30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

257. mál, skólarannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar gerð var starfsáætlun um starfsemi skólarannsókna fyrir árið 1968, þ.e.a.s. yfirstandandi ár, í árslok 1967, var gert ráð fyrir því að taka upp nýja liði í starfi skólarannsókna á þessu ári og var það orðað svo m.a. í starfsáætlun forstöðumanns skólarannsóknanna:

„Hafin verði athugun á ýmsum þáttum skólahalds í dreifbýli og er í ráði að vinna að þeirri rannsókn í samvinnu við n. þá, sem starfar nú að menntaáætlun á vegum Efnahagsstofnunarinnar og fleiri stofnana með styrk frá Efnahagssamvinnustofnuninni í París. Athugun þessi verður væntanlega tvíþætt:

Í fyrsta lagi, að rituð verði skýrsla um tilhögun dreifbýliskennslu í nokkrum nágrannalöndum. Hefur þegar verið safnað heimildum, sem verða lagðar til grundvallar skýrslunni.

Í öðru lagi, að gerð verði áætlun um tilraun, sem miða skal að því að bera saman sérstakar, ólíkar leiðir til þess að leysa skólavandræði í dreifbýli. Verður væntanlega reynt að hefja tilraun þessa þegar á árinu 1968.“

Störf skólarannsókna urðu hins vegar á þessu ári með nokkuð öðrum hætti en gert var ráð fyrir sökum annarra verkefna, sem talin voru enn brýnni en þetta og á ég þar fyrst og fremst við tvö stór verkefni, sem unnið hefur verið að og fullunnin hafa verið á þessu ári, þ.e.a.s. annars vegar samræmingu gagnfræðaprófs, sem hefur haft í för með sér og mun hafa í för með sér gerbreytingu á gildi og þýðingu þess prófs í íslenzku skólakerfi og svo hins vegar þeim breytingum á landsprófi, sem tekin var ákvörðun um, áður en skólastarf hófst á s.l. hausti og munu koma til framkvæmda á komandi vori, en í kjölfar þeirra mun einnig verða um að ræða gagngerðar breytingar á landsprófinu frá því, sem verið hefur um alllangt skeið.

Þessar tvennar athuganir, þ.e.a.s. annars vegar breytingar á gagnfræðaprófinu og hins vegar breytingin á landsprófinu, tóku svo mikinn hluta af tíma forstöðumanns skólarannsókna og aðstoðarmanna hans, að því miður hefur enn mjög lítið verið unnið að þessu verkefni, sem ég þó fúslega játa, að er mjög mikilvægt og mun verða á starfsáætlun skólarannsókna á næsta ári. Ég geri mér ákveðna von um, að því verði hægt að sinna af fullri alvöru þá, bæði vegna þess að þessum tveim stórverkefnum er lokið og svo vegna hins, sem er ánægja að geta skýrt frá hér, ef menn hafa ekki þegar veitt því athygli í sambandi við fjárlagafrv., sem fyrir liggur, að ákveðið hefur verið að fjölga starfsmönnum skólarannsókna um fullgildan sérfræðing um næstu áramót, þannig að starfslið þeirra mun verða meira á næsta ári en það hefur verið til þessa. Geri ég því ráð fyrir og treysti því fastlega, að af því geti orðið, að þetta mikilvæga verkefni fái fullnægjandi athugun á næsta ári.