18.03.1969
Sameinað þing: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (3503)

154. mál, rannsókn á kalkþörf jarðvegs

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., miðar að því að finna sem allra bráðast lausn á einu brýnasta fræðilega málefni landbúnaðarins. Vandamál þetta snertir ekki aðeins bændur og þá, sem stunda jarðrækt, heldur og alla landsmenn, og ríkisvaldið ber af sérstökum ástæðum ábyrgð á lausn þess, ef svo má að orði komast og meiri ábyrgð, en á lausn annarra hliðstæðra rannsóknarvandamála.

Með þáltill., ef samþ. verður, er ríkisstj. falið að sjá til þess, að hraðað verði, svo sem tök eru á, rannsóknum á kalkþörf jarðvegs hér á landi, eins og hún birtist við almenna ræktun. Teknar verði upp rannsóknir á nýtingu skeljakalks til að bæta úr kalkþörf, þar sem hún reynist fyrir hendi. Lagt er til, að rannsóknin beinist fyrst og fremst að þeim landssvæðum, þar sem rannsóknir hafa þegar sýnt, að kalkskortur er fyrir hendi, við ákveðin skilyrði og í öðru lagi að þeim landshlutum, þar sem ræktun hefur orðið fyrir mestum áföllum á undanförnum áratugum. Að lokum er í till. áskorun til ríkisstj. þess efnis, að hún hlutist til um það, að meðan málin liggja ekki ljósar fyrir en nú er, verði tryggt, að bændur fái keypt það magn af kalkríkum áburði, sem þeir óska hver og einn.

Eins og ég hef stuttlega rakið, er hér um þrjú höfuðatriði að ræða. Það er í fyrsta lagi kalkþörfin, að hún verði könnuð, í öðru lagi, hvernig auðveldast er að fullnægja henni og í þriðja lagi, að bændur fái valfrelsi í áburðarkaupum. Vík ég nú að hverju þessara atriða fyrir sig.

Það er alkunna, að kalk eða frumefnið kalsíum er eitt af jurtanærandi efnum. Það er nauðsynlegt fyrir vöxt jurtanna og eðlileg þrif. Það er þó sjaldan notað beinlínis sem áburðarefni, því að venjulega er nægilegt af því sem slíku í jarðveginum, en jafnframt er það mjög heppilegt til þess að bæta úr eðlisástandi jarðvegs og ef sýrufar jarðvegs er óheppilegt fyrir jurtirnar. Í því skyni er algengast að nota kalk við ræktun erlendis og er þá venjulega borið mjög mikið magn af kalkríkum efnum í jarðveginn og ætlað til 8–10 ára tímabils. Hér hefur slík kölkun til þessa ekki reynzt nauðsynleg, enda er jarðvegur yfirleitt ekki mjög súr. Við langvarandi ræktun án kalks getur þó komið að því, að kalkforði jarðvegsins gangi til þurrðar eða að sýrustig lækki svo, að gróður taki að vanþrífast. Þetta getur gerzt, ef kalksnauður áburður er notaður. Þá er því meiri hætta á því að, að þessu reki og því fyrr sem meiri áburður er notaður. Þó þarf þetta ekki alltaf að verða, því með veðruninni leysast stöðugt efni úr læðingi úr jarðveginum og geta þau jafnóðum fullnægt þörf plantnanna. Það fer svo mjög eftir aðstæðum, hvort þetta gerist eða ekki. Enn meiri hætta er á vanþrifum í gróðri, ef áburðurinn er ekki aðeins kalklaus, heldur og þannig, að hann verki sýrandi á jarðveginn, en það gera sumar tegundir áburðar, en mismikið þó og einnig fer þetta eftir því, hvernig jarðvegurinn er gerður. Á meðan hér var notaður mest kalkríkur áburður, þ.e. kalksaltpétur frá Noregi, var lítil hætta á, að nokkuð af þessu gerðist, en eftir að Áburðarverksmiðjan h.f. tók til starfa og framleiðsla hennar, Kjarninn, sem er kalksnauður og að sumra dómi nokkuð sýrandi, varð aðal– og oft eina köfnunarefnisáburðartegundin, þá vaknaði eðlilega sú spurning, hvort ekki þyrfti að sjá fyrir kalkþörf jarðvegs á annan hátt, enda voru þá þegar og áður en Áburðarverksmiðjan tók til starfa hafnar samanburðartilraunir með köfnunarefnisáburðartegundir. Þá voru bornar saman 3 köfnunarefnisáburðartegundir: kalksaltpétur, brennisteinssúrt ammoníak eða ammoníumsúlfat, sem ekki er aðeins kalksnauður áburður, heldur er og vitað, að hann er mikið sýrandi, og í þriðja lagi ammoníumnítrat eða sama áburðarefni og Kjarninn er. Líkur bentu til, að hann lægi þarna á milli og gæti e.t.v. valdið nokkurri sýringu á jarðvegi, en þó alltaf mun minni og meira hægfara, en ammoníumsúlfatið. Þessar tilraunir hófust árið 1945 á Sámsstöðum og Akureyri, en 1953 á Reykhólum og Skriðuklaustri. Þær hafa því staðið alllengi, jafnvel á mælikvarða jarðræktartilrauna og gæti það því undrað einhvern, að nú skuli ekki liggja ljóst fyrir, hvernig þessum málum er háttað. En svo er þó vissulega ekki, eins og ég vík að síðar.

Í fáum orðum má segja, að þessar tilraunir á fjórum stöðum á landinu hafi leitt það í ljós , að við þau skilyrði, sem þar eru og það áburðarmagn, sem þar var notað, sýri Kjarninn ekki jarðveginn né heldur fáist meiri heyfengur af þeim reitum, þar sem kalkríki áburðurinn var notaður. Hins vegar er það löngu komið í ljós, að þriðja áburðartegundin, ammoníumsúlfat, sýrir jarðveginn verulega og þar dregur úr uppskeru, sem hann er notaður. Mætti e.t.v. vel við þetta una, ef ekki hefði komið annað í ljós og í öðrum tilraunum á öðrum stöðum á landinu. En síðar hefur það komið í ljós í tilraunum, fyrst og fremst á Hvanneyri í Borgarfirði og víðar í Borgarfirði, í kalktilraunum á Reykhólum og í tveimur tilraunum af þremur, sem gerðar hafa verið með kalk við uppgræðslu á kaltúnum á utanverðu Fljótsdalshéraði, að vaxtarauki fæst fyrir kalk. Þessi vaxtarauki hefur verið mismikill, og hann hefur komið bæði við notkun kalks eða kalkríks áburðar. Hann hefur verið allt frá því að vera rétt merkjanlegur og upp í það að vera á milli 10 og 20 hestburðir af hektara á ári. Í sumum tilraunum á Hvanneyri þrífast grösin alls ekki án kalks. Það eru tilraunir, sem urðu frægar mjög af blaðaskrifum í sumar.

Það þykir nú með þessum tilraunum sannað, að sums staðar, t.d. við svipaðar aðstæður og í lágsveitum Borgarfjarðar, sé hagkvæmt og rétt að nota kalk eða kalkríkan áburð við ræktunina. Þó ber fræðimönnum ekki fullkomlega saman um það, hvaða aðferð sé heppilegust þarna til úrbóta, að bera á kalk eða kalkríkan áburð og í öðru lagi þykir ekki fullsannað, hve mikið magn sé heppilegt að nota. Sérstaklega vantar hér tilraunir, tilraunaniðurstöður og rannsóknir frá miklu fleiri stöðum heldur en nú liggja fyrir, og yfirleitt fá bætt úr þessu með miklu fleiri dreifðum tilraunum.

Þá hefur einnig verið varað við því að of kalka jarðveg, þar sem það getur valdið skorti á öðrum næringarefnum, einkum svonefndum snefilefnum. Í grg. með þáltill. er vitnað til álits þriggja sérfræðinga, dr. Björns Jóhannessonar, dr. Bjarna Helgasonar og Friðriks Pálmasonar „licenciat“. En það er samdóma álit þeirra að, að því sé nú komið að nota þurfi kalk eða kalkríkan áburð við vissar aðstæður hér á landi, svo sem við nýrækt á mýrum með háu sýrustigi. En ekki treysta þeir sér til að gefa nákvæma leiðbeiningu um það, hvar sé rétt að nota kalkið og hvar ekki. Það er því niðurstaða þessa alls, að enn skortir mikið á, að nægar rannsóknir hafi verið gerðar á þessu og það vil ég undirstrika, að meðan svo er, eru líkur til þess, að af þessu hljótist árlega verulegt tjón. Vanþekking er alltaf dýr. Þetta tjón getur orðið ýmist vegna þess, að uppskeran rýrnar af kalkskorti og það getur einnig orðið á hinn bóginn, að menn eyði of miklum fjármunum til að nota kalk.

Þá kemur það einnig fram hjá flestum fræðimönnum, sem um þessi mál rita, að kalþol grasa verði sennilega ætíð minna, þar sem einhvers kalkskorts gæti, jafnvel geti þetta komið fram áður, en fram kemur rýrnun á uppskeru. Þannig gæti kölkun eða notkun kalkríks áburðar stuðlað að auknu kalþoli víðar, en margan grunar. Þó er hér alls ekki verið að segja, að það séu líkur til þess, að kalið, hinn mikli bölvaldur túnræktarinnar, stafi að megni til af kalkskorti. Þvert á móti. Þetta getur þó verið ein af meðorsökunum. En þetta mun þó vera útbreidd skoðun meðal bænda. Er þá illt, að meðan svo er, skuli þeim vera sendur þannig áburður og nær einungis þannig áburður, að hann geti ekki bætt úr þessu, ef þeir óska þess að verja til þess nokkrum fjármunum að kaupa kalkríkan áburð.

Þá er það samhljóða niðurstaða allra tilrauna með kalk og kalkríkan áburð, að kalkið eykur kalsíum magn grassins verulega og það er mjög til að auka á hollustu fóðursins. Gras er hér yfirleitt of kalsíum snautt, en það má að vísu um það deila, hvort jafngott sé að bæta því í fóður búfjárins, en margir eru á þeirri skoðun, að það sé heppilegra, að fóðrið sé með eðlilegu steinefnajafnvægi. Við vitum, að náttúrulækningar gætu dregið þessa ályktun enn lengra og sagt, að með of litlu kalki yrðu afurðir búfjárins og þar með fæða fólksins óhollari vegna kalkskorts. En á það skal ekki lagður dómur hér. Rannsóknir þessar, sem hér er lagt til, að verði auknar, þurfa að fara fram að miklu leyti sem dreifðar tilraunir eftir ákveðnu skipulagi um landssvæðin og samfara þeim verði notaðar jarðvegsefnagreiningar og sýrustigsmælingar. Þessar tilraunir þurfa auðvitað nokkuð aukið fjármagn, en þó sérstaklega ákveðið skipulag. Fjármagnið er þó ekki meira en það, sem vænta má, að fengist á fjárl., ef hv. Alþingi samþykkir þessa till. nú.

Þá kem ég að öðru atriðinu, en það er, hvernig hentugast sé að fullnægja kalkþörf, þar sem hún finnst og virðist vera fyrir hendi. Þar er aðallega um tvær leiðir að velja. Í fyrsta lagi að nota kalkríkan áburð og í öðru lagi að nota kalk, sem finnst hér á fjörum eða í sjó. Eins og kunnugt er, selur Sementsverksmiðja ríkisins skeljakalk, sem er dælt upp af botni Faxaflóa. Það er stærðarflokkað með fleytingu og síðan sekkjað í bréfpoka. Kalk þetta var selt á 720 kr. smálestin á höfnum á s.l. ári. Tæplega er þó hægt að hugsa sér, að hér sé fundin ódýrasta leiðin til að vinna kalk til áburðar hér á landi. Það kemur líka í ljós , að heldur lítið hefur verið notað af þessu kalki. Á s.1. ári voru seldar af því um 570 smálestir, en auk þessa mun fyrirtæki eitt, Björgun h. f., hafa selt um 1.200 smálestir af skeljakalki hér í Reykjavík, en mikið af því mun hafa farið til annars en jarðræktar. Með þessu verði á skeljakalki er kölkun all dýr, því að það þarf að nota allmikið af efninu, 3–4 tonn á hvern hektara og það þarf að endurtaka við ræktunina á 8—10 ára fresti. Auk kalkverðsins kemur flutningur og dreifingarkostnaður, sem leggst ofan á þetta. En kalkríkur áburður er einnig allmiklu dýrari en Kjarninn og það er jafnvel heldur dýrari leið að nota hann, heldur en kalk og Kjarna saman. En hún er aftur vafninga minni og auðveldari og að sumra áliti áhættu minni. En eins og ég nefndi áðan, eru engar líkur til annars, en með rannsóknum á því, hvar skeljasandur finnst á fjörum og í sjó og því, hvernig auðveldast er að ná honum og vinna hann og hve mikið þarf að vinna hann, megi leysa þetta vandamál á miklu auðveldari og ódýrari hátt, en nú er gert. Ekki er ósennilegt, að það hentaði bezt að dæla skeljasandinum upp á þær hafnir, þar sem hans er þörf og mala hann þar eða sigta, eftir því sem þörf krefur. Fela þarf sérstökum aðila þennan hluta rannsóknanna, en þó í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Útkoma þessara rannsókna getur alveg snúið við dæminu um það, hvað hagkvæmast er til að fullnægja kalkþörfinni og hvenær hagkvæmt er að kalka. Vitað er t. d., að fyrirtæki eitt sendi Búnaðarfélagi Íslands í sumar tilboð um að dæla skeljasandi á land fyrir um 500 kr. smál., en engra fleiri tilboða var leitað, svo að ekkert er þarna til samanburðar.

Kem ég þá að hinu þriðja atriði málsins. Um það þarf ekki að fara mjög mörgum orðum. Enginn má draga í efa, að ég líti á Áburðarverksmiðjuna h.f. sem þjóðþrifafyrirtæki, sem sparað hefur þjóðinni mikinn gjaldeyri og veitt atvinnu í landinu. En þess má heldur ekki dyljast, að frá sjónarmiði margra bænda er hún vandræðabarn. Svo gölluð er framleiðsla hennar, hvað gerð snertir. Það er kornastærð áburðarins, sem aldrei hefur tekizt að laga þrátt fyrir loforð og mjög mikla viðleitni. Og þetta eitt nægir til að rýra framleiðslu hennar, Kjarnann, mjög mikið í gildi. Það er t.d. að taka, að það eru ekki til þær gerðir af áburðardreifurum, sem geta dreift Kjarna í magni með sömu stillingu. Ef veðurfar eða rakastig breytist lítillega, þá fer stillingin úr lagi og þar með hinn hagfræðilegi, rétti grundvöllur fyrir áburðardreifingunni. Og yfir þessu kvarta bændur og það með fullum rétti. En á þessu verður vonandi ráðin bót við endurbyggingu og stækkun verksmiðjunnar og er hún reyndar óhugsandi annars.

Eins og ég hef rakið áður, sprettur víðast vel af Kjarna og margir bændur telja hann frá því sjónarmiði góðan áburð. En svo er annar hópur bænda og hann er allstór, sem telur sig verða fyrir skaða af því að nota Kjarnann, vegna þess að hann er kalksnauður, og vill eindregið fá keyptan kalkríkan áburð. Þeir telja það ekki nægjanlegt eða aðgengilegt að nota skeljakalk, þó að það sé boðið til sölu eða því hafi verið lofað, að það ætti að vera til sölu á hverri höfn á fyrrgreindu verði.

Nú hef ég rakið hér að framan, hve þessi mál öll eru óljós frá fræðilegu sjónarmiði, að hvorki sérfræðingar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins né heldur ráðunautar telja sig færa um að gefa leiðbeiningar í hverju og einu tilfelli. Og er þá nokkur annar aðili, sem getur sagt við bændurna: Þú skalt eða skalt ekki kaupa þennan eða hinn áburðinn? Ég tel ekki. Það eru bændurnir sjálfir, sem bera ábyrgð á hinni fjárhagslegu útkomu, og þar með verða þeir að ráða, hvað þeir nota til framleiðslu sinnar, hvað þeir kaupa.

Eins og kunnugt er, er áburðarsalan öll í höndum Áburðarverksmiðjunnar h.f., þ.e.a.s. Áburðarverksmiðjunni h.f. hefur verið falið að reka Áburðarsölu ríkisins. Og hún hefur flutt inn það, sem á vantar, að Kjarni fullnægi köfnunarefnisþörf landsmanna. Að undanförnu hefur þetta verið sem hér segir, þ.e. innflutningurinn: 1967 29% af köfnunarefnisáburðar notkuninni, 1968 36.6% og 1969 áætlað 26%. Nú hefur þetta verið selt þannig, að hver einstakur bóndi að segja má hefur fengið sinn skammt af áburði veginn og mældan í sömu hlutföllum á milli Kjarna og innflutts áburðar eins og heildarsalan segir til um, heildarsalan í landinu. Það hefur enginn bóndi getað fengið eða bændur hafa yfirleitt ekki fengið meiri hluta af áburðarpöntun sinni sem kalksaltpétur eða aðrar áburðartegundir, heldur alltaf í sömu hlutföllum. Ég tel, að á það hafi þó aldrei reynt, hvort þessi skömmtun er nauðsynleg. Það hefur aldrei verið látið reyna á það, hvort Kjarninn seldist ekki, þó að bændur fengju að velja og fengju að kaupa kalksaltpétur að vild. Og ég hef rakið það hér að framan, að það eru margir bændur, sem telja Kjarnann góðan áburð til sprettu og hann hefur verið seldur ódýrari sem hver köfnunarefniseining. Á s.1. vori var hvert kg af hreinu köfnunarefni í Kjarna selt á 14.81 kr., verksmiðjuverð, en í kalksaltpétri á 19.61 kr., svo að það ætti að vera augljós hagur í því að nota Kjarna, þar sem kalks er ekki þörf. Ef svo margir bændur vilja ekki Kjarna, að hann selst ekki, þá sannar það ekkert annað en það, að bændur hafa verri bifur á þessari framleiðslu heldur en ég vildi álíta. En það ber náttúrlega einkasölunni ekki gott vitni og mælir henni ekki bót. Það virðist því vera augljóst réttlætismál, að á meðan ekki liggja fyrir ljósar niðurstöður þeirra rannsókna, sem ég hef bent á hér að framan, að er þörf á og nauðsynlegt er að hraða eftir föngum, — meðan svo er ekki, fái bændur sjálfir að ráða því, hvernig áburð þeir kaupa og bera á tún sín.

Ég vil svo að lokum, með leyfi hæstv. forseta, mega vitna hér til ályktunar frá Búnaðarþingi. Þær hafa margar verið gerðar og vitna ég til þeirrar síðustu, sem gerð var nú á nýafstöðnu Búnaðarþingi og sem vona mætti, að yrði sú síðasta, sem það góða þing þarf að gera í málinu, því að það er vonandi, að það leysist. En ályktun þessi er svo, með leyfi forseta:

„l. Búnaðarþing fagnar yfirlýsingu landbrh. við setningu þingsins um, að hafizt verði handa á komandi vori um stækkun Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Í því sambandi leggur þingið sérstaka áherzlu á fjölþættari áburðarframleiðslu, svo sem alhliða blandaðan áburð og kalkblandaðan köfnunarefnisáburð, enda er gengið út frá því sem sjálfsögðu, að verksmiðjan verði samkeppnisfær við innfluttan áburð um verð og gæði. Jafnframt minnir þingið á fyrri kröfur sínar um, að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda fái að tilnefna sinn manninn hvort í stjórn Áburðarverksmiðjunnar.

2. Búnaðarþing átelur, hve hægt miðar rannsóknum á kalkþörf, þar sem m.a. er upplýst, að uppgjör á þeim tilraunum og rannsóknum, sem þegar hafa verið framkvæmdar, er að verulegu leyti óunnið. Þingið gerir því kröfu til, að nú þegar verði hafizt handa um úrvinnslu þeirra gagna, sem fyrir liggja. Í framhaldi af því verði gerð víðtæk og skipuleg áætlun um frekari rannsóknir, þar sem sérstök áherzla verði lögð á rannsóknir á kali og kalkþörf jarðvegs og samhengi þar á milli þeirra þátta. Búnaðarþing beinir því til stjórnar Búnaðarfélags Íslands, að láta gera skýrslu um þær rannsóknir og tilraunir, sem gerðar hafa verið með áburðarkalk og kalkblandaðan áburð, til að kanna, hvort einhver grundvöllur er fyrir hendi um hagnýta leiðbeiningaþjónustu.“

Ég vil einnig, með leyfi hæstv. forseta, vitna í aðra samþykkt frá Búnaðarþingi, þ.e. Búnaðarþingi 1967. Þar segir:

„l. Búnaðarþing leggur áherzlu á, að fyrirhuguðum breytingum og stækkun Áburðarverksmiðjunnar h.f. í Gufunesi verði hraðað svo sem kostur er. Við þær framkvæmdir verði ákveðið að korna áburðinn og að framleiða kalkblandaðan áburð, t.d. kalkammonsaltpétur ásamt blönduðum alhliða áburði.

2. Búnaðarþing krefst þess, að bændur fái aukið valfrelsi um áburðarkaup, enda safni Áburðarverksmiðjan áburðarpöntunum það tímanlega, að þær liggi fyrir hjá verksmiðjustjórn, áður en ganga þarf frá framleiðsluáætlun og innkaupum.“

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um till. verði vísað til síðari umr. og hv. landbn.