30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

255. mál, starfsaðstaða Bifreiðaeftirlits ríkisins

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Með vaxandi fjölda ökutækja og aukinni umferð verðum við að gera enn þá meiri kröfur til þess, en áður hefur verið, að bifreiðar séu hafðar í fullkomnu lagi, a.m.k. hvað öryggisútbúnað snertir. Í flestum grannríkjum okkar er lögð mikil áherzla á þetta og a.m.k. í höfuðborgum þeirra flestra hefur verið komið upp fullkomnum skoðunarstöðvum með þar til gerðum mælitækjum, sem segja til um það, hvernig ástand bifreiðar er, hvað gera þurfi við og hvað þurfi að lagfæra.

Sú stofnun, sem öðrum fremur á að tryggja þennan þátt öryggismála hér á landi, er Bifreiðaeftirlit ríkisins. Annríki og verkefni Bifreiðaeftirlitsins hefur vaxið alveg stórkostlega á síðustu árum, eins og nærri má geta, þegar haft er í huga, að bifreiðaeign landsmanna hefur tvöfaldazt á nokkrum árum. Þannig var mér sagt um daginn í Bifreiðaeftirlitinu, að þar hefðu farið fram á s.l. ári 32 þús. skoðanir, en Bifreiðaeftirlitið í Reykjavík hefur, eins og kunnugt er, í fyrsta lagi með höndum svonefnda aðalskoðun bifreiða einu sinni á ári og margar bifreiðar þurfa að koma oftar, en einu sinni í þá skoðun. Auk þess eru bifreiðar svo alltaf skoðaðar í hvert skipti, sem umskráning fer fram. Til viðbótar þessu verkefni hefur eftirlitið skrá um allar bifreiðar og dráttarvélar í landinu, og þau verkefni, sem unnin eru þar vegna byggðarinnar utan Reykjavíkur, fara ört vaxandi, eftir því sem kunnugir segja. Þess má líka minnast í þessu sambandi, að sífellt er verið að gera auknar kröfur til öryggisbúnaðar. Þess er krafizt, að það séu aurhlífar, öryggisbelti o.s.frv. og þetta allt saman eykur vinnu þeirra, sem falin er ábyrgðin á því að líta eftir þessu og hafa þennan þátt umferðarmálanna í lagi.

Þessi umrædda stofnun hefur um langt árabil haft bækistöð sína í Borgartúni 7 og býr þar við alls ónógan húsakost. Húsrýmið er þröngt og lítið inni, óhentugt fyrir starfsemina, sem auk sjálfs eftirlitsins, nær yfir óskyldustu störf, eins og eftirlit með greiðslu opinberra gjalda af bifreiðum, eftirlit með greiðslu tryggingariðgjalda og jafnvel innheimtu afnotagjalda fyrir útvarpsviðtæki. Þó er aðstaðan utanhúss langtum óhægari. Útisvæðið er allt of lítið, bílafjöldinn þarna kemst yfir 400 yfir daginn, þegar mest er að gera, því að aðalskoðunin fer fram yfir sumarmánuðina og þá er meira að gera, en að vetrinum til. Þetta húsnæði er þar að auki staðsett við allt of mikla umferðargötu þannig að þar er talsverð slysahætta, eftir því, sem kunnugir telja, vegna þess hversu oft þarf að aka inn í mikla umferð og alla vega eru þarna umferðartruflanir. Þá má geta sér þess til, að það sé erfitt að stunda þessi störf úti, hvernig sem viðrar, allan ársins hring. Stundum að vetrarlagi byrjar starfsemin á því, að moka þarf snjó af stóru flæmi, til þess að hægt sé að hefja störfin. Og að sumrinu viðrar einnig oft þannig, að óhægt er um þessi störf utan húss. Af þessum ástæðum öllum þarf úrbætur, en þó heppilega skoðunaraðstöðu fyrst og fremst.

Hefur það verið baráttumál Félags bifreiðaeftirlitsmanna um nokkurt skeið, að hafizt verði handa um byggingu skoðunarstöðvar.

Vegna þess, að hér er að mínum dómi um þarft mál að ræða, hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. á þskj. 30 og bið hann svara, hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar til að bæta starfsaðstöðu Bifreiðaeftirlitsins.