20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (3646)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Spurt er, hvort settar hafi verið ákveðnar reglur um notkun bifreiða í eigu ríkisins, sem ákveðnir embættismenn hafa til einkaafnota. Um þetta hafa ekki enn verið settar reglur.

Hv. fyrirspyrjandi vitnaði í svar við fsp., sem ég gaf á Alþ. s.l. vor, þar sem spurt var um bílaeign ríkisins og ýmis önnur atriði í því sambandi. Þar gat ég þess, að það hefðu aldrei verið settar neinar reglur um þetta efni og það væri orðið mikið vandamál, að um þetta skyldu ekki gilda fastar reglur. Bæði væri þetta mikið fjárhagsatriði, sem hér væri um að ræða og enn fremur væri ljóst, að í sambandi við þessa bílanotkun og bílahlunnindi væri ýmiss konar ósamræmi, jafnvel misrétti milli einstakra embætta. Það, sem hér er vitanlega átt fyrst og fremst við, eru þær bifreiðar, sem ákveðnir menn hafa til umráða, sem við gjarnan köllum hjá okkur forstjórabifreiðar. Það eru helzt forstöðumenn ríkisstofnana, sem hafa þessar bifreiðar, að vísu nokkrir aðrir, sem gegna sérstökum störfum, sem talið hefur verið nauðsynlegt að hafa bifreið til afnota við.

Vandinn í þessu efni er sá, að í mörgum tilfellum er hér beinlínis um launahlunnindi að ræða, sem þróazt hafa gegnum árin og þetta veldur því, að það er mjög erfitt um afnám þessara réttinda. Það hafa komið upp þær hugmyndir, að eðlilegra væri að launa starfsmennina betur, sem þessu næmi. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en erfitt er að koma því við, vegna þess að í launakerfinu hefur aldrei fengizt viðurkenning fyrir þeirri mismunun launa, sem hér um ræðir.

Í annan stað er þess að geta, að margar þessar bifreiðar eru beinlínis óumflýjanlegar vegna sérstakra starfa viðkomandi manns, þó að hann auðvitað noti þær líka að einhverju leyti í eigin þarfir og þetta veldur því, að hér er mjög mismunandi ástatt að svo miklu leyti, sem hér er um bifreiðar að ræða, sem eru nauðsynlegar vegna starfs mannsins eða beinlínis um hlunnindi í þessu sambandi að ræða. Reglur eða uppkast að reglum hefur verið gert og reyndar miðað við fleiri en eina hugsanlega leið í þessu efni. Þessar reglur hafa verið til athugunar í sumar og það standa þannig sakir nú, að þær hafa verið til íhugunar hjá undirnefnd þeirri, sem sett var á laggirnar í sumar með fulltrúum úr fjvn. og nú fyrir ekki löngu óskaði ég eftir því við fjvn. í heild, að hún íhugaði þessar reglur og léti uppi álit sitt um það, hvaða stefnu hún teldi, að bæri að taka í þessum efnum.

Sú skoðun mín hefur ekki breytzt, sem ég lét í ljós í fyrra og hef reyndar látið í ljós oftar í fjárlagaræðum. Þetta mál var tekið fyrst til athugunar fyrir um það bil tveimur árum. Hér er um vandamál að ræða, sem er nauðsynlegt að finna lausn á, en hitt er jafnljóst, að þar sem þetta hefur þróazt um áratugabil, án þess að um það væru fastar reglur, er verulegum erfiðleikum bundið að komast með viðhlítandi hætti út úr þessum vanda, því að það er þægilegra að koma á einhverri venju, en aftaka hana aftur. Það sem gerðist fyrir tveimur árum, þegar byrjað var að athuga þetta mál var, að þá var stöðvuð sú þróun, að fleiri embættismenn fengju bifreiðar og jafnframt var þá ákveðið, að ekki yrði breytt bílastyrkjum, sem greiddir eru fjölda starfsmanna, af því að það þykir hagkvæmara, en menn hafi bíl til umráða, fyrr en endurskoðun væri lokið. Einmitt síðustu vikur hefur verið unnið skipulega að því að meta bílastyrkina, þannig að því ætti að vera lokið innan tíðar. Það hefur verið safnað rækilegum upplýsingum um akstursþörf þeirra manna, sem bílastyrki hafa fengið, en eftir standa, sem ég gat um, hinar svokölluðu forstjórabifreiðar og enn fremur þær bifreiðar, sem eru mjög margar, er ríkið á og einstakir starfsmenn aka, en eiga ekki að hafa til eigin nota og það hefur verið mjög til athugunar að merkja þær bifreiðar, taka þær úr notkun, jafnvel að kvöldi til, eins og er gert í sumum stórum ríkisstofnunum. Það er erfitt að koma þessu við, þar sem er kannske um einn eða tvo starfsmenn að ræða og verða því að hafa bílana í vörzlum sínum, en einnig þetta er gert ráð fyrir, að settar verði fastar reglur um.

Reglurnar hafa sem sagt enn ekki verið settar, en ég vænti þess, eftir að umsögn hefur borizt frá fjvn. um þær till., sem þegar liggja fyrir um, hvernig þessar reglur verði, að þá verði hægt að ganga frá málinu innan tíðar.