06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í D-deild Alþingistíðinda. (3611)

260. mál, bækistöðvar Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin.

Þessi bækistöð í Hvalfirði gæfi raunar tilefni til býsna almennra umr., en þær eiga ekki við í sambandi við þessa fsp. Þó væri mér forvitni á að heyra hjá hæstv. ráðh., hvort legufæri þau, sem þarna er um að ræða, séu einnig hugsuð til notkunar fyrir kafbáta. Þegar rætt var um þessa stöð hér á Alþ. fyrir allmörgum árum, man ég, að um það urðu allmiklar umræður, hvort þessi stöð væri þannig hugsuð, að kafbátar gætu notað hana og þarna yrði komið fyrir múrningum á hafsbotni, sem væru hugsaðar handa kafbátum. Um þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðh.

Mér þótti einnig fróðlegt að frétta, að Íslenzkir aðalverktakar hafa tekið að sér að starfrækja þessa stöð. Ég vék að því hér á þingi fyrir nokkrum dögum, að það virtist vera mjög vaxandi áhugi af hálfu hernámsstjórans á Keflavíkurflugvelli á því að tengja Íslendinga sem mest við hernámið. Þarna hafa Íslenzkir aðalverktakar tekið að sér nýtt verkefni í þágu Atlantshafsbandalagsins, og það var auðheyrt á aðmírálnum í ræðunni á dögunum, að hann vildi tengja marga fleiri aðila við þessa starfsemi. En sem sagt, almennar umræður um þetta efni eiga ekki við núna.

Hins vegar held ég, að það væri ákaflega æskilegt, að hér færu fram fljótlega almennar umr. um utanríkismál. Við ræddum það atriði hér á þinginu í fyrra og þá komu fram óskir um það, að efnt yrði til almennrar umr. um utanríkismál. Þá tókst nú ekki betur til en svo, að þessi umr. varð á síðasta degi þingsins og til hennar skammtaðir einir tveir tímar, að mig minnir. Ég lét þá í ljós þá ósk, að hæstv. ráðh. gæfi skýrslu um utanríkismál tímanlega á því þingi, sem nú er hafið og ég vil leyfa mér af þessu tilefni að ítreka þá ósk við hæstv. ráðh. og spyrja hann jafnframt að því, hvort þess sé ekki að vænta, að slík skýrsla komi, t.a.m. áður en þing er sent heim í jólafrí.