23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að, að hluta til hefur fjármögnun þessara framkvæmda gengið út yfir hin almennu lán. Það liggur ósköp ljóst fyrir. Á meðan aðrir viðbótartekjustofnar eru ekki komnir í gagnið, verður svo að vera. En það er þó jafnframt ljóst, að sú reynsla, sem fengin er af þessum framkvæmdum, verður allri landsbyggðinni til góða, þannig að hún á eftir að uppskera þann mismun á þeim biðtíma, sem hún hefur orðið fyrir af þessum sökum. Það er einnig alveg rétt, að óvissan í lánveitingunum er það erfiðasta fyrir húsbyggjendur. Þetta er skoðun, sem ég hélt fram á þeim árum, sem ég vann við Húsnæðismálastofnunina, og er alveg sannfærður um, að er rétt. Úr þessu hefur allverulega verið bætt. Nú er farið að úthluta 1—l1/2 ár fram í tímann til þess að láta þá, sem örugglega geta fengið lán og öruggt má telja, að hægt sé að standa við, vita það með slíkum fyrirvara. Áður var nokkuð létt að fá a.m.k. í stærstu bönkum landsins nokkra fyrirgreiðslu, meðan menn biðu eftir lánum. Bankarnir hafa hins vegar í sínum erfiðleikum kippt að sér hendinni í þessu efni og það eykur á þessa erfiðleika. Það mun vera talið til fádæma nú, ef hægt er að fá lán út á væntanleg lán húsnæðismálastjórnar, jafnvel þó að vitað sé um þau með svo löngum fyrirvara sem nú er. Áður fyrr fengu lánbiðjendur aðeins viðurkenningu um, að lánsumsókn þeirra væri lánshæf, en höfðu aldrei neina vissu um það, hvenær að þeim kæmi, þannig að það má telja, að verulega hafi verið úr þessu bætt.

Þá lagði þm. áherzlu á það í lokin, hvað það væri þýðingarlaust og tilgangslaust að vera að tala um fortíðina í þessum efnum. Ég veit ekki á hverju menn eiga að byggja mat sitt og álit á mönnum og flokkum, ef það er ekki á reynslunni af þeim, þeirri aðstöðu, sem þeir hafa haft til áhrifa um þessi mál. Og ég bendi á, að þessi langi biðtími var á þeim tíma, þegar algengustu lánin voru kringum 70 þús. kr. á hverja eign, og þó komst biðröðin upp í það, að verða á sjötta ár eftir afgreiðslu lána.