20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (3649)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var mikil hneykslun í orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. yfir þeirri dæmalausu ósvinnu, að ég skyldi ekki vera búinn að setja reglur um bílanotkun ríkisins og það væri furðulegt, að það hefði staðið á þessu hjá mér í 21/2 ár, síðan ég hefði hafizt handa um athugun á þessu máli. Það vill nú svo til, að ég er ekki fyrsti fjmrh. á Íslandi. Það vill nú svo til, að ríkið hefur átt æðimarga bíla áður, en ég varð fjmrh. Og það vill ennfremur svo til, að það er búið að rannsaka þessi mál í ég hygg 20 ár. (Gripið fram í.) Nei, það getur vel verið. Ég þakka hv. þm. fyrir það, að hann hefur svona dæmalaust traust á mér, að ég eigi að geta á einfaldan hátt sett reglur um það, sem fyrirrennurum mínum hverjum eftir öðrum hefur ekki með einhverjum hætti þótt tiltækilegt að setja reglur um. Það ætti ég auðvitað að þakka. En ég verð hins vegar að játa, að ég er þeim ekki það miklu fremri, að þetta kannske vefjist ekki fyrir mér líka. Það verð ég að játa. En þetta bílamál er nefnilega mál, sem er til komið fyrir langalöngu. Og ég hygg, að það hafi verið a.m.k. tvær n. fyrir mína tíð, sem hafi verið búnar að rannsaka þetta mál og safna um það gögnum, sem að vísu þurfti að vinna upp öll aftur, vegna þess að það var margt nýtt, sem kom hér til og við vildum fá frekari upplýsingar um. Úr báðum þessum athugunum, sem ég vissi til um, hafði ekkert komið út og rn. hafði ekki treyst sér til að setja um þetta fastar reglur. Ég er hv. þm. og eins fyrirspyrjanda nákvæmlega sammála um nauðsyn þess að setja þessar reglur. En ég hverf ekki frá því, að hér er um eitt erfiðasta mál að ræða í sambandi við ríkisreksturinn, þ.e.a.s. að setja reglur um jafn veigamikil hlunnindi og hér er um að ræða, sem hlytu að fela í sér verulega skerðingu þessara hlunninda og gera það með einu pennastriki. Það er ekki eins auðvelt og að halda áfram á þeirri braut og segja sem svo: Ja, úr því að þetta hefur þróazt í þessa átt, skulum við bara halda því áfram og leyfa miklu fleiri embættismönnum að fá þessi réttindi. Það hef ég ekki talið rétt að gera. Það er alveg rétt. Ég taldi, að það bæri að stöðva þetta og reyna að komast til botns í þessu máli og ég vil taka það alveg sérstaklega fram, til þess að það valdi ekki misskilningi, að ég er síður en svo að varpa af mér eða rn. neinni ábyrgð á hendur fjvn. Þetta mál er hins vegar svo flókið og víðkvæmt vil ég segja á margan hátt og felur í sér svo mikilvæg hlunnindi margvíslegra embættismanna í þjóðfélaginu, að ég tel nauðsynlegt, að þeir aðilar, sem eiga að sjá um ríkisfjármálin og bera ábyrgð á þeim, sem er annars vegar fjmrn. og hins vegar fjvn., hafi samráð um þetta. Það hafa verið gerðar ákveðnar till. og ákveðin drög að reglum hafa verið undirbúin af hálfu rn. Og það eru þessar reglur, sem ég hef óskað eftir að fá álit fjvn.–manna á, sem hafa mikla reynslu í þessum efnum og hafa hugsað mikið um þau á undanförnum árum. Og það er síður en svo, að ég ætli að skýla mér á bak við þá. En ég held, að það hljóti engum að geta dulizt, að það er á engan hátt óeðlilegt, að það taki nokkurn tíma og þurfi margt að skoða og margt komi til athugunar í sambandi við mál, sem hafa þróazt um áratugi með þessum — ég vil segja á margan hátt óeðlilega hætti. Eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, þá verður það ekki leyst á augabragði. Það afsakar hins vegar ekki það, að málið verði ekki leyst og málið er komið á það stig, að búið er að safna öllum þeim gögnum, sem þarf til þess að átta sig á þessu viðfangsefni.

Mjög veigamikill þáttur í málinu er endurmat bílastyrkja. Nú þarf að gera upp við sig, hvaða starfsmenn skuli hafa þá. Það er miklu meiri fjöldi manna en hefur raunverulega bíla til umráða og það mál er þegar komið í endanlegt mat og búið að afgreiða marga aðila í sambandi við það. Eftir er svo spurningin um þessa bíla og hvaða reglur er hægt að setja varðandi eigin not starfsmanna á bílum.

Það er alveg hárrétt, sem hér kom fram, að það er auðvitað með öllu óeðlilegt, að notaðir séu ríkisbílar, ekki sízt eftir að tilkostnaður við þá vex, til eigin þarfa í stórum stíl. Og það er þetta, sem verður að meta. Það má auðvitað hugsa sér, að það eigi að banna öllum embættismönnum, sem bíl hafa, að nota hann til eigin þarfa. En það er ekki alveg einfalt mál, ef ætlazt er til þess, að viðkomandi starfsmaður eigi þá tvo bíla. Það, sem mér sýnist heldur kom til álita í því, er að gera mat á því, hvað verði talið, að sé raunveruleg þörf viðkomandi embættismanns fyrir bíl og hann beri þá kostnað af bílnum að einhverju leyti í hlutfalli við það. En ég skal ekki fara út í einstök atriði í því efni, hvernig hægt er að hugsa sér þetta. Það er hægt að hugsa sér fleiri en eina leið í þessu og það hefur verið á það bent af þeirri n., sem hefur unnið að þessu á vegum rn. og ég vonast til þess, að innan tíðar verði hægt að ganga endanlega frá málinu. Hitt er svo annað mál, hvað menn svo að lokum verða ánægðir, þegar frá því hefur verið gengið, því að við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að þetta er mál, sem snertir hagsmuni mikils fjölda manns í þjónustu ríkisins.