02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3672)

43. mál, hraðbrautir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 44 er fsp. frá Tómasi Karlssyni til hæstv. samgrh. um lagningu hraðbrauta með varanlegu slitlagi. Ég mun með örfáum orðum gera grein fyrir þessari fsp.

Öllum er ljós sú þörf, sem er á því að gera vegakerfið betra og koma upp þessum margumtöluðu hraðbrautum, sem fsp. lýtur að. Með vegal., sem sett voru fyrir fáum árum, voru gerðar ráðstafanir, sem gátu réttlætt vonir margra um, að verulegur skriður kæmist á þessi mál, þar sem tekjur vegasjóðs voru stórauknar með 90 aura hækkun á hvern lítra af benzíni, en að vísu var framlag ríkissjóðs, sem óhætt er að segja, að verið hafi um árabil á fjárl., fellt niður. Þrátt fyrir þennan tekjuauka hefur lagningu hraðbrauta miðað hægt alla tíð frá setningu nýju vegal. Og sjálfsagt hefur það verið vegna þess, að margir fundu, hversu hægt gekk, að fyrr á þessu ári, — ég hygg, að það hafi verið í apríl, — voru enn á ný samþ. hér á Alþ. miklar hækkanir á rekstrarvörum til bifreiða, eins og þá var talað um, til þess að afla fjár til hraðbrauta. Þá var benzíngjaldið hækkað um 1 kr. á lítra upp í 4.67, ef ég man rétt og þungaskattur á dísílbifreiðar hækkaður um eitthvað, sem átti að samsvara þessari benzínhækkun, en hækkunin á þungaskattinum kemur þó mjög misjafnlega niður, sbr. þær umr., sem urðu í Sþ. fyrir nokkrum dögum um þungaskattinn, þar sem það var upplýst; að skatturinn hefði við setningu laganna verið miðaður við 30 þús. km akstur á ári, en fram kom, að a.m.k. á einum stað á landinu, í Vestmannaeyjum, væri meðalakstur dísilbifreiðanna aðeins 10 þús. km. Með áður nefndum lögum var gúmmígjaldið enn fremur fjórfaldað.

Þessar auknu tekjur, 1 kr. á benzínlítra, þungaskattshækkunin og gúmmígjaldshækkunin, áttu samkv. áætlun, sem lögð var hér fyrir hv. Alþ., að mig minnir að skila til ríkissjóðs á þessu ári 109 millj. kr. auknum tekjum, miðað við heilt ár 135 millj. kr. En nú fáum við væntanlega að heyra, hvernig þessar áætlanir hafa staðizt, því að b–liður fsp. á þskj. 44 lýtur einmitt að því efni.

Þrátt fyrir miklar tekjur vegasjóðs eru þó stórir hlutar umferðartekna enn þá teknir til annarra nota. Og hér hefur oft verið bent á nauðsyn þess að verja öllum eða mest öllum tekjum af bifreiðainnflutningi, bifreiðum og rekstrarkostnaði þeirra til veganna. Þessi leið hefur ekki verið farin um nokkurt skeið, en engu að síður hefur vegasjóður verulegar tekjur, en hætt er við, að allhár hluti þeirra tekna gangi til að standa undir lántöku og þá fyrst og fremst erlendum lántökum, sem vitanlega hafa hækkað eins og allar aðrar lántökur við síendurteknar gengisfellingar hæstv. ríkisstj.

Það er enginn vafi á því, eins og ég sagði áðan, að þörf landsmanna fyrir bætta vegi er geysilega brýn og ekki minnkar hún við það, að meðalverðlag á amerískri fólksbifreið er nú um 700 þús. kr. Ég hygg, að ódýrasta tegund fólksbifreiða, sem hægt er að kaupa frá Bandaríkjunum, kosti eitthvað á 7. hundrað þús. kr., og sjá þá vitanlega allir, hversu mikil þörf og vaxandi er á því, að bifreiðarnar séu ekki eyðilagðar strax á fyrsta eða öðru ári vegna þessara vondu vega.

Fsp. verður svarað hér á eftir og ég skal ekki hafa þessa framsögu öllu lengri, en ég hefði óskað eftir því, ef hæstv. samgrh. sæi sér fært, að hann upplýsti jafnframt því, sem spurt er um þarna, hvaða hraðbrautir séu nú í framkvæmd. Ég hygg, að þær muni einhverjar vera. A.m.k. sér maður vegagerð fyrir ofan Ártúnsbrekkuna og suður í Kópavogi. Ég hygg, að þarna sé um að ræða hluta af þeim hraðbrautum, sem í byggingu eru, en fróðlegt væri að fá að heyra frekari umsagnir hæstv. samgrh. um það.