30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (3592)

258. mál, fjárveitingar til vísindarannsókna

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að efla iðnaðarþróun á Íslandi. Menn hafa bent á þá staðreynd, að á næstu áratugum muni verða næsta mikil aukning á vinnufæru fólki hér á landi og þær atvinnugreinar, sem þurfi fyrst og fremst að taka við þessari fólksfjölgun, séu iðnaður og þjónustustörf. En það er ekkert einfalt verkefni að breyta atvinnuháttum frá hráefnisframleiðslu, eins og við höfum aðallega iðkað, yfir til iðnaðarframleiðslu. Til þess þarf mjög fjölþættar aðgerðir. Þar er ekki aðeins um að ræða fjármagn og nýjar verksmiðjur, heldur og breytingar á skólakerfinu.

Verkmenning er forsenda iðnvæðingar. En ein meginforsendan fyrir aukinni verkmenningu og allri iðnaðarþróun er vísindarannsóknir og tilraunir. Þar er sjálfur vaxtarbroddurinn. Reynslan hefur orðið sú hjá iðnaðarþjóðum umhverfis okkur, að framlög til slíkra verkefna hafa aukizt ákaflega ört að undanförnu og það hefur komið í ljós, að þær fjárveitingar hafa skilað sér aftur í mjög aukinni framleiðslu og í auknum þjóðfélagslegum arði. Sé okkur alvara með að reyna að hefja raunverulega iðnaðarþróun á Íslandi, er engum vafa undirorpið, að við verðum að leggja stóraukna áherzlu á vísindarannsóknir og tilraunir hér á landi. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hef leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. um það, hvernig við erum á vegi staddir í þessu efni, eins og nú standa sakir og ennfremur um það, hver séu áform ríkisstj. um að auka þessa starfsemi.