23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3542)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Vegna þeirra fsp., sem fram hafa komið og þegar hefur ekki verið svarað, vil ég einkum nefna tvennt.

Þá í fyrsta lagi það, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, að slælega hafi verið á haldið af hálfu ríkisstj. um fjárútveganir. Þau loforð, sem ríkisstj. gaf í umræddum samningum, voru fyrst og fremst þau að tryggja fjármagn til lánveitinga fyrir 750 fullum lánum á ári. Við þetta hefur verið staðið, þannig að 800–900 lán og einu sinni yfir það, — eitt árið yfir 900 — hafa verið veitt árlega, þrátt fyrir það sem lagt hefur verið í framkvæmdaáætlunina.

Í öðru lagi spyr hv. þm., hvað verði um framhaldið á framkvæmdinni. Einmitt nú þessar vikurnar er verið í sambandi við heildarvanda þjóðfélagsins í efnahagsmálum að leggja niður fyrir sér, hve hratt þessar framkvæmdir geta gengið áfram, bæði hvað fjármagn snertir og þá eins, hvað lóðaútveganir og undirbúningur lóða og teikninga geti gengið hratt fyrir sig. Ég get á þessari stundu ekki fullyrt neitt í þessu efni, en vona, að innan langs tíma verði hægt að láta í té fullnægjandi upplýsingar.