06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

35. mál, vegabætur við Skeiðhól í Hvalfirði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið á síðasta þingi, sem borin var fram hér fsp. af hv. 4. þm. Vesturl. um endurbætur á þjóðveginum við Skeiðhól í Hvalfirði. Það hefur oft verið talað um, að brýna nauðsyn bæri til að laga veginn hjá Skeiðhól. Menn gætu farið keðjulausir frá Reykjavík og upp í Borgarfjörð og jafnvel norður fyrir Holtavörðuheiði, ef þessi kafli væri lagfærður. Þannig væri það oft, að hálka væri á þessum kafla og ófært fyrir keðjulausan bíl, þó að færð væri sæmileg annars staðar á leiðinni. Þess vegna var borin fram fsp. um þetta mál á s.l. ári og óskað eftir, að það væri athugað, hvenær hafizt yrði handa um endurbætur á þessum vegarkafla.

Það er í sjálfu sér eðlilegt, að hv. 3. þm. Vesturl. vilji fá upplýsingar um það, af hverju þessu verki hefur ekki verið hraðað meira en raun ber vitni. Vitanlega er hann sömu skoðunar og aðrir, sem fara þessa leið oft, að það hafi verið nauðsynlegt og sjálfsagt að hefja þessar vegabætur. En hv. þm. veit ástæðuna að miklu leyti. Hann veit, hvað mikið fjármagn var í vegáætlun til þess að lagfæra þessa leið. Hann kannske veit ekki um þá skoðun verkfræðinga, að þeir telja nauðsynlegt að gera þetta í tveim áföngum. Þarna er um svo mikla uppfyllingu að ræða, að það er talið eðlilegra að láta dálítinn tíma líða, til þess að uppfyllingin geti sigið og jafnað sig, heldur en að fylla þetta allt saman upp á stuttum tíma. Þess vegna er verkinu ekki lokið, en auk þess var ekki til nægilegt fjármagn. En e.t.v. hefði verið hægt að ljúka verkinu með lántökum, það hefur stundum verið gert. En ég hygg, að hv. fyrirspyrjandi, sem þessu er kunnugastur, geri sér alveg grein fyrir því, að það er mikils virði, að þetta verk er hálfnað og ætla má, að því verði lokið á næsta ári.