30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

213. mál, rannsókn sjóslysa

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 456 flyt ég ásamt hv. 5. þm. Reykn. og hv. 4. landsk. þm. svo hljóðandi þáltill.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum um rannsókn sjóslysa á þann veg, að gert verði ráð fyrir, að sérstök rannsóknarnefnd annist sjóslysarannsóknir að öðru leyti en því, að sjó– og verzlunardómur á einstökum stöðum á landinu sjái um rannsókn hinna smávægilegri sjóslysa.

N. þessi dragi saman allar þær upplýsingar, sem unnt er að afla við rannsókn sjóslysa og miðli þeirri vitneskju jafnan til sjómanna, sjómannaskóla, útgerðarmanna og annarra aðila, sem málið varðar.“

Ástæðan til þess, að þessi þáltill. er flutt, er sú, að við flm. teljum, að með þeim hætti, sem nú er á hafður um rannsókn sjóslysa, skorti á, að þau mál séu tekin nægilega föstum tökum, einkum vegna þess að enginn einn aðili hefur með höndum rannsókn allra sjóslysa. Samkvæmt núgildandi lögum er rannsókn sjóslysa í höndum dómenda í hinum ýmsu sjó– og verzlunarþingum í landinu og ákvæði um rannsókn slíkra slysa er að finna í a.m.k. þrem lagabálkum. Í fyrsta lagi segir í lögum um meðferð einkamála í héraði, að hafi skip farizt, beðið tjón eða lent í háska að öðru leyti, skuli rannsókn venjulega fara fram þar, sem skip tekur fyrst höfn eftir slys eða á ákvörðunarstað þess. En hafi skip farizt, skuli rannsókn fara þar fram, sem hagkvæmast þyki.

Í öðru lagi er í siglingalögum ákvæði um skyldu skipstjóra til að tilkynna yfirvaldi og gefa um það skýrslu, ef maður slasast á skipi eða ferst voveiflega af skipi eða skipið veldur tjóni á öðrum skipum eða mannvirkjum.

Þá er í þriðja lagi í lögum um eftirlit með skipum ákvæði um siglingadóm, sem m.a. skal dæma og eftir atvikum rannsaka refsimál, sem höfðuð eru vegna sjóslysa.

Augljóst ætti að vera, að með því að dreifa svo á hendur dómenda í sjó– og verzlunardómum hvarvetna á landinu rannsóknum á þeim sjóslysum, sem henda á hinum ýmsu stöðum, fæst ekki sá árangur af samanburði á ýmsum tilvikum, búnaði skipa og viðbrögðum áhafna, sem búast mætti við, ef einn aðili, sérstök rannsóknarnefnd, rannsakaði öll sjóslys önnur, en þau smávægilegustu. Þegar í þáltill. þessari er getið um, að rannsóknir smávægilegra slysa ættu áfram að vera í höndum sjó– og verzlunardóma á einstökum stöðum, er einkum haft í huga, að vegna krafna um slysadagpeninga eða aðrar slíkar bætur getur þurft að fara fram rannsókn atvika í sambandi við slys, jafnvel þótt um minni háttar meiðsl einstakra skipverja sé að ræða. Slíkar skýrslugerðir má telja eðlilegt, að séu framkvæmdar á hinum ýmsu stöðum, en þó yrði það jafnan að vera réttur hinnar sérstöku rannsóknarnefndar, sem hér er lagt til, að taki almennt við rannsókn sjóslysa, að rannsaka hvert það sjóslys, sem hún teldi ástæðu til og að sjálfsögðu öll meiri háttar slys. Rannsóknir sjó– og verzlunardóma, eins og þær hafa tíðkazt til þessa, virðast fyrst og fremst hafa miðazt við að leiða í ljós, hvort um saknæma óaðgæzlu hafi verið að ræða við slys, en minna hefur verið hirt um þau atriði, sem varðað gætu slysavarnir, enda skortir venjulega allt samhengi við önnur sambærileg slys, sem e.t.v. hafa verið rannsökuð annars staðar af öðrum sjódómi.

Enginn vafi er á því, að með því að færa rannsóknir allra sjóslysa annarra en hinna smávægilegustu til eins aðila, sérstakrar rannsóknarnefndar, sem safnar allri reynslu á einn stað, ættu að aukast mjög líkur á, að árangur rannsóknanna gæti leitt til þess, að draga megi úr hættu á slysum, sem verða af hliðstæðum orsökum og hafa legið til slysa, sem áður hafa verið rannsökuð. Skip, sem smíðuð eru eftir sömu teikningu og skráð eru á ýmsum stöðum á landinu, hafa farizt eitt af öðru án eðlilegra orsaka. Þessi slys eru síðan eftir núgildandi lögum rannsökuð hvert fyrir sig af sjódómi í þeirri þinghá, þar sem skipið var skráð, án þess að samhengi sé á milli og sams konar skip, sem enn kunna að fljóta, eru því ekki tekin úr umferð eða til sérstakrar rannsóknar. Fjöldamörg ný og stór skip úr flota okkar hafa farizt undanfarin ár, án þess að fullnægjandi skýringar hafi verið leiddar í ljós. Skip hafa farizt að afstaðinni endurbyggingu og breytingum í bærilegasta veðri, þótt þau hafi staðizt hin verstu veður, áður en þeim var breytt og margt mætti til tína til staðfestingar því, að nauðsynlegt er að tryggja, að mál þessi verði tekin fastari tökum, en nú er gert, þegar rannsókn sjóslysa er í höndum hinna ýmsu sjódóma.

Eins og rakið er í grg. með þessari þáltill., eru ákvæði um rannsóknir vegna flugslysa strangari að ýmsu leyti og sýnist full ástæða til að setja sambærileg ákvæði í lög um rannsókn sjóslysa. Í lögum um loftferðir segir m.a., að rannsókn skuli hefja ekki aðeins ef um er að ræða flugslys, heldur einnig, ef legið hefur við flugslysi eða ástæða er til að ætla, að loftfari, flugmannvirkjum á jörðu eða rekstri þeirra sé eða hafi verið áfátt til muna. Í lögum um loftferðir segir og að í skýrslu rannsóknarnefndar skuli gerð grein fyrir orsök flugslyssins, auk þess sem þar skulu gerðar till. um þær varúðarráðstafanir, sem gera má til að afstýra áframhaldandi slysum af sömu eða líkum orsökum.

Með flutningi þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, er einmitt ætlunin að stuðla að þeim breytingum á l., sem fjalla um rannsókn sjóslysa, svo að betur megi takast að gera varúðarráðstafanir til þess að afstýra því, að sjóslys verði af sömu eða líkum orsökum og valdið hafa þeim slysum, sem sú n., sem tæki við rannsókn allra sjóslysa, hefði fjallað um. Slík rannsóknarnefnd, sem rannsakaði öll sjóslys, mundi safna á einn stað allri þeirri reynslu, sem unnt væri að afla um sjóslys, orsakir þeirra og möguleika á því að hindra þau. N., sem þannig starfaði og drægi saman alla þá vitneskju, sem unnt er að afla við rannsókn sjóslysa, ætti svo einnig að hafa það hlutverk að miðla þeirri reynslu til þeirra, sem mestu varðar að njóti hennar, til sjómanna, sjómannaskóla, útgerðarmanna, skipasmiða og fleiri aðila.

Hin harða sjósókn Íslendinga kostar jafnan miklar fórnir, bæði mannslíf og eignir. Okkur ber því skylda til að gera hverjar þær ráðstafanir, sem geta dregið úr þeirri áhættu, sem svo harðri sjósókn fylgir.

Við flm. væntum þess, að þær breytingar, sem hér er lagt til, að gerðar verði varðandi rannsókn sjóslysa, geti orðið spor í þá átt að draga úr sjóslysum og vænti ég þess því, að hv. alþm. styðji þessa till. og legg svo til að lokum, herra forseti, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.