10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3511)

162. mál, lánskjör atvinnuveganna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ekki er nema gott um það að segja, að rannsökuð sé aðstaða atvinnurekstrar hér á landi og erlendis, en þá er líka nauðsynlegt, að allt sé tekið með í þeirri rannsókn, svo að málið liggi nógu ljóst fyrir, m.a. það, hversu þýðingarmikill þáttur hver atvinnurekstur er í þjóðarbúi hvers lands um sig.

Það er vitað mál, að sjávarútvegurinn hér á landi er hlutfallslega miklu þýðingarmeiri í okkar þjóðarbúi, en hann er í búum annarra þjóða, sem við þekkjum og getum borið okkur saman við. Þess vegna hafa þær margar a.m.k. haft aðstöðu til þess að styrkja sjávarútveginn með ýmsum þeim hætti, sem við getum ekki. Þannig er a.m.k. í okkar nánasta frændlandi, Noregi. Þar er sjávarútvegurinn að vísu allþýðingarmikil atvinnugrein, en ekki nema smáræði víð það, sem hér er og norskur sjávarútvegur nýtur margháttaðrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkis og almannavalds, sem við getum ekki veitt, vegna þess hvílík meginstoð sjávarútvegur er hér, gagnstætt því, sem hann er í Noregi, þar sem hægt er að efla hann af öðrum miklu öflugri atvinnugreinum.

Það er einnig athyglisvert, að mjög sýnist örðugt að fá um það glöggar upplýsingar, hvert raunverulegt fiskverð er í landi eins og Noregi. Það sést m.a. á nýlegri skýrslugerð, sem átt hefur sér stað í sambandi við aukið efnahagssamstarf Norðurlandaþjóða, að þar eru að vísu birtar ýmsar tölur, en sagt, að þær séu að nokkru leyti ágizkun og fiskverðið sé ákaflega mismunandi í ýmsum héruðum landsins og að lokum er gefizt upp við að láta uppi algjörlega öruggar heildarupplýsingar. Þannig getur staðið mjög misjafnlega á og verið erfitt að fá þau gögn, sem okkur eru þó með öllu ómissandi.

Um það er ég algjörlega efnislega sammála hv. 4. þm. Reykv., en það kom fram hjá honum misskilningur, þegar hann sagði, að rekstrarkostnaður hér hefði aukizt vegna gengisbreytinga að undanförnu. Það má segja, að sumir þættir rekstrarkostnaðar hafi aukizt af þessum sökum, en að öðru leyti voru gengisbreytingar óhjákvæmilegar vegna þess, hversu mikill rekstrarkostnaðurinn var orðinn áður og vegna gengisbreytinganna er sjávarútvegurinn og reyndar iðnaður og landbúnaður mun samkeppnisfærari erlendis, heldur en þeir áður voru. Það var vegna þess mikla rekstrarkostnaðar, sem hér hafði orðið áður en gengisbreytingarnar áttu sér stað, sem þær urðu að verða. Auðvitað voru fleiri ástæður, sem þar komu til greina, svo að þessi úrræði urðu ekki umflúin.

Það er einnig mjög athyglisvert, sem hv. 4. þm. Austf. sagði áðan, að fiskverð hér virtist yfirleitt lægra, en víðast annars staðar. Nú er, eins og ég sagði, víðast mjög erfitt að bera saman til hlítar, a.m.k. við land eins og Noreg, en það er ákaflega fróðlegt að athuga og væri þess virði, að um það væru samdar alveg tæmandi skýrslur, af hverju fiskverðið verður lægra hér, heldur en það er erlendis. Í raun og veru á að vera óþarft fyrir okkur að vera að deila um orsakir þessa, þetta á að geta legið fyrir. Þetta þarf að upplýsa. Margir ætla, að það sé vegna þess, að milliliðakostnaður sé hér meiri. Ég hygg, að því fari fjarri. Ég held þvert á móti, að milliliðakostnaður sé minni hér, en hjá okkar nágrannalöndum og sölufyrirkomulag á erlendum mörkuðum yfirleitt betra. En í hverju liggur þá þessi aukni kostnaður? Hv. 4. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf. halda því að sjálfsögðu fram, eins og við þekkjum, að það sé vegna þess, að fjármagnskostnaður sé hér meiri, olíukostnaður sé meiri og annað slíkt. Það má vera að þetta verki að nokkru leyti, en þetta er ekki nema sáralítil skýring á því, sem hér er um að ræða. Hér verður einnig að athuga hæð vinnulauna, það verður að athuga þann kostnað, sem kemur af því, að haldið er uppi jafnaðarverði á fiski um allt land, þó að aðstaða sé ákaflega ólík. Norðmenn hafa það svo, eins og ég sagði áðan, að þar er fiskverðið mjög misjafnt eftir landshlutum. Hér hefur verið reynt að hafa það jafnt og hjá þeim, sem lakari aðstöðuna hafa, jafnhátt og hjá þeim, sem betri aðstöðu hafa.

Öll þessi atriði þurfa að koma til. Þá verður einnig að athuga getu okkar til þess að láta fé til fjárfestingar og til rekstrar. Við eigum að keppa við þjóðir, sem byggt hafa upp sína atvinnuvegi á mörgum öldum. Hér hefur nútímaatvinnurekstur verið byggður upp á fáum áratugum. Það hafa að vísu verið unnin mikil stórvirki, en við vitum, að við erum fjármagnsvana miðað við önnur stærri lönd í okkar nágrenni. Þetta kemur ekkert við venjulegum pólitískum deilum. Þetta eru staðreyndir, sem við komumst ekki hjá að hafa í huga.

Þá kem ég einnig að því, sem ég sagði áðan, að aðrar þjóðir hafa getu til þess að létta undir með slíkum aukaatvinnuvegum, eins og fiskveiðar eru hjá þeim, þar sem við verðum einmitt að leggja höfuðbyrðar þjóðfélagsins á fiskveiðarnar, af því að þær eru þrátt fyrir allt okkar öflugasti og undirstöðuatvinnuvegur.

Ég ætla ekki að fara að efna hér til almennrar þrætu um efnahagsstefnu okkar. Okkur gefst nóg færi til þess. Ég fagna því, að menn vilja fá hlutlausar og réttar upplýsingar, en þá þarf líka að koma sér saman um að spyrja á réttan hátt, því að ef spurt er villandi, leiðir af því að sjálfsögðu, að svarið verður einnig villandi.