20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í D-deild Alþingistíðinda. (3648)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að láta í ljós undrun mína yfir því, hversu langan tíma það tekur að taka ákvörðun um ekki meira mál en þetta. Ef ég man rétt, kom það fram í svari hæstv. fjmrh. s.l. vor, að til athugunar um þessi efni hefði verið stofnað þá fyrir tveimur árum. Ég vona, að ekki skakki miklu um tímaákvörðunina í mínu minni. Þá skilst mér, að athugun um þetta mál, — athugun á því, hvort eigi að setja ákveðnar reglur um þetta efni, sem hér greinir, um notkun bifreiða í eigu ríkisins, — hafi tekið 21/2 ár. Enn er niðurstaða ekki fengin. Þetta vefst svo óskaplega fyrir fjmrn. og fjmrh., að nú hefur hann skotið því til fjvn. með ósk um það, að hún láti í té umsögn.

Það er básúnað, að hér sé um mikið vandamál að ræða. Þetta er ekkert vandamál í mínum augum. Þetta er í mínum augum rangindi, sem þarna hafa verið viðhöfð og eru viðhöfð og uppi er haldið. Það er viðurkennt af hæstv. fjmrh., að um sé að ræða launafríðindi til einstakra embættismanna, en það hafa ekki nema einstakir embættismenn fengið þetta. Það eru aðrir embættismenn, sem allt eins vel ættu þetta skilið og allt eins hefðu mikla þörf fyrir þetta að mínum dómi, a.m.k. eins og hinir, sem hafa fengið þessi hlunnindi. Þarna er um mismunun að ræða, sem ekki er þolandi. Og svo upplýsir hæstv. fjmrh. og telur sér það til tekna að mér skilst, að hann hafi lokað alveg fyrir þetta fyrir tveimur árum. Það sé engum nýjum mönnum bætt við. Það er gott og blessað. Þeir skulu ekki fá nein launafríðindi, sem taka nú við, en hinir skulu halda þeim, sem voru búnir að ná í þau. Þetta er blettur, sem á að afmá og það þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Og það er alveg yfirgengilegt, að það skuli taka 21/2 ár að setja reglur, sem jafn sjálfsagt er að setja og þessar og eins og hv. síðasti ræðumaður drap á, að það skuli ekki vera settar reglur um notkun þessara bifreiða og það skuli vera látið sjást, að það sé verið að nota þær í einkaþágu út um allt land. Þetta er hneyksli.

Það er stundum spurt af hálfu stjórnarinnar: Á hvað viljið þið stjórnarandstæðingar benda, þegar á að spara? Það er hægt að benda á mýmörg atriði. Þarna er eitt þeirra. Það er hægt að spara á bílakostnaði ríkisins.