20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (3642)

54. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þá meginstefnu í sjónvarpsmálum, sem ég gerði grein fyrir í svari mínu áðan, og tek það enn sem staðfestingu á því, að um þessa meginstefnu, sem í upphafi var mótuð, sé ekki ágreiningur á hinu háa Alþ.

Varðandi það frjálsræði, sem síðasti ræðumaður nefndi, hvenær þeir mundu fá sjónvarp á Vestfjörðum, er það að segja, að þeir eru á framkvæmdaáætlun áranna 1970–1971. Annars er velkomið að láta hv. þm. og öðrum hv. þm., sem þess kynnu að óska, í té þá áætlun varðandi dreifingu sjónvarps um landið, sem nú er unnið eftir.

Um fsp. hans um það, hvort ákveðnir staðir á Vesturlandi eða Vestfjörðum mundu geta fengið leyfi til þess að koma upp eigin endurvarpsstöðvum til þess að flýta framkvæmd áætlunarinnar á sinn kostnað, er það að segja, að ég held, að ég hafi greint frá því í aðalsvari mínu við fsp., að tveim stöðum hefur þegar verið heimilað að koma upp endurvarpsstöðvum á eiginn kostnað, þ.e.a.s. Hvammstanga og Blönduósi, gegn ákveðnum skilyrðum. Ég tel sjálfsagt, að ef þeir staðir, sem hann nefndi, hv. þm., vilja að þeim skilyrðum ganga, þ.e.a.s. hafa samráð við Ríkisútvarpið eða Póst og síma um gerð endurvarpsstöðvanna, þannig að þessir aðilar geti keypt þær, þegar að réttum framkvæmdatíma er komið, þá tel ég sjálfsagt að orðið verði við óskum um þessi efni.