23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það voru ekki mörg orð, sem ég ætlaði að segja að þessu sinni, en ég ætlaði bara að spyrja hv. 3. landsk., hvort það hafi verið rétt tekið eftir hjá mér, að kostnaður við grunn og lóðir hafi verið 400 þús. kr. (Gripið fram í: Það eru 400 þús. kr. að meðaltali eða svo.) Ég fór nú, eins og ég sagði áðan, til þess að skoða þessi hús og þar með lóðirnar og hvað gert hefur verið fyrir lóðirnar, sem eru nokkuð stórar. Það hafa verið settar á þær þökur og verið sáð í og svo hefur verið malbikað undir bílastæði. Þá er grunnurinn eftir til að setja upp kostnaðinn svona gífurlega. Og mér sýnist þá, að ástæða sé til að spyrja, hvort ekki hafi verið notað í þessa grunna eitthvert dýrara efni, en sement og grjót.