02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3527)

69. mál, alþjóðlegt ráðstefnuhús í Reykjavík

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef tekið að mér að halda hér örstutta framsöguræðu fyrir þáltill., sem lögð hefur verið fram á þskj. 88 um alþjóðlegt ráðstefnuhús í Reykjavík. Flm. þessarar till. er Tómas Karlsson, sem átti hér sæti um skeið sem varamaður. Till. er á þá lund, að Ed. Alþ. skori á hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að kannaðir verði möguleikar á, að reist verði í Reykjavík alþjóðlegt ráðstefnuhús af fullkomnustu gerð. Ríkisstj. skal í þessu sambandi leita samráðs og samvinnu við þá innlendu aðila, sem að ferða– og gistimálum starfa og kanna, hvort alþjóðastofnanir og alþjóðleg fyrirtæki mundu vilja hafa afnot af slíku ráðstefnuhúsi í Reykjavík og hugsanlega eignast hlutdeild í því með fjárframlögum, er veittu viðkomandi forgangsrétt til afnota hússins. Þykir vænlegt að reisa slíkt hús í því augnamiði að auka tekjur íslenzkra aðila af ferðamannaþjónustu. Skal ríkisstj. hafa forustu um að mynda samtök aðila, sem áhuga hefðu á að eiga húsið ásamt íslenzka ríkinu og reka það. Enn fremur skal kanna, hvort fáanleg væru lán með góðum kjörum til að koma húsinu upp á skömmum tíma.

Þessari þáltill. fylgir allýtarleg grg. flm. og vísa ég að mestu til hennar. En aðalrökstuðningur flm. fyrir þessari till. er sá, að ferðamannaþjónusta og sú fjölbreytilega þjónustustarfsemi, sem henni fylgir, sé ein af þeim nýju atvinnugreinum, sem Íslendingum beri að leggja áherzlu á til þess að treysta undirstöðurnar undir efnahag sínum, eins og margoft hefur verið á bent, hversu nauðsynlegt er.

Flm. segir, að enginn vafi sé á því, að skilningur á nauðsyn þess að gera Ísland að ferðamannalandi hafi farið vaxandi með ári hverju og löggjafinn hafi sýnt það m.a. í verki, þó að þau framfaraspor hafi verið æðistutt. Eins og hér segir, hafa þau þó verið spor í rétt átt. Hann minnir enn fremur á það, að fyrir Alþ. liggi till. til þál. um þriggja ára áætlun um eflingu ferðamannaþjónustu hér á landi og það sýni, að meðal hluta alþm. a.m.k. hafi sú skoðun fest rætur, að betur þurfi að þessum málum að standa, ef duga skal. Og ef þessi þáltill. hlyti náð fyrir augum hv. d., mundi hún vitanlega koma til athugunar í sambandi við og framhaldi af þeirri athugun, sem annars staðar hefur verið lögð til. Síðan segir flm. orðrétt:

„Hin ævintýralega þróun flugtækninnar hin síðari ár hefur gert það að verkum, að með hverju árinu, sem líður, verður auðveldara og ódýrara að komast landa og heimsálfa á milli. Ferðalög landa milli eru orðinn ákveðinn og sívaxandi þáttur sjálfsagðra lífskjara í hinum betur megandi ríkjum. Fullyrt er af þeim, sem gerst eiga að vita í þessum efnum, að farþegafjöldi í áætlunarflugi muni þrefaldast á næstu 7 árum og fjórfaldast á næstu 10 árum. Þótt okkur tækist ekki að beina hingað til lands nema litlu broti af þessari miklu og skjótu aukningu ferðamannastraumsins, mundi þar samt vera um geysilegar fúlgur að ræða, sem rynnu í okkar þjóðarbú.“

Það er talið, að ferðamannaþjónusta sé sú atvinnugrein, sem langmestum arði skili í hlutfalli við fjárfestingu og ég vil aðeins bæta því við, sem raunar augljóst er, að flestar nýjar atvinnugreinar, sem byggja á útflutningi, eru þannig af eðlilegum ástæðum, að úr útflutningsverðinu er reytt eitt og annað í kostnað og annað slíkt, sem þar kemur til greina. Aftur á móti hefur þessi atvinnuvegur, ferðamannaþjónustan, þann mikla kost, að það, sem inn kemur, bætir heldur við sig.

Í grg. er svo vikið að því, að eitt af því, sem til greina komi til þess að örva hingað ferðamannastraum, sé bygging ráðstefnuhúss, eins og till. fjallar um og það er rakið all ýtarlega, sem ég skal nú ekki þreyta hv. þdm. á að fara nánar út í, þar sem það liggur fyrir á prentuðu þskj., að slík ráðstefnuhús hafi hvarvetna, þar sem þau eru til, haft mikla þýðingu í því efni að laða ferðamenn til landsins. Það er bent á það hér, að vegna ýmissa atvika séu stórborgirnar að verða sífellt óheppilegri vettvangur fyrir slíkar ráðstefnur. Það er erfiðara að standa að ráðstefnum í stórum borgum. Það kemur margt til. Sumt af því er talið upp hér, annað ekki, þannig að hugur manna, sem fyrir slíkum ráðstefnum standa, beinist alveg áreiðanlega í vaxandi mæli að því að halda slíkar ráðstefnur á kyrrlátari stöðum, þar sem betra næði er fyrir þingfulltrúa eða ráðstefnufulltrúa að starfa. Og þetta hús mundi náttúrlega koma að notum bæði fyrir innlenda og erlenda aðila. Innlendir aðilar hafa verið á hrakhólum með húsnæði og ég tel enga fásinnu, að samstaða gæti orðið á milli þeirra aðila, sem halda þurfa fjölmenn þing, um einhverja þátttöku í byggingu slíks húss, allavega einhverja tryggingu fyrir viðskiptum við slíkt hús. Ég vil geta þess hér, að ég átti núna í morgun samtal við formann ferðamálaráðs um þessa till. Formaður ferðamálaráðs er Lúðvík Hjálmtýsson. Hann taldi og leyfði að hafa það eftir sér, að hér væri hreyft merkilegu máli. Og m.a. vitnaði hann í, til framdráttar þessari till., þá reynslu, sem fengizt hefur af slíkri byggingu í Álaborg í Danmörku. En þar var fyrir nokkrum árum reist slíkt alþjóðlegt ráðstefnuhús gegn nokkurri gagnrýni talsverðs hluta borgarbúa, sem taldi, að a.m.k. hefði fyrr átt að ljúka byggingu ráðhússins þar, en ráðast í slíka byggingu. En nú er viðhorfið til þessarar byggingar þar alveg breytt, vegna þess að bæjarbúar hafa komizt aðraun um það, hversu mikil hlunnindi og miklar tekjur hreinlega fylgja þessari byggingu í borgarsjóð, er varðar alla borgarbúa og allir eru ánægðir með þessa ráðstöfun. Þá upplýsti hann, að talsverð eftirspurn væri frá erlendum aðilum um aðstöðu til ráðstefnuhalds hér á landi, en þessum aðilum hefði orðið að tjá, að slík aðstaða væri hér ekki fyrir hendi. Í mínum augum er spurningin, sem þessi þáltill. vekur, kannske fyrst og fremst sú, hvort Íslendingar vilja, að Ísland verði ferðamannaland eða ekki. Ég get vel sett mig í spor þeirra, sem oft hugsa til þess með nokkurri eftirsjá, að Ísland fyllist af erlendum ferðamönnum og meiri hluti þjóðarinnar kannske eða mikill hluti þjóðarinnar verði þjónar erlendra ferðamanna. Það er atriði, sem mér finnst, að menn verði að gera sér mjög vel grein fyrir, að ferðamannastraumnum fylgja náttúrlega ekki bara dollararnir og pundin. Þar fylgja líka ferðamennirnir sjálfir með öllu því umstangi, sem þeim fylgir og þeirri þjónustu, sem þeir krefjast og kannske eru Íslendingar tilbúnir til þess að gerast ferðamannaþjónar, ég veit það ekki. En ég vil segja það í tilefni af þessari þáltill., að ef niðurstaðan yrði sú hjá meiri hl. okkar hér, að Íslendingar ættu að taka ferðamannaþjónustu upp sem stóran atvinnuveg, þá hygg ég alveg ótvírætt, að stórt spor í þá átt væri einhvers konar bygging slíks húss, sem þessi þáltill. fjallar um.

Ég orðlengi þetta ekki frekar. Eins og ég segi, er þessi till. frá öðrum komin, — mér dettur ekki í hug að halda því fram, að ég viti neitt sérstaklega mikið um þetta mál eða meira heldur en aðrir þdm., — en ég tók að mér að hafa þessa framsögu. Það hef ég gert með örfáum orðum og vil, herra forseti, leggja til, að þessari umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.