20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í D-deild Alþingistíðinda. (3653)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á þau rök, sem hæstv. fjmrh. hefur flutt og hafa verið heldur léttvæg, hvað þetta sé flókið mál. Ég held einmitt, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi komið fram með einfalda till., sem hæstv. fjmrh. reyndi að vissu leyti ekki að mæla gegn, að það verði hætt að láta embættismönnum ríkisins í té bifreið, sem er í eigu ríkisins og láta ríkið að öllu leyti sjá um rekstur bifreiðarinnar, heldur verði tekinn upp sá háttur, að þeir starfsmenn ríkisins, sem talið er nauðsynlegt eða eðlilegt að fái hlunnindi í sambandi við rekstur bifreiðar, fái þau í formi styrks, sem þeir gætu þá notað annaðhvort til þess að reka eigin bifreið eða standa undir kostnaði, ef þeir tækju sér bifreið á leigu við að rækja starf sitt. Og ég held, að þessi leið sé mjög auðfarin. Það gæti vel verið, að það þyrfti mismunandi reglur um fjárhæð styrkjanna til einstakra embættismanna, en eins og kom hér fram, finnst mér ekki fara vel á því, að hæstv. fjmrh. sé að skjóta sér á bak við sinn forvera í þessu embætti, vegna þess að á árunum 1964, eins og hér hefur komið fram, voru sett ný heildarlög um laun starfsmanna ríkisins og þá voru gerðar geysilegar breytingar á öllu launakerfinu og vissir embættismenn hækkaðir ég held bara upp undir 50% í launum. En þeir voru látnir halda þessum hlunnindum. Ef það er rétt, að ekki hafi verið neitt tillit tekið til þessara stórkostlegu hlunninda, sem í því eru fólgin að hafa bíl í eigu ríkisins og láta ríkið sjá um reksturinn, þarf náttúrlega að endurskoða og leiðrétta launakerfið með tilliti til þessara fríðinda. Og það væri heppilegast, að það væri viðurkennt í launakerfinu sjálfu. Þá er ekki verið að reyna að fara einhverjar krókaleiðir eða fela eitthvað, sem talið er rétt, að menn hafi fyrir sitt starf í þágu ríkisins. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að hér er um stórkostleg hlunnindi að ræða, miðað við það, sem þessir bílar kosta, sem þessir embættismenn nota nú almennt. Það eru nú venjulega ekki fólksvagnar, sem þeir eru á, eins og við vitum. Stofakostnaður við þessa bíla og rekstur þessara bíla nemur stórkostlegum fúlgum á ári, miðað við þann kostnað, sem orðinn er eftir þessa síðustu gengisfellingu hæstv. ríkisstj. Og þessi heimili, sem þarna er um að ræða, eru hátekjuheimili. Þetta eru fyrst og fremst embættismennirnir, sem hafa hæstar tekjur fyrir sín störf í þágu ríkisins, þannig að ef við tækjum þetta dæmi með bílinn, þessa gerð bíla, inn í heimilishaldið, þá mætti kannske segja, að tekjur þessara heimila væru kannske um 500 þús., kannske sums staðar upp í 700–800 þús., ef við tökum fullt tillit til stofnkostnaðar bílsins og rekstursins, miðað við það, að maðurinn ætti þennan bíl og yrði að reka hann sjálfur, svo að hér er um geysileg fríðindi að ræða. En eru þau á öllum stöðunum fullkomlega réttmæt og eðlileg? Það held ég nefnilega ekki. Og eins og kom fram, felast í þessu stórkostleg rangindi og mismunun meðal embættismanna ríkisins, sem er ekki hægt að þola. Og það er ekki hægt að draga lengur að setja ákveðnar reglur um þetta. Það mætti þá a.m.k. byrja á því að merkja þessa bíla, þannig að almenningur gæti fylgzt með, hvar þeir eru á ferð og hverjir aka þeim, eins og kom hér fram hjá hv. fyrirspyrjanda. En þó að það vefjist — og mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh., að það ætti eftir að vefjast enn lengur fyrir honum að setja þessar reglur, — þó að það vefjist fyrir honum að hreyfa við þessum hátekjuheimilum, þá hefur það ekki vafizt fyrir honum að taka núna 20% af framfærslutekjum þeirra, sem minnst hafa. Það vefst ekki fyrir hæstv. ráðh.