19.11.1968
Sameinað þing: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

42. mál, lýðræði í æðri skólum

Fyrirspyrjandi (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Hann treystir sér raunar ekki til þess að svara fsp. minni til fulls af ástæðum, sem hann greindi og ég get vel skilið.

Hann rakti baráttu stúdenta við Háskóla Íslands sérstaklega í þessum málum og vegna þess þrýstings, sem komið hefur frá þeim, beinist athyglin að sjálfsögðu fyrst og fremst að Háskóla Íslands og hlutdeild nemenda í þeim skóla í stjórn skólans og starfstilhögun allri. En ráðh. hafði fátt að segja um aðra æðri skóla í landinu, en þar er ekki síður áhugi fyrir þessum málum og ég mundi því segja, að þetta svar hæstv. ráðh. ætti að verða hvöt til nemenda í þeim skólum að mynda sín samtök og láta frá sér heyra um þessi mál ekki síður en háskólastúdentar. En ég teldi þó eðlilegast, að hæstv. menntmrh. beitti sér fyrir því, að skipaðar yrðu ráðgjafanefndir nemenda og þá e.t.v. samstarfsnefndir nemenda og kennara í öðrum æðri skólum, svo að hann heyrði einnig hljóð úr þeim hornum. Ég mundi telja æskilegast, að þessi mál fylgdust sem mest að. Þó að einhvers staðar verði að byrja, tel ég samt, að æskilegast væri, að þetta fylgdist sem mest að, þ.e.a.s. allir þessir æðri skólar, sem mundu verða taldir fullnægja þeim skilyrðum, sem gera yrði, til þess að æskilegt væri að veita nemendum hlutdeild í stjórn skólanna. Þannig fylgdist málið að í heild og eðlilegt samræmi fengist í framkvæmd þess í hinum einstöku æðri skólum í landinu.