23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur komið fram æði margt í sambandi við þessa fsp., sem byrjað var á. Ef ætti að ræða þessi mál til hlítar, er sjálfsagt ekki staður eða stund til þess núna, en í sambandi við það, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á, bæði fyrr og einnig í síðustu ræðu sinni, þá vildi ég aðeins segja það, leiðrétta það, sem ég held, að flestir ræðumenn hafi tekið fram, að hér sé um júní samkomulagið svo kallað að ræða.

Júní samkomulagið var gert árið 1964 og fól í sér ýmis önnur atriði, en ekki þessi. Sá samningur, sem liggur að baki framkvæmdunum í Breiðholti var gerður árið 1965 í sambandi við lausn vinnudeilnanna þá og á ekkert skylt við júní samkomulagið. Ég vil aðeins vegna ítrekaðra tilmæla frá síðasta ræðumanni til þeirra, sem stóðu að þessu samkomulagi, að þeir geri grein fyrir því misræmi sem fram kemur óneitanlega, ég skal játa það. Og fyrir mitt leyti skal ég gera það.

Verkalýðsfélögin í Reykjavík fyrst og fremst hafa æði lengi reynt að herða á um aukið fjármagn til húsnæðisbygginga. Sú barátta var einnig, á stundum a.m.k., háð af öðrum verkalýðsfélögum jafnhliða, en hér kreppti mest að. Við fengum fram hækkun á þeim framlögum til húsnæðismála, sem þá voru ákveðin hverju sinni og þeirra nutu allir jafnt. Það gerðist t.d. með júní samkomulaginu 1964. En hér voru þessi mál sérstakt vandamál, vegna þess hve margir eru hér, sem áttu þess ekki kost að leggja í byggingarframkvæmdir með þeim lánskjörum, sem fyrir hendi voru.

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur um nokkurt árabil lánað til Byggingarsjóðsins og til húsnæðismálanna. Nú er það svo, að langstærstur hluti þess fjármagns, sem kemur í Atvinnuleysistryggingasjóð, er vegna vinnu þeirra, sem ekki gátu notið þessara lána og við lögðum því áherzlu á, að það yrðu teknar upp aðferðir og veitt þau lánakjör, að þetta fólk gæti byggt. Þannig er til komið það samkomulag, sem gert var 1965. Það var þá öllum ljóst og yfirlýst um leið og það var gert, að til að byrja með yrði það hér í Reykjavík, sem þetta færi fram, en ætti síðar að ná til alls landsins, eftir því sem þörf og ástæður væru fyrir hendi. Og það var sett inn í lögin.

Á sama tíma og þessi mál voru mest aðkallandi á þessu þéttbýlissvæði, þá voru önnur mál meira aðkallandi í öðrum landshlutum og um sama leyti og við gerum þetta samkomulag við ríkisstj. og borgaryfirvöld, er gert samkomulag t.d. varðandi allt Norðurland um alveg sérstaka fyrirgreiðslu í atvinnumálum á því landssvæði. Þeir töldu, að það snerti þá miklu sárar, en þessi mál og ég ætla ekki að fara út í þá sálma og alls ekki að fara að telja eftir það fjármagn, sem þangað hefur runnið umfram önnur byggðarlög. Það væri auðvitað alveg fjarstætt að gera það. Það þurfti að gera og varð að gera. Þeir völdu sem sagt þá leiðina. Önnur mál krepptu að okkur.

Þetta vildi ég upplýsa hér. Það er alveg rétt, að þessi Breiðholtsframkvæmd hefur gengið á fé Byggingarsjóðs og hefði verið æskilegt og í raun og veru alveg nauðsynlegt, að fjármagn annars staðar frá hefði verið fyrir hendi. Það var náttúrlega augljóst, þegar samningar voru gerðir um það að byggja 1.250 íbúðir á 5 árum, eins og samningarnir hljóða upp á og á að vera lokið 1970. Það er náttúrlega alveg ljóst, að það er ekki nóg að gera slíka samninga og síðan ekki meir. Aðalatriðið í þessum efnum var auðvitað að reyna að útvega fjármagn til þess að geta staðið við þessa samninga. Því miður hefur orðið misbrestur á því og ekki annað sjáanlegt en nú verði hlé á þessum framkvæmdum, a.m.k. verður ekki séð annað í dag, þegar hvort tveggja kallar að, að byggt sé meira vegna hinnar brýnu þarfar og eins hitt og ekki síður, að það er nauðsynlegt, að hið opinbera og allir aðilar, sem geta staðið að slíkum málum, leggi einmitt núna meira í svona framkvæmdir, heldur en jafnvel hefði verið ástæða til áður, vegna þess slæma atvinnuástands, sem blasir við okkur. Og ég vil sérstaklega undirstrika, að það, sem er nú brýnast er, að það verði virkilega gengið í að útvega fjármagn til þessara framkvæmda, svo að ekki þurfi að verða neitt hlé á. Það er dýrt áreiðanlega mjög dýrt að hætta þeim framkvæmdum, sem nú eru. Ég álít, að það sé komin nóg reynsla til þess, að hægt verði að halda áfram, — þurfi ekki neitt hlé þess vegna. Það er sérstaklega brýnt vegna þess atvinnuástands, sem nú blasir við.