19.11.1968
Sameinað þing: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

42. mál, lýðræði í æðri skólum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að undirstrika, að ég er alveg sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að nauðsynlegt er, að breytingar í þessa átt fylgist að í öllum æðri menntastofnunum landsins. Það er einmitt meginskýringin á því, að ég hef ekki enn gert ráðstafanir til að koma á fót nemendaráðum í hinum æðri skólum ríkisins, þ.e. menntaskólum, kennaraskóla, vélskóla og öðrum ríkisskólum, þó að ég hafi till. eða hugmyndir um það efni næstum fullbúnar. Ég hef einmitt viljað bíða eftir því, hver yrði niðurstaðan af væntanlegum viðræðum menntmrn., stúdentaráðs og háskólaráðs um nýskipan við háskólann. Hafi ég ekki sagt þetta nógu skýrt áðan, þá segi ég það aftur hér og undirstrika alveg sérstaklega, að ráðstafanir varðandi hina æðri ríkis skóla eru þegar undirbúnar og geta komið til framkvæmda með mjög litlum fyrirvara, þegar viðræður hafa farið fram milli menntmrn., háskólaráðs og stúdentaráðs, en þær eru fyrirhugaðar strax eftir að mér berst í hendur umsögn háskólaráðs um endanlegar hugmyndir stúdentanna, sem ég þekki ekki enn og þeir sjálfir hafa ekki fullmótað, — munu ekki fullmóta fyrr en annað kvöld, að því er ég fékk upplýsingar um síðast í morgun. En þegar allt þetta liggur fyrir, ætti að vera hægt að hefjast handa um þá nýskipan, sem mér skilst, að við hv. fyrirspyrjandi séum sammála um, að nauðsynleg sé í þessum efnum.

Út af fyrir sig þykir mér vænt um, að ekki skuli vera ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta efni. Nóg er víst annað þessa dagana til að deila um, þó að við getum verið sammála um það, sem ég tel miklar réttarbætur og miklar framfarir í skólamálum, ef til slíks gæti komið.