldu, að barnaskólarnir gætu upp og ofan fullnægt þessu.

Í svarinu, sem sendiráð Íslands sendi frá sér, segir ennfremur á þessa leið:

„Fyrir 1950 voru gerðar dreifðar tilraunir með kennslu mjög heyrnardaufra barna í almennum skólum. En eftir að lög voru sett árið 1950 um 3 heyrnarhjálparmiðstöðvar í Kaupmannahöfn, Óðinsvéum og Árósum, sem afhenda ókeypis beztu heyrnartæki og veita heyrnarsljóum börnum alla beztu þjónustu og þjálfun, reyndist hægt að hafa mikinn fjölda slíkra barna í venjulegum skólum. Samkvæmt skólalöggjöfinni frá 1958 og reglugerð frá 1961 um sérkennslu í barnaskólum, var sveitarfélögunum gert að skyldu að annast kennslu heyrnardaufra. Um 3.000 börn eða um 0.5% eru svo heyrnarsljó að sérstakar uppeldisráðstafanir eru bráðnauðsynlegar í barnaskólunum. U.þ.b. 1.100 börn eru með heyrnartæki og eru um 300 þeirra í sérbekkjum í heyrnarmiðstöðvum, í kennslumiðstöðvum fyrir heyrnarlaus börn, en slíkar stöðvar eru 10 talsins í Danmörku.

Uppeldisfræðilega séð er til bóta, að heyrnardauf séu innan um og meðal talandi barna í heimili og skóla.“ (Gripið fram í.) Heyrnardauf börn, en það gagnar ekki, þegar um heyrnarleysi er að ræða.

„Til eru 3 heyrnleysingjaskólar í Danmörku reknir af ríkinu, í Álaborg, Fredricia og Kaupmannahöfn. Í þessum skólum nýtur mikill meiri hluti heyrnarlausra barna kennslu. Að öðru leyti er heyrnskertum börnum kennt í almennum barnaskólum eða sérkennsludeildum þeirra, þar sem eru sérfræðingar til kennslunnar.

Aðalatriðið er, hvort almennur barnaskóli hefur aðstöðu til að veita fullnægjandi kennslu sérfróðra kennara með eigi fleiri en 5—8 börn í bekk. Aðalatriðið er sérfróðir kennarar. Þó þarf ótal margt fleira að vera til staðar, til að árangur geti náðst.“

Það er rétt að taka næst svar frá sendiráðinu í Stokkhólmi. Sendiráði Íslands í Stokkhólmi var líka skrifað um þetta mál og beðið um upplýsingar um heyrnleysingjakennslu hjá Svíum. Hannes Hafstein, starfsmaður við sendiráðið, skrifaði svarið og hafði hann þá útvegað sér upplýsingar frá „Kungliga skolöverstyrelsen“ og fékk svar 31.10.1968. Upplýsingarnar voru allar um kennslu heyrnardaufra — „hörselsskadada barn“ — og hef ég efnistekið það svar. Þar segir, að á síðustu árum hafi að eins miklu leyti og mögulegt er verið reynt að stefna að því að samlaga heyrnardauf börn eðlilegu umhverfi í skóla, á vinnustað og í samfélaginu. Þá segir, að „till en viss utstráckning“ hafi tekizt að setja heyrnardauf börn í venjulega bekki skólanna, en til að það beri árangur, verða að vera vel sérmenntaðir kennarar, góð og fullkomin hjálpargögn og kennslutæki og vel skipulögð nemendavernd. Þetta nær til, segja þeir, „lindrigt eller medelsvárt handikappade elevar.“ Þetta nær til barna með litlar heyrnarskemmdir eða barna, sem hafa hálfa heyrn eða meira. En skólayfirstjórninni er fullljóst, að þessar leiðir eru ekki almennt færar fyrir börn, sem eru með mest skerta heyrn. Og framvegis verður full þörf fyrir sérskóla fyrir heyrnarlaus börn, segir í svarinu. Ef kennsla fer fram í venjulegum skólum, verður hún að fara fram eftir sérfræðikerfi og vera í höndum sérfróðra kennara. Heyrnleysingjakennslan fer, eftir stigi heyrnardeyfu, fram

a) í sérskólum,

b) í sérbekkjum barnaskóla,

c) í venjulegum bekk með sérstakri sérfræðikennslu og

d) í venjulegum bekk, þegar er um minnstu heyrnarskemmdir að ræða.

Hve snemma á að nota heyrnartæki? Þeirri spurningu er svarað í svari íslenzka sendiráðsins í Stokkhólmi. Þar segir, að það sé mjög breytilegt, en venjulega um þriggja ára aldurinn. Ef það sé gert fyrr, sé um mismunandi árangur að ræða.

Hve snemma æfingar í dagheimilum eiga að byrja, er og spurt um og svarað. Fyrstu uppeldisfræðileg afskipti eins til tveggja ára, upptaka í sérskóla eða forskóla, leikskóla eða barnastofur á fjögurra til fimm ára aldrinum. Börn með lítt skerta heyrn geta að fullu bætt sér heyrnardeyfðina með heyrnartækjum, en eru þá sett í sérstaka bekki.

Í svarinu er vikið að niðurstöðunum í Svíþjóð. U.þ.b. tæpur 1/3 allra barna með skerta heyrn getur gengið í venjulega bekki, annar þriðjungurinn nýtur kennslu í sérbekkjum og þriðji partur hinna heyrnarlausu gengur í sérskóla, þ.e.a.s. í heyrnleysingjaskóla. Þá er tekið fram í sérstökum lið, að hin mest heyrnskertu gangi í sérskóla, þ.e. heyrnleysingjaskóla. Áformað er nú að byggja 2 sérskóla fyrir heyrnardauf börn í Svíþjóð. Frá og með skólaárinu 1971–72 verður stofnað til fastrar menntaskólakennslu fyrir heyrnleysingja.

Reglugerð um sérkennslu heyrnardaufra barna hjá Dönum hef ég hér við hendina líka. Þar ber allt að sama brunni, að það er talið ógerlegt að komast hjá því að hafa sérskóla fyrir heyrnskert börn.

Ég minntist á það í upphafi máls míns, að hér hefði verið faraldur rauðra hunda á árinu 1963—64, og afleiðingin af þeim sjúkdómi væri nær tvöföldun nemenda í Heyrnleysingjaskólanum. Það hefur verið safnað skýrslum frá mæðrum þessara barna og þau svör hef ég haft aðstöðu til þess að sjá og ber þar allt að þeim brunni, að afleiðingar þarna eru meiri eða minni heyrnskemmdir á þeim börnum, sem þá fæddust og mæðurnar höfðu verið veikar af þessum sjúkdómi, einkanlega í byrjun meðgöngutíma. Hér er um ein 30 svör að ræða, því að það eru um 30 börn, sem hafa orðið fyrir þessum sorglegu örlögum. Móðirin sjúk gekk með þau og þau eru nú komin í Heyrnleysingjaskólann og búa þar við hina lélegu aðstöðu, sem þar er. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi móðurinnar, sem hlut á að máli, að lesa hér svar hennar, af því að það rifjar upp þessa átakanlegu sorgarsögu og mætti vera hv. alþm. eftirminnilegt. Einnig kemur svar þessarar móður inn á ástandið á Fæðingardeild Landsspítalans og gerir okkur ljóst, hversu það getur orðið örlagaríkt fyrir einstaklingana, fyrir þá, sem eru að fæðast þar, að mæðurnar verða að bíða vikum saman og komast þar ekki að. Það er mál, sem Alþ. er búið að velta fyrir sér í meira en 2 mánuði.

Svarið er að meginstofni alveg orðrétt svar frá einni móðurinni, sem var spurð um þessi mál, og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég fékk rauða hunda, þegar sex vikur voru af meðgöngutíma, leitaði þá læknis, óskaði fóstureyðingar, fékk leyfi, en það var samt ekki framkvæmt.“ Hér er sagt frá því, að það var yfirlæknir Fæðingardeildarinnar, sem neitaði fóstureyðingu og ástæðan var áreiðanlega löng bið eftir plássi.

Síðan segir: „Þar sem ég tel mig ekki geta svarað meðfylgjandi spurningum með einföldum játunum eða neitunum mun ég leitast við að skýra frá samskiptum mínum við lækna frá upphafi meðgöngutíma míns í meginatriðum. Ég tel þó, að slíka reynslu sé erfitt að tjá í nokkrum orðum, til þess er hún of viðkvæm og margþætt. Fyrst af öllu langar mig til að geta þess, að foreldrum mínum var vel kunnugt um, hve hættulegur sjúkdómur rauðir hundar væru verðandi mæðrum, og gerðu þau því allt sem í þeirra valdi stóð, til þess að ég gæti tekið þann sjúkdóm sem barn. En það tókst ekki og er ég svo tók sjúkdóminn upp úr miðjum jan. 1964, hafði heimilislæknir minn þá nýlega staðfest grun minn um, að ég væri barnshafandi. Var því haft samband við heimilislækni samdægurs og kom hann heim til mín og staðfesti sjúkdóminn. Taldi hann mjög brýna nauðsyn að leita leyfis til fóstureyðingar, þar sem ég væri komin svo stutt á meðgöngutíma og fóstrið þar af leiðandi í mikilli hættu. Það var því fyrsta verk mitt, er ég komst á fætur eftir nokkurra daga legu, að skrifa umsókn í samráði við heimilislækni minn til landlæknis og þeirrar n., er ákveður þessi mál, þess efnis að sækja um leyfi til fóstureyðingar. Það leyfi var síðan veitt eftir nokkurra daga bið og var þá samtímis lögð inn umsókn til Fæðingardeildarinnar. Biðin eftir leguplássi þar tók að mínu áliti allt of langan tíma og var ég ekki lögð inn fyrr en eftir 20. febr., þrátt fyrir ítrekanir. Eftir venjulega skýrslugerð og athugun, sem var framkvæmd af lækni við Fæðingardeildina fyrsta daginn, sem ég lá þar, var ákveðið, að aðgerðin skyldi gerð næsta dag. Mér var því ekið í skurðstofu morguninn eftir að loknum venjulegum undirbúningi fyrir slíka aðgerð og er skemmst frá því að segja, að yfirlæknir deildarinnar kom inn og lýsti því yfir, að hann mundi ekki framkvæma þessa aðgerð, ég væri komin of langt og skyldi farið með mig úr skurðstofu þegar í stað. Það skal tekið fram, að hann hafði ekki skoðað mig eða átt viðtal við mig áður. Það var því farið með mig á sjúkrastofu mína aftur í skyndi og er óþarft að lýsa sálarástandi mínu þann dag og þá viku, sem ég átti eftir að dveljast þarna, því að skilningi var ekki fyrir að fara. Tilganginn með veru minni þarna svo lengi skil ég ekki, því að mér var Ilóst, að aðgerðin yrði ekki framkvæmd. Afsakanir taldi yfirlæknirinn þær, að ég hefði verið komin á þriðja mánuð á leið, er ég fékk sjúkdóminn og fóstrið því úr allri hættu.

Ég var að lokum útskrifuð af sjúkrahúsinu með þeim fullyrðingum, að ég mundi áreiðanlega fæða heilbrigt barn. Ég átti tal við landlækni, er ég kom af sjúkrahúsinu og sagði honum málavexti og lét í ljós óánægju mína yfir þeirri meðferð, sem ég hafði hlotið. Hann kvaðst ekki geta breytt ákvörðun yfirlæknis og þar við sat. Ekki var þá um annað að ræða en taka því, sem að höndum bæri.

Þess má geta, að ég átti viðtal og fékk skoðun hjá yfirlækni Fæðingardeildarinnar í júlí 1964 og innti hann þá eftir því, hvort ekki færi að líða að fæðingu hjá mér og minnti hann á fyrri dvöl mína á sjúkrahúsinu. Hann vildi lítið segja og viðurkenndi, að fæðing yrði ekki fyrr en seint í ágúst. Svo ól ég barn mitt þann 26. ágúst 1964, sem er drengur, og er hann fæddur með mjög alvarlega heyrnarágalla. Við foreldrar hans höfum farið með hann til lækna og sérfræðinga hér heima og árið 1967 fór ég til Bandaríkjanna með hann. Enn sem komið er hefur enginn getað sagt með fullri vissu um raunverulegt ástand fötlunar hans og við hverju megi búast af honum í framtíðinni, og er það að sjálfsögðu mikið undir því komið, hvort hann hlýtur þá þjálfun og menntun sem hann þarfnast.

Ofanskráð yfirlýsing er rituð samkvæmt beztu vitund og haggar ekki þeirri staðreynd, að umtalað barn er okkur foreldrum sínum mjög hjartfólgið og við stöndum frammi fyrir þeirri köldu staðreynd, ásamt öðrum foreldrum heyrnarlausra barna, að menntunarmál barnanna eru í molum sökum ónógrar aðstoðar og skilnings þeirra yfirvalda, sem um þessi mál fjalla.

Ef við nytum ekki einstakrar fórnfýsi og þolinmæði skólastjóra Heyrnleysingjaskólans og starfsliðs hans, sem reynir að halda uppi kennslu við engar aðstæður, værum við foreldrar vonlitlir. Og það er af öllu ljóst, að þjóðfélag okkar er þess ekki um komið að veita þessum börnum þá umönnun, sem þau þarfnast enn sem komið er og er óþarft að lýsa með orðum, hve mikil raun það er foreldrum og aðstandendum þessara barna að þurfa að heyja erfiða baráttu á opinberum vettvangi fyrir jafnrétti þessara barna við önnur börn í þjóðfélaginu. Það þýðir ekki fyrir yfirvöldin að loka augunum fyrir því, að börnin eru í heiminn komin og það hlýtur að vera réttlát krafa, að þau hljóti menntun við sitt hæfi, svo að þau geti gegnt sínu hlutverki í lífinu. Að öðrum kosti færu þau halloka í hinni hörðu lífsbaráttu, og væri það ómaklegt hlutskipti.“ Síðan er undirskrift.

Þarna er döpur sorgarsaga sögð,og mistök verða þarna. Það versta er, að þarna veldur örlögum þessa drengs biðin eftir læknismeðferð á Fæðingardeildinni. Það er enginn vafi á því. Þess vegna neitar yfirlæknirinn aðgerðinni og því fór sem fór.

Ég fagna því, að hæstv. menntmrh. hefur hér á Alþ. látið orð falla um það, að hann muni bregðast fljótt við og gera allt, sem unnt sé, til þess að bæta úr húsnæðismálum Heyrnleysingjaskólans. Það var honum líkt og ég átti þess von. Ég held þó, að hans aðstaða yrði sterkari, sérstaklega til þess að útvega fjármagn, þar sem fé er ekki til á fjárl. til aðgerða, ef Alþ. samþykkti þessa tili. núna á síðustu dögum þingsins og gæfi honum þannig heimild til þess að ráðast í þann minnsta og takmarkaðasta áfanga, sem hægt er að ráðast í, til þess að þarna verði bót á ráðin, þ.e.a.s. að hefja byggingu á kennsluhlutanum samkvæmt teikningum Skarphéðins Jóhannssonar. Fram á meira er ekki farið. Núverandi húsnæði skólans verði þá notað sem heimavistir handa nemendunum. Ég held, að það hljóti að vera til einhverjar leiðir til þess að útvega það fjármagn, sem dygði til þess að koma upp þessum kennslustofum. Það er um litlar kennslustofur að ræða, því nemendur verða ekki fleiri í kennslustofunum en 5–8. Að vísu þarf ekki síður að búa út þennan skóla en aðra, sérstaklega um starfsaðstöðu alla og leikaðstöðu. Svo þarf húsnæði fyrir þau margvíslegu tæki, sem nota verður til þessarar kennslu. Þá verður einnig og það ætti ekki að koma til að kosta mikið, að veita nokkurt fé til þess að búa út kennslubækur við hæfi þessara nemenda og halda áfram að sérmennta kennara á þessu sviði, því að u.þ.b. helmingur kennaranna núna eða a.m.k. helmingur þeirra er ósérmenntaður, en hafa aðeins fengið fljótlegan undirbúning til þess að inna af hendi þetta ofur vandasama kennsluhlutverk, sem þarna er innt af hendi.

Ég vík því aftur til till. og enda mál mitt með því að skora á ríkisstj. að hefja þegar á næsta vori byggingu fyrsta áfanga fyrirhugaðrar byggingar Heyrnleysingjaskólans í Öskjuhlíðinni, svo að skólanum verði búin forsvaranleg ytri skilyrði og starfsaðstaða og honum gert unnt að gegna þýðingarmiklu hlutverki sinu, en eins og búið er að honum nú, tel ég hann ekki geta með neinu móti innt sitt hlutverk af hendi, svo sem æskilegt væri og skylda og nauðsyn krefur.