12.12.1968
Efri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

105. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Á s.l. vori voru sett ný heildarlög um Bjargráðasjóð Íslands. Var með þeim l. sett á stofn ný deild innan sjóðsins, afurðatjónadeild landbúnaðarins. Hefur deildin það hlutverk að veita sveitarfélögum og einstökum bændum lán eða óafturkræft framlag til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár vegna grasbrests eða óþurrka, svo og vegna afurðatjóns á nautgripum og sauðfé af völdum alvarlegra smitsjúkdóma eða til að bæta stórtjón vegna dauða nautgripa og sauðfjár af völdum sjúkdóma. Deild þessari var tryggður nýr tekjustofn, sem var 0.25% gjald af söluvörum landbúnaðarins, ásamt framlagi ríkissjóðs, sem nemur jöfnu framlagi bænda. Áætlaðar tekjur þessarar deildar voru nálægt 10 millj. kr. á ári. Mikill hluti hinna nýju tekna kemur þó ekki til fyrr en á árinu 1969.

Svo sem alkunnugt er, var bændum á s.l. ári veiti stórfelld aðstoð vegna lélegrar grassprettu, kals á Vestfjörðum og á Norður- og Austurlandi. Námu veitt lán rúmlega 16 millj. kr. og styrkir rúmlega 2 milljónum króna. Með því að sjóðurinn hafði yfir litlu ráðstöfunarfé að ráða og mikill hluti hinna nýju tekna Bjargráðasjóðs kom seint til, var tekjum þeim í raun ráðstafað langt fram í tímann til að standa undir þeim skuldbindingum, sem á sjóðinn féllu í fyrra vegna harðindanna þá. Eins og menn muna, voru heyskaparhorfur mjög slæmar framan af sumri, og þótt úr rættist, var staðreyndin samt sú, að heybrestur varð hjá mörgum bændum á ýmsum svæðum. Harðærisnefnd var í vor falið að athuga hag bænda á harðindasvæðunum og aðstöðu þeirra til áframhaldandi búrekstrar. Nú fyrir nokkru var nefndinni falið að gera tillögur byggðar á tillögum nefndarinnar frá s.l. ári um nauðsynlega aðstoð við bændúr á harðindasvæðunum. Hefur nefndin þegar gert tillögur um óafturkræf framlög úr Bjargráðasjóði vegna hluta af kostnaði við heyflutninga, að fjárhæð 4.7 millj. kr. Nefndin er þessa dagana að ganga frá tillögum um lán vegna vorkulda á sama hátt og í fyrra. Fyrirsjáanlegt er, að Bjargráðasjóð muni skorta fé til að veita þá úrlausn, sem um verður að ræða.

Ef frv. þetta um breyt. á l. um Bjargráðasjóð, sem lagt er fyrir Alþingi nú og hér, verður að lögum, munu tekjur Bjargráðasjóðs aukast um 6 millj. kr. á ári. Tekjur þessar munu skiptast samkv. 9. gr. laganna og renna að mestu í sameignardeild sjóðsins og séreignardeild sýslu- og bæjarfélaganna.

Með ákvæði 2. gr. frv. er lagt til, að tekinn sé af allur vafi um lögmæti þessara lána frá einni deild sjóðsins til annarrar, ef fé einhverrar deildarinnar hrekkur ekki til, svo sem gert var á síðasta ári. Er ætlazt til þess, að sú tekjuaukning, sem fengist, ef frv. verður að lögum, verði lánuð afurðatjónadeild landbúnaðarins, meðan sú deild hefur ekki nægilegt fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þeim skuldbindingum, sem á hana eru lagðar. Er vert að leggja áherzlu á, að með frv. þessu, ef að lögum verður, er ekki sízt verið að efla sameignardeild sjóðsins og séreignardeild sýslu- og bæjarfélaga, þótt fé sé lánað í afurðatjónadeildina í bili.

Harðæri getur komið yfir af öðrum orsökum en ís og kali. Þéttbýlið getur ekki síður en dreifbýlið orðið fyrir ýmissi óáran, svo sem snjóflóðum, jarðskjálftum, eldgosum o.fl. Er ekki úr vegi í því sambandi að minna á alvarlegt veiðarfæratjón báta fyrir Norðurlandi vegna ísa á s.l. vetri og vori.

Rétt er að benda á það að lokum, að með frv. þessu er aðeins verið að hækka framlag ríkissjóðs og sveitarfélaga til samræmis við verð- og kauphækkanir í landinu. Þótt frv. yrði að lögum, væri framlagið á hvern íbúa, samkv. ákvæðum frv., mun lægra en það var upphaflega, sé miðað við vísitölu framfærslukostnaðar eða tímakaup verkamanna.

Ég tel, herra forseti, ekki þörf á frekari útlistun þessa máls, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.