30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3595)

258. mál, fjárveitingar til vísindarannsókna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hv. þm. spurði, hvað ég hefði hafzt að í því efni að hafa forustu um mótun þeirrar stefnu í þessum málum, sem við erum sammála um, að sé nauðsynlegt að móta.

Um þetta er það að segja, að ég beitti mér fyrir því á sínum tíma, að sett yrði ný heildarlöggjöf um íslenzka rannsóknastarfsemi og löggjöfin um þessi efni væri endurskoðuð frá rótum einmitt í því skyni, að það tækist að móta samræmda, íslenzka vísindastefnu, — samræmda stefnu fyrir þær stofnanir, sem hefðu það verkefni að vinna að hagnýtum rannsóknum í þágu atvinnuveganna og þær stofnanir, sem vinna að hreinum vísindarannsóknum.

Það tók mörg ár að endurskoða þessa löggjöf. Að henni störfuðu tvær n. Það var haldin mjög víðtæk vísindaráðstefna í Háskólanum, þar sem þessi mál öll voru rædd frá grunni. Það kom í ljós á þeim mörgu árum, sem þessi löggjöf var í undirbúningi, að hér er um mjög flókið og mjög vandasamt mál að ræða, sem fjalla þarf um með ýtrustu varfærni, ef ekki á að stíga víxlspor, — ef ekki á að vera hætta á því, að víxlspor sé stigið.

Þessi allsherjarlöggjöf var sett árið 1965 og það var von okkar allra, sem að þessari löggjöf stóðum, — ég hygg að hún hafi verið endanlega afgreidd samhljóða hér á hinu háa Alþ., eftir að tvö eða þrjú Alþ. höfðu um hana fjallað, — það var von mín að niðurstaðan af þessu mikla og áralanga undirbúningsstarfi yrði sú, að það tækist með verulegri samstöðu íslenzkra rannsóknamanna að móta slíka stefnu.

Að gefnu þessu tilefni — ég segi það alveg af hreinskilni við hv. alþm., — tel ég þessa löggjöf ekki hafa komið að því gagni, sem ég fyrir mitt leyti vonaði, að hún mundi koma. Og það hefur orðið bið á því, meiri bið en ég átti von á, að sú samstaða íslenzkra rannsóknamanna skapaðist, sem ég treysti að mundi skapast, að sú samvinna rannsóknastofnananna innbyrðis og sú samhæfing á starfi þeirra af hálfu hins opinbera, þ.e.a.s. af hálfu rannsóknaráðs og framkvæmdanefndar þess, kæmi til framkvæmda.

Ég tel reynsluna af þessari þriggja ára gömlu lagasetningu vera þá, að það sé orðið tímabært að taka hana enn til endurskoðunar. Ég mun beita mér fyrir því á næstunni, að það verði gert, a.m.k. að þeir helztu aðilar, sem hér eiga hlut að máli, komi saman til fundar eða ráðstefnu, þar sem grundvallarvandamál í þessum efnum verði rædd. Því ég endurtek, að það hefur í raun og veru ekki þýðingu, það er ekki von um árangur af auknum jafnvel ekki stórauknum framlögum hins opinbera eða einkafyrirtækja til þessara mála, fyrr en við sjálfir, hið opinbera, rannsóknastofnanirnar og rannsóknamennirnir hafa komið sér saman um, hver skuli vera grundvallarstefnan í þessum efnum, á hvaða verkefni skuli helzt leggja áherzlu og hvernig skuli að þeim unnið og ekki síður hvernig niðurstöðurnar skuli hagnýttar.

Um það að síðustu, að of margir íslenzkir vísindamenn starfi erlendis, er ég sammála hv. þm. Það væri sannarlega æskilegt, að allir íslenzkir vísindamenn, sem hlotið hafa menntun sína á Íslandi eða erlendis, störfuðu hér á landi. Við þurfum á því að halda. Og starfsemi fárra manna mun geta borið meiri ávöxt en einmitt starfsemi slíkra manna. En ég vil vekja athygli á því, að við erum ekki eina landið, sem á við erfiðleika að etja í þessum efnum. Jafnvel stórþjóð eins og Bretland verður að sjá á bak verulegum hluta sérstaklega sinna raunvísindamanna til Bandaríkjanna og jafnvel samveldislanda, efalaust af svipuðum ástæðum og ráða þeirri breytni íslenzkra vísindamanna að starfa frekar erlendis en hér.

Ég er sammála hv. þm. um það, að hér er efalaust ekki eingöngu um að ræða spurningu um laun eða kjör, heldur spurningu um aðstöðu, sem stórveldi, t.d. Bandaríkin, geta boðið betri flestum ef ekki öllum öðrum. Þetta er sem sagt stærra vandamál og flóknara en svo, að við því sé að búast, að einstakar, takmarkaðar aðgerðir íslenzkra stjórnarvalda geti unnið þar fullan bug á, þó að ég játi fúslega og vildi að því vinna, að eins lítið kveði að því og mögulegt er, að íslenzkir vísindamenn noti starfskrafta sína erlendis.