30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (3593)

258. mál, fjárveitingar til vísindarannsókna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Rannsóknaráð ríkisins hefur safnað gögnum um fjármagn til rannsókna og tilrauna á árunum 1965 og 1966 og hefur þá í því sambandi fylgt leiðbeiningum Efnahags– og framfarastofnunarinnar í París um söfnun og úrvinnslu slíkra gagna og er hægt að gera samanburð á fjárveitingum til þessara mála hér og í öðrum aðildarríkjum Efnahags– og framfarastofnunarinnar, ef miðað er við þennan samanburðargrundvöll.

Niðurstaða þessarar gagnasöfnunar Rannsóknaráðs ríkisins er sú, að sé fylgt leiðbeiningum Efnahags– og framfarastofnunarinnar um það, hvað telja skuli fjármagn til rannsókna og tilrauna í þessu sambandi, þá verður niðurstaðan sú, að heildarframlög á Íslandi til rannsókna og tilrauna urðu 1965 73.9 millj. kr. eða 0.36% af þjóðarframleiðslunni, 1966 urðu framlögin 90.3 millj. kr. eða 0.33% af þjóðarframleiðslunni. Áður hafði verið gerð athugun af Rannsóknaráðinu á þróun rannsókna og tilrauna á Íslandi 1950–1960 og var samsvarandi hlutfallstala árið 1958 0.31 %. Hins vegar er þess að geta, að samanburður milli landa, þar sem aðstæður eru mjög ólíkar í þessum efnum, getur að ýmsu leyti verið mjög varhugaverður. Um er að ræða margs konar starfsemi í mörgum löndum, sem er náskyld þeirri starfsemi, sem Efnahags– og framfarastofnunin hefur kosið að miða við í sínum tölum um þetta efni. Starfsemi, sem fram fer hér á landi og varið er miklu fé til af eðlilegum ástæðum vegna atvinnuhátta Íslendinga, er t.d. fiskileit, gæðaeftirlit með fiski og fiskmat og auk þess þjónustustarfsemi rannsóknastofnananna. Ef framlög til þessarar starfsemi, þ.e.a.s. fiskileitar, gæðaeftirlits og fiskmats og þjónustustarfsemi rannsóknastofnananna er tekin með, verða tölurnar fyrir 1965 102.6 millj. kr. eða 0.5% af þjóðarframleiðslunni, en 1966 127.0 millj. kr. eða 0.53%. Langstærsti liðurinn af starfsemi, sem talin er náskyld rannsóknastarfseminni, er fiskileitin, en 30% af þeim kostnaði er talin raunveruleg rannsóknastarfsemi. Á fjárl. fyrir árin 1965–1966 var varið rúmlega 18 millj. kr. til fiskileitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna. Samanburðartölur fyrir önnur lönd Efnahags– og framfarastofnunarinnar eru þessar:

Austurríki, — þetta eru ýmist tölur fyrir 1963 eða 1964, ég er ekki viss, um hvort árið er að ræða, ég hygg, að það skipti ekki verulegu máli í samanburði, — Austurríki 0.3%, Belgía 1.0%, Kanada 1.l%, Frakkland 1.6%, Vestur-Þýzkaland 1.4%, Grikkland 0.2%, Írland 0.5%, Ítalía 0.6%, Japan 1.4%, Holland 1.9%, Noregur 0.7%, Portúgal 0.2%, Spánn 0.2%, Svíþjóð 1.5%, Tyrkland 0.4%, Bretland 2.3% og Bandaríkin langhæst með 3.3%.

Um þessar tölur og hugsanlegan samanburð á þeim vildi ég segja í framhaldi af mjög víðtækri rannsókn, sem Efnahags– og framfarastofnunin gerði á framlagi aðildarríkjanna til rannsóknastarfsemi og tilrauna hvers konar, að mjög vafasamt er talið að meta hagnýtt gildi rannsókna og tilrauna í hverju landi um sig á grundvelli fjárframlaganna einna saman eða þá hlutfallstölu fjárframlaganna af þjóðartekjum. Þessi víðtæka rannsókn, sem gerð var og gefin hefur verið út ýtarleg bók um, virtist ótvírætt benda til þess, að framlög til rannsókna og tilrauna hagnýttust með mjög misjöfnum hætti í hinum ýmsu löndum, eftir því hvernig til þeirra væri efnt og hvernig skilyrði væru til úrvinnslu á niðurstöðum rannsóknanna. Heildarniðurstaðan virtist vera sú, að í raun og veru hefðu t.d. Bandaríkin tiltölulega miklu meira upp úr rannsóknastarfsemi hjá sér en svaraði til þeirrar prósentutölu af þjóðartekjum, sem til rannsóknanna væri varið og er þó sú tala langhæst allra aðildarríkja Efnahags– og framfarastofnunarinnar. Er ástæðan til þess talin vera sú, að rannsóknastarfsemi fari sumpart fram á vegum þaulskipulagðra stofnana, sem hafi komið á hjá sér föstum og skipulögðum vinnubrögðum og svo annars vegar á vegum rannsóknastofnana stórfyrirtækja, sem hið sama megi segja um, að rannsóknir séu gerðar með mjög skipulegum hætti og tafarlaus úrvinnsla þeirra tryggð. Hið sama virtist aftur á móti ekki verða niðurstaðan um rannsóknastarfsemi Evrópulandanna, einkum og sér í lagi ekki hinna smærri, þannig að gildi rannsókna fyrir þessi lönd sé í raun og veru ennþá minna en til þess svarar, sem hlutfallstalan af þjóðartekjum er minni en hlutfallstala stórríkjanna, Bandaríkjanna og Bretlands. Þetta vekur sérstaka athygli á því, hvers konar vandi smáríkjum er á lendi í þessum efnum, bæði að efna til rannsókna í nægilega stórum stíl og svo hins vegar að sjá til þess, að niðurstaða rannsóknanna sé hagnýtt með skynsamlegum hætti.

Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur hér á Íslandi, sem ekki er aðeins langsmæsta ríki Efnahags– og framfarastofnunarinnar eða hins iðnvædda heims, heldur eru hér einnig allir hlutir í þessum efnum á algeru bernskustigi. Við höfum ekki þá reynslu og þekkingu, þá arfleifð að baki, sem stórar og háþróaðar iðnaðarþjóðir, eins og t.d. Bandaríkin og Bretland, hafa í þessum efnum. Ég segi þetta ekki til skýringar á því, að Íslendingar eru, hvort sem við miðum við framfaraskilgreininguna, 0.36–0.38%, eða víðtækari skilgreininguna, þar sem hlutfallið er 0.5–0.53, — ekki til skýringar á því, að í þessum efnum erum við Íslendingar enn í tölu þeirra þjóða, sem verja tiltölulega litlum hluta af sínum þjóðartekjum til vísindarannsókna, heldur er það að vissu leyti eðlilegt sökum fámennis landsins og sökum stutts þróunartíma á þessu sviði og svo sökum hins, sem skiptir mestu máli, að hér verja fyrirtæki næstum engu til rannsóknastarfsemi, en það eru fyrirtækin, sem standa undir rannsóknastarfseminni að verulegu leyti hjá stóru iðnaðarþjóðunum og þjóðum, sem eru miðlungi stórar. En eftir því, sem ríkið minnkar, kemur í ljós, að hlutfall rannsókna fyrirtækja í heildarrannsóknastarfinu verður minna og minna og þess vegna er auðvitað hætt við því, að hlutfallstölurnar fyrir lítil ríki minnki mjög verulega.

Næstum öll sú rannsóknastarfsemi, sem hér er um að ræða og var á árinu 1966, sumpart 90 milljónir, ef við miðum við fyrri töluna, eða 127 millj., miðað við síðari töluna, er næstum öll greidd af hinu opinbera og ég hygg, að ef opinber framlög til rannsóknastarfsemi hér á landi eru borin saman við opinber framlög til rannsókna í öðrum minni ríkjum, sé ekki verulegur munur á hlutfallstölunni, jafnvel að hún sé hærri hér á landi.

Ég bendi ekki á þessar staðreyndir til skýringar á því, hver hlutfallstalan er í hlutfalli við annað, það á sér margar og margvíslegar skýringar, — heldur til þess að vekja athygli á hinu að, að mínu viti er aðalatriðið í þessum málum kannske ekki að auka fjármagn til rannsóknanna, þó að ég sé hv. fyrirspyrjanda algerlega sammála um, að það er mjög mikilvægt og það hlýtur að verða forsenda frekari iðnvæðingar á Íslandi, að auknu fé sé varið til rannsókna og tilraunastarfsemi. Nei, ég bendi á þessar staðreyndir til þess að vekja athygli á því, að það, sem kannske fyrst og fremst er þörf á í þessum efnum hér á landi, er að móta skynsamlega stefnu í rannsóknamálunum. Það er að móta skynsamlega vísindastefnu á þessu sviði. Það er að marka rannsóknastofnunum og rannsóknamönnunum skynsamleg verkefni, sem líklegt er að komi að hagnýtu gagni og hafi hagnýtt gildi fyrir íslenzka atvinnuvegi. Í þeim efnum hefur því miður gengið á ýmsu og það er ástæðulaust að draga nokkra dul á það, að meðal íslenzkra vísindamanna, meðal íslenzkra rannsóknamanna eru mjög skiptar skoðanir um þetta efni. T.d. hafa verið mjög skiptar skoðanir annars vegar á milli Rannsóknaráðs ríkisins og framkvæmdanefndar þess og einstakra rannsóknastofnana í þágu atvinnuveganna hins vegar. Meðan þessi mál öll eru jafnskammt á veg komin og þau eru hér á landi og þar hygg ég að sé við engan aðila að sakast, — það leiðir af æsku landsins og æsku íslenzkra atvinnuvega, að ég ekki tali um æsku íslenzkra rannsóknamála, — meðan þessi mál eru þannig í pottinn búin, tel ég mjög hæpið, að stóraukið fé til rannsókna geti borið þann árangur, sem það þyrfti að bera. Þess vegna er það meginverkefnið núna að mynda skynsamlega stefnu í íslenzkum rannsóknamálum. Þegar hún er fyrir bendi, efast ég ekki um, að stjórnvöld, hver svo sem þau eru hverju sinni, sjái gildi þess að auka fjárveitingar til rannsókna og muni gera það.