18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

199. mál, hráefnaskortur síldarverksmiðjanna

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fyrirsögn þessarar till. er till. til þál. um sérstakar ráðstafanir vegna hráefnaskorts síldarverksmiðjanna. Mér er ljóst, að fyrirsögn till. orkar í rauninni tvímælis. Mætti raunar alveg eins kenna till. við fiskileit og fiskirannsóknir. En okkur flm. þótti rétt að hafa fyrirsögnina einmitt á þessa lund til þess að vekja sérstaka athygli á þessu viðfangsefni og þá því, hversu gífurlegir afkastamöguleikar eru ónotaðir í vinnslustöðvum sjávarútvegsins, þar sem um er að ræða afkastagetu síldarverksmiðjanna.

Till. er á þá leið, að Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n., er undirbúi í samráði við Hafrannsóknastofnunina till. um skipulagða og samræmda fiskileit, rannsóknir og veiðarfæratilraunir í því skyni að auka veiðar á bræðslufiski og gera þær veiðar fjölþættari.

Ég get, þegar ég mæli fyrir þessari till., að nokkru leyti vísað til þeirrar ræðu, er ég flutti áðan, þegar ég mælti fyrir till. þeirri, er Tómas Árnason flytur á þskj. 151. Þar er rætt um einn þátt þessa máls, þ.e.a.s. um loðnuveiðina, um athuganir vegna loðnunnar og eins og ég reyndi að gera grein fyrir þá, er það verkefni þannig vaxið, – það er það mikið vitað um loðnuna, hennar lifnaðarhætti og hennar göngur, — að það á að mínum dómi að vera unnt að skipuleggja nú þegar leit og rannsóknir á því sviði. En möguleikar í þessu efni eru sem betur fer víðtækari og þeir eru á fleiri sviðum. Það er um fleiri fiskistofna að ræða en loðnu eina, sem hægt ætti að vera að afla til vinnslu í bræðslum hér á landi. En um það gegnir öðru máli. Þegar loðnunni sleppir, þá er hér um að ræða verkefni, sem ekkert hefur verið sinnt. Ég álít, að þar þurfi töluverðan tíma til undirbúnings, áður en hægt er að hefja aðgerðir á þeim vettvangi.

Ég vil aðeins minna á 3 fisktegundir, sem talið er, að unnt sé að veiða til nytja til vinnslu í bræðslum hér við land. Styðst ég þá við upplýsingar, sem fram koma í þeirri grein dr. Jakobs Jakobssonar fiskifræðings, í 3. hefti Ægis þessa árs, sem ég vitnaði nokkrum sinnum til, þegar ég mælti fyrir till. um loðnuleitina áðan.

Fyrst þessara 3 tegunda vil ég nefna spærlinginn. Hans hefur oft orðið vart hér við suður– og suðvesturströndina. Af þessum fiski er mikil mergð í hafi. Hann er hins vegar, gagnstætt loðnunni, hlýsjávarfiskur og heldur sig mest í hafinu hér suður undan, en kemur upp að landinu til að hrygna. Hann hefur ekki verið veiddur hér svo teljandi sé. Hins vegar hefur þessi fiskur verið mikið veiddur annars staðar og er m.a. mikið veiddur á Norðursjávarsvæðinu. Það mætti auðvitað í nokkuð lengra máli greina frá lifnaðarháttum þessa fisks með tilvísun í það, sem fræðimenn segja um hann, en ég skal ekki lengja mál mitt með því að neinu ráði. Það hefur oft orðið vart við spærlinginn hér við Suður– og Suðvesturlandið, en í misjafnlega miklum mæli, stundum í mjög stórum torfum, en stundum nokkru minni. Það er talið alveg tvímælalaust, að s.l. haust hafi hann verið veiðanlegur, en þá fundust stór torfusvæði eitthvað um 100 sjómílur vestsuðvestur af Garðskaga. Það er álitið, að þá hefði verið heppilegast að nota hringnót við veiðarnar, en einnig er talið víst, að oft geti verið hentugt að veiða hann í vörpur og þá einkum í flotvörpur, en á Norðursjávarsvæðinu mun hann oft hafa verið veiddur í botnvörpu. Þetta allt þyrfti auðvitað að kanna rækilega áður en hægt væri að snúa sér að því að nýta þennan fisk. En hann er sem sagt einkum á ferðinni við suður— og suðvesturströndina.

Þá vil ég nefna sandsílið. Það er, gagnstætt loðnu og spærlingi, fyrst og fremst grunnsjávarfiskur. Það er álit fiskifræðinga og það er reyndar alkunna, að sandsílið er víðsvegar í kringum landið. Og það er álit þeirra, að það sé veiðanlegt víðs vegar í kringum landið og á breytilegum árstímum. Það er einnig álitið, að við veiðar á sandsíli mundi henta minni bátastærð heldur en notuð er við síldveiðar, fyrst og fremst vegna þess hve sandsílið er nærri landi.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna kolmunnann. Þessi fiskitegund hefur ekki verið vinsæl af sjómönnum. Hún er oft á ferðinni eins og kunnugt er, á sömu slóðum og síldin og það hentar ekki að veiða hana í sömu veiðarfæri og notuð eru við síldveiðar. Þvert á móti er kolmunni hinn versti vágestur í síldarnótinni. Kolmunninn er úthafsfiskur líkt og loðnan og það er talið, að af honum sé mikil mergð. Hann er, gagnstætt spærlingnum, einkum við Norðaustur–, Austur– og Suðausturland og á öðrum árstíma heldur en spærlingurinn gengur upp að landinu.

Þessi örfáu atriði, sem ég hef tekið hér fram varðandi þessar fiskitegundir, gefa til kynna, hversu þarna er um fjölbreytta möguleika að ræða. Bæði það, að tvær af þessum tegundum eru sín við hvort landshornið og sín á hvorum árstíma og ein víðsvegar kringum landið. Sumar mætti hugsa sér að veiða á djúpsævi og þyrfti þá stærri skip, en sandsílið á grynnra vatni fyrir þau smærri. Þetta gefur nokkuð til kynna um, hversu mikla fjölbreytni þarna gæti verið um að ræða. Án þess að ég ætli að fara að endurtaka nokkuð af því, sem ég sagði hér áðan, þegar ég mælti fyrir till. Tómasar Árnasonar um rannsókn á loðnunni, þá vil ég bara undirstrika það og árétta, að til þess að unnt væri að hagnýta þessa möguleika, verður að fara fram hörkuleit og nauðsynlegar rannsóknir og veiðarfæratilraunir. Öðruvísi verða þessi hráefni ekki nýtt.

Menn hafa sjálfsagt ekki haft trú á því, áður en síldveiðar byrjuðu í úthafi, eftir að þær höfðu verið stundaðar hér áratugum saman eingöngu á heimaslóðum — þegar síldin var komin í kallfæri, ef svo mætti segja, — að Íslendingar ættu eftir að veiða síld með svo góðum árangri við þau skilyrði, sem síldin hefur lengstum verið veidd við á þeim árum, sem síldarævintýrið átti sér stað. Menn hefur þá áreiðanlega ekki órað fyrir því svona yfirleitt, þó að þeir framsýnustu hafi kannske látið sig dreyma um það. Þess vegna held ég, að menn verði einnig að athuga þessa möguleika gaumgæfilega. Við hljótum að taka nokkurt tillit til þess, sem okkar reyndu og vísu fiskifræðingar hafa til þessara mála að leggja. En niðurstöður dr. Jakobs Jakobssonar af því, sem hann segir um þessar þrjár fiskitegundir, eru raunar alveg hinar sömu og ég rakti hér áðan varðandi loðnuna, að mjög miklar líkur séu til þess, að þær allar geti verið veiðanlegar hér við land að því marki, að til stórnytja geti orðið. Í þessum till. báðum er eingöngu fjallað um það, sem sumir hafa kallað bræðslufisk, þ.e.a.s. um þær tegundir, sem yfirleitt eru nýttar á þann hátt. Nú er það með sumt af þeim, t.d. loðnuna, að það er möguleiki að nýta þær á annan hátt og gera þær verðmætari. Það er hugsanlegt að frysta loðnu, það hafa verið gerðar tilraunir með það og Japanir hafa áhuga fyrir að kaupa hér loðnu. Þetta er auðvitað mál, sem þarf mjög að athuga. Það eru hins vegar ýmis vandkvæði á því að uppfylla þeirra óskir í því sambandi. Þeir vilja helzt fá loðnuna á alveg ákveðnu stigi með tilliti til hrygningar, þ.e. þegar hún er alveg við það að hrygna. Það er vegna hrognanna, sem hjá þeim eru mikil verðmæti. Þetta veldur því, að það eru mikil vandkvæði á að fullnægja þeirra óskum. En þetta verður auðvitað að skoða. Og ég vil láta það koma fram, að þó að þessar tvær till. fjalli eingöngu um bræðslufiskinn, um öflun hráefnis handa síldarverksmiðjunum, þá er það ekki vegna þess, að flm. sé ekki ljóst, að við verðum einnig að leggja mikla áherzlu á að afla hinna dýrari fiskitegunda, vera vakandi fyrir þeim nýjungum, sem til greina geta komið á því sviði. Það er bara annað mál. En ég vil láta það koma alveg skýrt fram, að þetta er okkur vitanlega mjög vel ljóst. Það á ekki neitt að þurfa að draga úr aðgerðum varðandi þau mál, þó að hér sé dregin fram ótvíræð nauðsyn þess að nýta þær auðlindir, sem kunna að vera faldar í þessum fiskistofnum, sumpart í meira mæli en áður, samanber loðnuna og öðrum alveg að nýju til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og afla þann veg hráefnis handa hinum afkastamiklu verksmiðjum. Það á ekki á neinn hátt að draga úr hinu þó að hér sé lögð áherzla á þetta mál og bent á það sem við teljum, að gera þurfi í því sambandi. Það getur vel farið svo, að jafnvel fljótlega komi það upp á daginn, að unnt verði að fylgja loðnunni eftir eða því sem næst og þá hópist skipin á loðnuveiðar í meiri mæli en æskilegt væri, með tilliti til fjölbreytni í sjávarútveginum. Og það getur vel verið, að það fari svo um það er lýkur, að við neyðumst til þess að taka upp ákveðna skipulagningu í sambandi við fiskiveiðar Íslendinga. Það getur vel farið svo. Ég veit að slíkri skipulagningu mundu fylgja ýmsir annmarkar. En það kann að reka að því, að það verði óhjákvæmilegt og þá verður að taka því. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, að það þurfi með einum eða öðrum hætti að vinna að einhverri ákveðinni skipan þeirra mála. En það er utan við efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir og ég er að mæla fyrir.

Ég vil að lokum aðeins árétta það og undirstrika, að flm. þessarar till. telja ekki forsvaranlegt annað, en gefa gaum að þeim möguleikum, sem hér kunna að vera fyrir hendi. Till. er ekki um annað, en að setja af stað athugun í þessu máll og undirbúa till. um skipulagða og samræmda leit, rannsóknir o.s.frv. og ég vona, að hv. alþm. geti orðið okkur sammála um að láta slíka athugun fara fram.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn. Þó má vera, að hún eigi fremur heima í allshn., en forseti tekur það til athugunar.