30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3554)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós mikla undrun yfir þeim upplýsingum, sem hér eru komnar fram frá hæstv. landbrh. Ég hef sjálfur átt tal um þessi mál við bankastjóra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á undangengnum mánuðum og ég hef fengið þær upplýsingar þar, að allar lánveitingar úr veðdeildinni hafi setið algerlega fastar. Þetta kemur mér því mjög á óvart, þegar það er nú upplýst með bréfi frá bankanum, að lánaðar hafi verið úr deildinni á þessu ári 5.1 millj. kr. Það er mér einnig nokkurt undrunarefni, að það kemur fram hér í svörum hæstv. ráðh., að því er virðist, að hann hefur ekkert átak gert, enga viðleitni sýnt til þess að leysa úr vandræðum veðdeildarinnar á þessu ári. Ég vil, að það komi fram hér við umr. um þessa fsp., að í augum bændasamtakanna, Stéttarsambands bænda, er þetta ekkert smámál. Stéttarsambandið, fundir þess, hefur margsinnis ályktað um þessi mál. Þau hafa dregizt inn í viðræður stjórnar Stéttarsambandsins við hæstv. landbrh. mörgum sinnum. Og til enn frekari staðfestingar á því, að bændasamtökin telja þetta þýðingarmikið mál, vil ég aðeins minna á, að við verðlagningu landbúnaðarvara haustið 1966, þegar gert var samkomulag milli stjórnar Stéttarsambands bænda og hæstv. ríkisstj., var eitt af þeim atriðum, sem samið var um, að litið yrði til veðdeildarinnar og greitt nokkuð úr hennar þörf.