30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (3585)

257. mál, skólarannsóknir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þar sem fyrirspyrjandi að þessum dagskrárlið, Jónas Árnason alþm., hefur vikið af Alþ. um tíma, vil ég fyrir hans hönd óska eftir því, að hæstv. ráðh. svari þessari fsp. hans, sem hér liggur fyrir um skólarannsóknir, en fsp. er á þessa leið:

„Hverjar hafa orðið niðurstöður skólarannsókna varðandi aðstöðumun fólks í dreifbýli annars vegar og þéttbýli hins vegar til að tryggja börnum sínum: a) skyldufræðslu, b) eðlilega hlutdeild í framhaldsmenntun?“

Ég vænti þess, að þessar fsp. skýri sig í rauninni sjálfar og séu svo glöggar, að hæstv. ráðh. geti svarað þeim hér, án þess að um þær séu höfð fleiri orð frá minni hálfu.