06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

30. mál, fjárfesting ríkisbankanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þessi skýrsla, sem hæstv. viðskrh. gaf, var fróðleg, en hann situr samt inni með meiri fróðleik, því að hann sagði, að í þessari skýrslu og á þessum blöðum, sem hann hefði hjá sér væru miklu fleiri tölur og meiri fróðleik að finna. Ég vil þess vegna mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann láti fjölrita alla þessa skýrslu, eins og hún kemur fyrir og í heild sinni og útbýti henni til þm. Þm. eiga fullan rétt á því að fá í hendur þessa skýrslu með öllum þeim tölum. Þetta er málefni, sem alla varðar og ekki aðeins þm., heldur þjóðina alla. Hér eru ekki á ferðinni nein leyndarmál.

Ég dreg ekki í efa, að hér sé í mörgum tilfellum og sjálfsagt flestum, eins og hæstv. ráðh. lét liggja að, um nauðsynlegar framkvæmdir að ræða. En það er sjálfsagt, að allir fái að fylgjast með því, sem gerist í þessum efnum og augu manna beinast ekki hvað sízt að bönkunum á þessu sviði, þegar um fjárfestingar er að tefla. Og þess vegna vænti ég, að hæstv. ráðh. verði við því að útbýta skýrslunni í heild til þm. Sá háttur hefur áður verið á hafður, þegar um margar tölur er að tefla og það er auðvitað ógerningur að átta sig til hlítar á slíkum talnalestri, þegar hann er lesinn upp af skyndingu og jafnvel getur orðið misgáningur með tölur.