13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (3627)

262. mál, aðstoð við fátækar þjóðir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að fyrir þessum málum er víða mjög mikill áhugi, en ég efast þó um, að það séu margar þjóðir, sem enn hafa orðið við þeirri áskorun Sameinuðu þjóðanna, sem hann vitnaði til og væri það út af fyrir sig fróðlegt að fá að vita, hvaða þjóðir það eru, ef hv. þm. hefur um það skýrslu, úr því að hann vitnaði til annarra í þessum efnum.

Um aðstoð Íslendinga til fátækra þjóða er það annars að segja, að Íslendingar hafa eftir fremstu getu tekið þátt í ýmiss konar alþjóðlegum söfnunum í hjálparskyni og þá oftast nær verið í allra fremstu röð, miðað við mannfjölda, eins og vitanlega eingöngu er hægt að miða við í þessu sambandi. Þrátt fyrir það eru þær fjárhæðir, sem við höfum getað látið öðrum í té, sáralitlar miðað við það, sem aðrar stærri og meiri þjóðir, auðugri þjóðir, hafa getað gert. Ég hygg, að segja megi, að hjá okkur sé um að ræða oft innan við tug millj. eða kannske um einn tug eða tvo tugi í allra mesta lagi, þegar mest hefur verið safnað hér í þessu sambandi. Ef látið yrði 1% af þjóðarframleiðslu, mundi þar vera um að ræða hundruð millj., svo að það er ljóst, að eins og sakir standa, höfum við því miður ekki efni á slíkri aðstoð, enda gat hv. þm. þess, að þarna er miðað við langan tíma og þá er eðlilegt, að aðstoðin sé smáaukin, enda munu ráðagerðir, þar sem málinu hefur verið hreyft annars staðar, stefna í þá átt.

En þá er þess að geta, að á Alþ. var samþ. hinn 31. marz 1965 svo hljóðandi áskorun til ríkisstj.: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, með hverju móti Ísland geti tekið virkari þátt, en nú er í því að veita þróunarlöndunum aðstoð til eflingar efnahagslegum framförum þar og leggja niðurstöður þeirrar athugunar fyrir Alþ. að henni lokinni.“

Þessi till. hygg ég að hafi í upphafi verið flutt af hv. 12. þm. Reykv., Ólafi Björnssyni. Nefnd var síðan skipuð til þess að fjalla um þetta mál og var formaður hennar tillögu flytjandinn, prófessor Ólafur Björnsson. Þessi n. skilaði áliti, sem er dagsett 11. okt. 1966 eða við getum sagt bráðabirgðaáliti, sem er í bréfi til utanrrh.,og er þar lagt til, að skipuð verði sérstök stjórn til þess að fara með og fjalla um þessi mál af Íslendinga hálfu, en jafnframt er lagt til, að á fjárl. 1967 verði veittar 15 millj. kr. í þessu skyni. Þá var farið að verða erfiðara um fjáröflun hér og hefur Alþ. hvorki við samningu fjárl. fyrir 1967 eða 1968 treyst sér að veita fé í þessu skyni og þar af leiðandi hefur ríkisstj. ekki talið tímabært að flytja það frv. um sérstaka stofnun eða stjórn til þess að annast meðferð málanna, sem gerð var till. um í bráðabirgðaáliti n. frá því haustið 1966, enda var þar eingöngu um bráðabirgðaálit að ræða. Nú er mér tjáð, að n. ráðgeri að skila fullnaðaráliti með till. sínum í málinu. Og ég hygg, að allir ættu að geta sameinazt um það, að eðlilegt sé, að beðið verði með tillögugerð og ráðagerðir, þangað til þetta álit liggur fyrir.

Út af fyrir sig gæti ég hugsað mér, að hægt væri að koma af stað stofnun til þess að íhuga þessi mál, jafnvel þó að fjárveitingar væru litlar í fyrstu, eins og þær hljóta að verða til að byrja með, eins og nú standa sakir, því að þetta mál krefst mikillar athugunar og verður að miðast við langan tíma, eins og einnig kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. En án þess að eitthvert fé sé veitt til þess af hálfu ríkisvaldsins eða tryggð fjárframlög annarra íslenzkra aðila, tel ég út í bláinn að skipa n. til þess að ráðstafa því fé, sem þá væri ekki fyrir hendi. En ég vonast til þess, að þetta heildarnál. geti komið áður en mjög langt um liður og þá verði hægt að taka málið upp að nýju.