13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er illt að heyra, að heimildin, sem var samþ. í fyrra um að heimila ríkisstj. að athuga um kaup á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar, skuli ekki hafa verið notuð, vegna þess að hvað sem hæstv. landbrh. segir um áburðinn og þó að hann noti fyrirspurnatímann til þess að kenna okkur áburðarfræði, er mér kunnugt, að bændurnir í landinu eru mjög óánægðir með þessa framleiðslu. Ég veit, að á sumum verzlunarstöðum var það athugað þannig, að menn voru látnir panta, hvaða áburð þeir vildu og það voru örfáir, sem vildu fá Kjarna. T.d. í Eyjafirði munu það ekki vera fleiri, en fingur annarrar handar, fjöldinn af þeim bændum, sem vildu taka Kjarnann. Ég held, að þetta segi sína sögu. Og sannleikurinn er sá, að sum árin a.m.k. hefur þessi vara verið þannig, að ef það hefðu verið bændurnir, sem hefðu ætlað að selja hana, hefði það ekki verið talin forsvaranleg framleiðsla. Þannig hefur þessi áburður verið, þó að ég ætli alls ekki að fara út í notagildi áburðarins eða að kenna áburðarfræði.

Ég varð dálítið hissa á því, sem kom fram, að bændur fyrir austan fjall hefðu verið brosandi á þessum fundi yfir heimsku þm., sem hann var að tala um í sambandi við þetta, því að þeir trúðu mér fyrir því þar og sumir af vildarvinum ráðh., að þeir hefðu tekið það óyndisúrræði að panta tóman garðáburð á túnin sín til þess að þurfa ekki að taka Kjarnann. En frelsið í þessum málum er þannig, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að fyrst þarf að taka það magn af Kjarnanum, sem framleitt er og síðan náttúrlega mega menn alltaf taka það, sem þeir vilja. Ef t.d. helmingur af köfnunarefnisáburðinum er Kjarni, verður maður fyrst að taka það og síðan að velja. Það er þetta frelsi, sem ráðh. er alltaf að hæla sér af í þessum efnum.

Nei, þessi mál eru þannig, að það er alveg brennandi spursmál um það að hefjast handa þarna með að breyta þessari verksmiðju. Það er ekkert um það að ræða og þessi framleiðsla er þannig, að ég held, að menn líði það eingöngu vegna þess, að þeir eru að vonast til þess, að úr verði bætt á næstunni. Ég varð fyrir því í hittiðfyrra, að við fengum heilan bíl frá Akureyri, og það mátti berja sundur hvern einasta poka. Það kann að vera, að hæstv. landbrh. telji þetta forsvaranlega vöru. En ég er hræddur um, að bændurnir mundu brosa að honum, ef hann héldi því fram.